Streituhormón geta haft áhrif á þyngd

Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti. Sigurgeir Sigurðsson

„Við erum mörg sem gefum heilsunni og líkamanum aðeins meiri athygli þegar halla fer undan sumri og haustið tekur við. Það er eðlilegt að sleppa aðeins tökum á reglunum og „leyfa sér“ að bregða út af vananum í sumarfríinu. Fá sér aðeins meiri bjór og hvítvín, grilla steikur og borða hvítlauksbrauð með og auðvitað fá sér ís á góðviðrisdögum. Ekkert flókið við það. Það, sem hins vegar getur verið flóknara, er að koma sér aftur í gírinn og inn í rútínuna og losa sig við líkamlegar minningar góðs sumars sem eru áþreifanlegar og sýnilegar eins og til dæmis „magabeltið“ góða,“ segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir, næringaþerapisti og hjúkrunarfræðingur, í sínum nýjasta pistli:

Nú kann að vera, að þú hafir ekki breytt út af neinu í sumar og lífsstíll og mataræði spegli vel venjur og lífsreglur þínar. Ef þú ert í toppformi allt árið þá til hamingju með það og þá á þessi pistill kannski ekki erindi til þín. Ef þú ert jó jó týpan og skoppar upp og niður í heilsusamlegum ásetningi, þá hinkraðu. Einnig þú sem ert tiltölulega stabíl/l í óhollustunni. Eigum við ekki að gefa okkur það, að hætta að dissa hvernig líkaminn lítur út eða fara í sjálfsskömmina út af aumingjaskap og framtaksleysi? Tylltu þér frekar niður augnablik og lokaðu augunum, dragðu andann djúpt og dæstu svo. Hátt. Með opinn munn. Þrisvar sinnum. Taktu svo stöðuna. Hvernig líður þér? Hvað ertu ánægð/ur með? Hvað getur verið betra og hvar þarftu að taka þig á og stöðuhækka þig.

Það er ekki ólíklegt, að við eigum ókláruð mál frá liðnum vetri og þau eða afleiðingar þeirra eru enn að krauma í frumunum. Spurningin er hvort þú viljir taka sömu mál með áfram inn í ókominn vetur. Ef þú gefur þér tíma og hlustar, þá er líkaminn að reyna að tjá sig í „magabeltinu“, þreytunni, slóleikanum, depurðinni, uppþembunni, hægðateppunni, verkjunum í liðunum, svefnleysinu og eirðarleysinu. Þetta eru hagnýtar upplýsingar og hluti af lífsstílssögunni þinni. Til dæmis fitan á maganum. Ef hún er mjúk á naflasvæðinu og flæðir yfir buxnastrenginn er mjög líklegt að þar geymist ójafnvægi á blóðsykri, fæðuóþol, meltingarvandamál og bólgumyndun.

Ef maginn stendur beint út í loftið getur það tengst fitumyndun vegna viðbragða streituhormóna. Þau eru góð og gagnleg í hófi en ef streitan er langvarandi og hvorki líkamlegt, næringarlegt né andlegt viðnám er til staðar, þá hefur það margvislegar afleiðingar. Meðal annars getur verið erfitt at losna við aukakílóin á maganum ef streitan er ekki tekin alvarlega.

Efnaskiptavilla (metabolic syndrome) einkennist meðal annars af fitumyndun á öllum búknum þ.e.a.s undir brjóstum, um miðjuna og niður eftir. Samhliða getur LDL-kolesteról verið hátt, HDL-kólesteról (það góða) lágt og blóðþrýstingur of hár.

Bólgumyndun (inflammation) er samnefnari í öllum tegundum af fitumyndun. Sagan á bak við öll þessi einkenni á rætur sínar að rekja í lífsstílinn, þar á meðal vana og mynstur. Afgerandi þættir eru mataræði, streituvaldar og -viðbrögð, meltingarflóra í þörmum, persónulegur styrkur og sjálfsmynd.

Ef þú til dæmis furðar þig á, að þú grennist ekki eða sért orkumeiri, þrátt fyrir líkamsrækt og minni neyslu af sykri, þá eru hugsanlega fleiri þættir sem þarf að líta á og vinna í. Vert er að hafa í huga, að streitan frá síðasta vetri eða síðustu vinnutörn er enn að virka í líkamanum þó svo að þú hafir verið í 3 vikna fríi. 

Meltingin og meltingarflóran í þörmum skiptir líka mjög miklu máli og margar rannsóknir tengja lélega flóru við fitumyndun og offitu og góða heilsu almennt. Mín margra ára reynsla er sú, að svo til allir eiga við einhvers konar meltingarvandamál að stríða og sem geta haft áhrif á eðlilega starfsemi lifrarinnar og á framleiðslu boðefna sem eru afar mikilvæg fyrir orku, andoxun, gleði, hamingju, geðheilsu og svefn. 

Þreytan og orkuleysið er saga út af fyrir sig. Orkumyndun líkamans er meðal annars háð jafnvægi í blóðsykri og hormónum sem aftur er háð rétt samansettu mataræði. Lífsorkan sjálf verður til í frumum, hamingjunni og sköpunargleðinni. Við bindum oft orkuna í ýmislegt sem þjónar okkur misjafnlega vel. Til dæmis í ímyndun eða hugmynd sem ekki alltaf á við veruleikan að styðjast (allir eru vondir við mig, misskilja mig, svíkja mig), í skömm eða sektartilfinningu eða við sitjum föst í einhverju sem heyrir fortíðinni til og viljum (getum) ekki sleppa. Sykurinn blessaði, verður oft besta meðalið og huggar okkur þegar við erum í sárum.  

Við eigum eitt líf og einn líkama og mitt besta ráð er að taka ábyrgð og gera eitthvað gott, uppbyggilegt og varanlegt fyrir bæði. Mataræðið er hornsteininn. Að gefa líkamanum, ekki bara það sem hann þarf á að halda til að komast af, heldur það allra besta fyrir þig. Matur og næringarefni sem næra, bæta, laga og kæta. Líkamlega og andlega. Hagnýtur matur byggir upp og styrkir vöðva, vinnur á bólgum og brennir fitu og býr til nýtt minni í heilanum! Réttur matur og góðu gerlarnir laga meltinguna og gera klósettferðirnar reglulegri og í alla staði ánægjulegri. Mataræðið gerir þetta ekki eitt og óstutt. Líkamsrækt, yoga og útivera er liður í ljómandi góðum lífsstíl. Líkaminn þinn verður 10 árum yngri!

Það gerir þetta enginn fyrir þig. Heilsan er ábyrgð okkar og það er frábært frelsi falið í að þekkja líkamann sinn og hverju hann nærst best á. En öll þurfum við stuðning. Við þurfum ekki að vera alein á þessu ferðalagi. Taktu þátt með mér í Ljómandi Heilsubyltingunni!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál