„Best er að borða venjulegan heimilismat“

Agnes Þóra Árnadóttir, íþróttanæringarfræðingur.
Agnes Þóra Árnadóttir, íþróttanæringarfræðingur. Ljósmynd / Agnes Þóra Árnadóttir

Íþróttanæringarfræðingurinn Agnes Þóra Árnadóttir mun halda erindi um mataræði kraftlyftingafólks á morgun, en hún hefur undanfarið kynnt sér nýjustu rannsóknir í þeim efnum. Þá ætlar Agnes að einblína á það sem fólk ætti að láta ofan í sig, til þess að hámarka árangur sinn, í stað þess að einblína á efni sem fólk ætti ekki að láta inn fyrir sínar varir.

 „Ég ætla í raun og veru að fjalla um hvað holl og góð næring er, og gera fólki grein fyrir því magni sem það þarf að borða miðað við þyngd og æfingar,“ segir Agnes Þóra og bætir við að kraftlyftingafólk sé jafnan vel upplýst um mataræði.

„Þessi hópur er yfirleitt meðvitaðri en almennir borgarar. Það er svolítill misskilningur ríkjandi meðal almennings, sem heldur að við séum að fá miklu minna prótein úr fæðunni en við gerum. Fólk heldur að við þurfum af fá meira af því, en það prótein sem við notum ekki er geymt sem fita í líkamanum líkt og önnur næringarefni,“ segir Agnes Þóra og bætir við að flestir þurfi ekki á fæðubótarefnum að halda, enda sé hægt að fá flestöll næringarefni úr fæðunni.

 „Notkun fæðubótarefna getur gagnast ákveðnum einstaklingum en flest okkar þurfa þau ekki. Margir þeir sem taka fæðubótarefni, til dæmis íþróttafólk, geria það vegna þess að það er þægilegt. Fólk hefur kannski ekki tíma til að undirbúa mat, eða er einhvers staðar á hlaupum. Flestöll næringarefni, nema D-vítamín, getum við þó fengið úr fæðunni,“ bætir Agnes Þóra við og segir að erfitt sé að fá nægilegt D-vítamín úr mat. En hvað á kraftlyftingafólk helst að láta ofan í sig, og er mataræðið frábrugðið því sem hinn almenni borgari ætti að tileinka sér?

„Best er að borða venjulegan heimilismat, en í svolítið meira magni en skrifstofufólkið sem æfir lítið. Svo þarf aðeins að huga að tímasetningum. Hvenær þau eiga að borða í kringum æfingar, magninu og svo framvegis. Síðan þurfa þau meira prótein en kyrrsetufólk, en auðvelt er að mæta þeirri þörf með próteinríkri fæðu. Og þá þarf kraftlyftingafólk einnig að passa sig á að fá holla fitu, kalk og D-vítamín.“

Best er að borða fjölbreytta fæðu

Margir telja að íþróttafólk þurfi að lifa á eintómum eggjahvítum og gufusoðnum kjúklingabringum, daginn út og inn. Agnes Þóra segir þó að sú sé ekki raunin, enda sé best að fæðið sé fjölbreytt.

„Það er ekki hollt að borða einhæfa fæðu. Við viljum hafa fæðuna fjölbreytta til þess að fá öll þau vítamín og steinefni sem við þurfum svo við þurfum ekki að bæta það upp með fæðubótarefnum.“

En hvernig er best fyrir kraftlyftingafólk að haga máltíðum sínum?

 „Fólk þarf að passa að fá sér góða máltíð, einni til fjórum klukkustundum fyrir æfingu. Því lengri tími sem fer í æfinguna, þeim mun stærri á máltíðin að vera. Einnig þarf að passa að sú máltíð sé kolvetnarík og innihaldi ekki of mikið af fitu, því hún fer hægar í gegnum meltinguna. Svo þarf að passa sig að borða frekar fljótt eftir æfingu, og þá kolvetnis- og próteinríka fæðu. Og þá má alveg borða fitu. Þau þurfa líka að passa að borða jafnt og þétt yfir daginn svo að líkaminn gangi ekki á vöðvana fyrir orku. Kraftlyftingafólk fær sér til að mynda gjarnan snarl eftir kvöldmat, ólíkt því sem mælt er með fyrir meðal-Jóninn“ segir Agnes að endingu.

Fræðslufundurinn fer fram á morgun í húsi ÍSÍ í Laugardal og hefst klukkan 18. Nánari upplýsingar má finna hér.

Kraftlyftingafólk þarf að huga vel að mataræðinu.
Kraftlyftingafólk þarf að huga vel að mataræðinu. Ljósmyndari / Sigurjón Pétursson
mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál