Tilhlökkun eftir „eftir“ myndinni

Brynhildur Aðalsteinsdóttir.
Brynhildur Aðalsteinsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Nú styttist í annan endann á Lífsstílsbreytingunni en átta vikur eru liðnar og fjórar eftir. Það er því ekkert annað í stöðunni en að taka á honum stóra sínum og klára dæmið með stæl,“ segir Brynhildur Aðalsteinsdóttir í sínum nýjasta pistli: 

Æfingarnar með Lilju og stelpunum hafa gengið rosalega vel, ég hef bara misst úr einn tíma og hef reynt að vinna það upp með aukaæfingum. Ætli ég sé ekki að skottast í Sporthúsið svona fimm sinnum í viku að jafnaði. Það er klárleg stærsta breytingin hjá mér í þessu verkefni en eins og áður hefur komið fram hefur hreyfing ekki verið nægilega reglulegur partur af tilverunni þó aðég taki vissulega spretti.

Á þessum átta vikum sé ég alveg lygilegan mun sem vekur með mér von um að ég raunverulega nái markmiðum mínum í þetta skiptið, kannski ekki alveg á næstu fjórum vikum, en klárlega á fyrri hluta árs 2017 ef fram fer sem horfir. Allt í einu sé ég móta fyrir vöðvum á höndum og öxlum. Línan sem ég þráði upp hliðarnar á lærunum læðist einnig upp og ég er ekki frá því að rassinn sé aðeins að lyftast. Tilhlökkun eftir „eftir“ myndinni er næstum því orðin kvíðanum yfirsterkari.

Þetta gengur auðvitað upp og niður og þó að ég raunverulega hafi ætlað að taka þetta 100% í upphafi, enda búin að opinbera baráttuna með þokkalega afdrifaríkum hætti, þá kannski fara hlutirnir ekki alltaf þannig. Ég er búin að vera alveg 80-90% í mataræðinu og reyni að finna leiðir sem henta mér og þar liggur náttúrlega lykilinn. Maður verður að aðalaga lífsstílinn sínu daglega amstri og getu og hreinlega sætta sig við það og draga sig ekki niður þó að aðstæður annarra bjóði upp á aðferðir sem kannski ná skjótari árangri.

Í síðustu viku má segja að ég hafi sveigt aðeins út af hinni beinu braut, þó að auðvitað það sé ekkert sem kalla megi mistök eða slíkt. Ég á mína veikleika eins og aðrir og brauð skipar sér þar ofarlega á lista. Ég fékk mér eina brauðsneið og svo þá næstu og koll af kolli yfir alla vikuna. Þá var ég farin að narta í annað meira en góðu hófu gegnir og sennilegast að blóðsykurinn hafi verið á flökti. Ég var sem sagt ekki að borða hollu tegundina af brauði, heldur beinlínis þá óhollustu, þ.e. hvítt bagette og þetta fjöldaframleidda heimilisbrauð.

Það sem mér fannst áhugaverðast við þetta, eftir á að hyggja, var að sjá með skýrum hætti hvernig tilveran smátt og smátt riðlaðist í kringum mig. Ég kom heim þreyttari en ég hef verið þessar síðustu vikur. Var miklu minna peppuð um að koma mér út í Sporthús og þess háttar. Heimilið sjálft fékk líka að finna fyrir þessu en þegar orkan er meiri, eins og hún hefur verið, þá ganga aðrir hlutir einfaldlega betur upp. Þvottur, uppvask, tiltekt, heimalærdómur barnanna og slíkt hefur einfaldlega leikið í höndunum á mér undanfarið. Brauðvikuna miklu, sem taldi sennilega nær 10 dögum, þá byrjaði þvottur að hrannast upp og uppvaskið fékk að bíða smá og ég var sennilega aðeins skapverri, þ.e. pirraðist kannski frekar þegar börnin voru með vesen o.s.frv. En þetta var nú bara í tiltölulega skamman tíma og ekkert til að tala um í sjálfu sér. Það þýðir auðvitað ekkert að draga sig niður en eins og allir vita er það leiðin „to the dark side“. Ég bara fattaði þetta eitt kvöldið þegar ég sat þreytt uppi í sófa en ég hafði ekkert tengt þetta beinlínis við brauðnartið mitt sérstaklega eða að ég hefði raunverulega slakað á í mataræðinu. Já og það verður líklegast að fylgja að ég sendi Lilju ekki matardagbók á umræddu tímabili og fékk fyrir það áminningu. Ég vissi innst inni að ég væri ekki að gera góða hluti þó að ég hafi vanmetið áhrifin síðar meir.

Ég reisti mig einfaldlega bara við og er öll betri og merkilegt hvað lélegt hráefni hefur áhrif fljótt á líkamsstarfsemina. Ég sá frétt í gær um kosti almennilegs brauðs og ætla að skoða betur hvort súrdeig og önnur hollustubrauð verði ekki valkostur minn í framtíðinni.

Svo má nú ekki gleyma að við hittum skvísurnar frá því í fyrra um daginn á Bazaar Oddson. Það var æðislegt að fá að heyra í þeim hljóðið og mjög hvetjandi. Það kom nú á daginn að þær flestar höfðu átt í ströggli á þessu tíma, þ.e. 7.-8. viku ,svo mér leið nú aðeins betur að heyra það.

Þangað til næst...

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál