Núvitund er engin töfralausn

Bryndís Jóna Jónsdóttir segir alla geta æft sig í núvitund.
Bryndís Jóna Jónsdóttir segir alla geta æft sig í núvitund. Ljósmyndari / Gísli Berg

Bryndís Jóna Jónsdóttir hefur starfað við mannauðsstjórnun, verkefnastjórnun, ráðgjöf og kennslu. Hún er núvitundarkennari hjá Núvitundarsetrinu, með MA-diplóma í jákvæðri sálfræði og MA í náms- og starfsráðgjöf.

Í dag mun Bryndís Jóna halda fyrirlestur í Hörpu, en hún er einn af fyrirlesurunum sem koma fram á heilsuráðstefnunni Heilsa og lífsstíll. Í erindi sínu mun hún fjalla um hvernig má flétta núvitund við annasamt daglegt líf, án þess að hún verði enn eitt atriðið á verkefnalistanum. En hvað er núvitund?

 „Í raun þýðir núvitund það að upplifa lífið þegar það er að gerast. Að vera andlega til staðar og auka meðvitund sína um það sem er að gerast innra með þér og í kringum þig. Við þjálfum okkur í því að taka því sem lífið færir okkur með forvitni, opnum huga og án þess að dæma það. Við erum í raun að þjálfa athygli okkar. Tökum veðrið sem dæmi, þú kemur út og það snjóar, í stað þess að bölva kuldanum og setja undir þig hausinn þá opnarðu þig fyrir því sem þú finnur fyrir, skynjar kuldann í loftinu, hvernig hann snertir húðina, hvernig það er að anda að sér köldu loftinu og tekur því hvernig snjókornin falla. Við erum að virkja skynfærin okkar betur. Vera til staðar svo að við missum ekki af lífinu líkt og gerist þegar við erum á sjálfsstýringunni og andlega fjarverandi,“ segir Bryndís Jóna og bætir við að núvitund hafi jákvæð áhrif á andlega sem líkamlega heilsu.

„Streita og kvíði er ein mesta heilsuógn sem við stöndum frammi fyrir í dag. Núvitund er öflug leið til að draga úr streitu, kvíða og þunglyndi, efla ónæmiskerfið, auka athygli og einbeitingu, bæta sjálfsþekkingu og samskiptahæfni og svo mætti lengi telja. Rannsóknir á núvitund ná yfir mjög víðtækt svið og má segja að það að tileinka sér núvitund geti haft jákvæð áhrif á öll svið lífsins, parasambönd, foreldrahlutverkið, vinnustaði, heilbrigðisþætti og svo framvegis.“

Núvitund hjálpar fólki að takast á við áskoranir

Bryndís Jóna segir þó að núvitund sé engin töfralausn og bendir á að fólk fljúgi ekki um á bleiku skýi ef það tileinkar sér hana. „Lífið færir okkur alls konar áskoranir og núvitund hjálpar okkur til að takast á við þau verkefni sem lífið færir okkur af meiri yfirvegun, bæði erfiðu og góðu stundirnar.“

En er ekki nóg að hreyfa sig og borða hollan mat til að halda sér í formi, þurfum við í raun á núvitund að halda?

 „Nýjustu rannsóknir sýna að öflugasta heilsueflingin er hæfileg blanda af þessu öllu saman. Við höfum lengi vitað að hreyfing og mataræði er mikilvægir þættir, en á undanförnum árum hefur áhersla á hugarræktina vaxið. Rannsóknir á gildi hverskonar hugleiðslu sýna fram á mjög jákvæð áhrif á heilsu. Mikilvægasta rannsóknin er þó alltaf þín rannsókn á því hvort þetta virki fyrir þig, og miðað við það sem vísindalegar rannsóknir segja okkur þá ætti að vera vel þess virði að prófa,“ segir Bryndís og segir að fólk geti ræktað með sér núvitund með tveimur leiðum.

Núvitund er að upplifa lífið þegar það gerist.
Núvitund er að upplifa lífið þegar það gerist. Ljósmynd / Getty Images

 „Við ræktum með okkur núvitund eftir tveimur leiðum, með formlegum æfingum sem er þá núvitundarhugleiðsla og óformlegum æfingum sem er allt það sem við gerum með vakandi athygli í daglegu lífi. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur en hugleiðslan, til dæmis þegar þú ferð í sturtu þá ertu ekki á sjálfsstýringunni að skipuleggja vinnudaginn heldur upplifirðu hvernig vatnið snertir húðina, finnur lyktina af sápunni og svo framvegis. Þegar þú ert með barninu þínu þá ertu raunverulega til staðar að hlusta og tala við það en ekki í bakhöfðinu að velta fyrir þér hvað þú þarft að muna að gera í vinnunni. Hugleiðslan er hins vegar mikilvægur þáttur til að þjálfa athyglina þannig að það sé auðveldara að vera til staðar í lífinu og færa núvitund inn í athafnir daglegs lífs.“

Allir geta tileinkað sér núvitund

Bryndís Jóna segir að allir geti tileinkað sér núvitund, enda snúist þetta ekki um að tæma hugann.

 „Það er alveg klárt. Þetta snýst ekki um að tæma hugann heldur að taka eftir þeim hugsunum sem flæða um kollinn okkar, taka eftir þeim tilfinningum sem við finnum fyrir og hvað líkaminn okkar er að segja okkur. Það geta allir þjálfað sig í því að vera til staðar í eigin lífi. Allir njóti góðs af því að tileinka sér núvitund, hvort sem þú ert að glíma við sértæka erfiðleika eins og kvíða eða þunglyndi, athyglisbrest, verki eða annað. Eða einfaldlega að takast á við hefðbundin verkefni lífsins.“

Bryndís nefnir að fólk sem hefur tileinkað sér núvitund sýni gjarnan meiri yfirvegun en aðrir, auk þess sem fólk nái að njóta lífsins betur.

Ég myndi segja að yfirvegun væri sá þáttur sem væri mest áberandi og fólk talar oft um að það finni fljótt fyrir því þegar það byrjar að þjálfa sig í núvitund. Fólk bregst við áreiti á yfirvegaðri máta og nálgast hindranir og erfiðleika á annan hátt en áður. Það dregur gjarnan úr dómhörku og velvild í eigin garð og til annarra eykst. Almennt nýtur fólk lífsins betur eftir að það tileinkar sér núvitund,“ segir Bryndís Jóna að lokum.

Frekari upplýsingar um erindi Bryndísar, sem og ráðstefnuna, má finna hér.

Bryndís Jóna segir fólk almennt njóta lífsins betur eftir að …
Bryndís Jóna segir fólk almennt njóta lífsins betur eftir að það tileinkar sér núvitund. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál