Svekkt að hafa ekki landað 1. sætinu

Lilja Ingvadóttir keppti í fitness um páskana.
Lilja Ingvadóttir keppti í fitness um páskana.

Lilja Ingvadóttir, einkaþjálfari í Sporthúsinu, keppti í fitness um páskana. Hún var búin að æfa vel fyrir mótið og lagði sig alla fram. Hún varð í 2. sæti í +35 flokki en komst ekki í úrslit í +168 cm flokki. 

„Það voru blendnar tilfinningar í gangi eftir mótið – ég var í sæluvímu að klára daginn svona með stæl, í hálfgerðu spennufalli enda langur tími sem ég hef verið að undirbúa mig og um leið svekkt að hafa ekki landað 1. sætinu í mínum flokki, en ég lenti í 2. sæti en það var víst mjög jafnt á stigum á efstu sætum. Þar kom þetta keppnisskap mitt sterkt inn,“ segir Lilja og játar að hún hafi ekki vitað að hún væri með svona mikið keppnisskap.

„Það gekk nánast allt upp, mér leið ótrúlega vel á sviðinu, var örugg og ekkert stressuð, var í mínu albesta formi hingað til, allt eins og það átti að vera með útlitið, bikini, brúnkuna og sjálft formið í toppi. En dómarar voru greinilega hlynntari mýkri og grennri línum í þessum flokki í ár heldur en stæltu og skornu útliti sem ég hefði nú haldið að væri hluti af því að keppa í fitness. En hver veit, kannski á næsta ári þá verður stæltara útlitið í tísku. Þetta er víst mjög misjafnt keppni frá keppni hverju er verið að leitast eftir og þú veist aldrei hvað dómarar eru að miða við. Fyrir mér var ferðalagið sjálft að keppninni aðalmálið, ég lagði allt mitt í þetta, kom á svið ánægð með minn skrokk og er hoppandi glöð að hafa náð mínu markmiði. Er Sigurvegari,“ segir hún.

Lilja Ingvadóttir.
Lilja Ingvadóttir.

Hvað fékkstu þér að borða eftir keppni?

„Ég fékk mér nautalund með öllu tilheyrandi hérna heima með fjölskyldunni og vinum. Svo var það heit súkkulaðikaka með ís í eftirrétt. Skálað aðeins í góðu kampavíni og dreypt á góðu rauðvíni með steikinni. Þetta var alveg ljúffengt.“

Hvernig hafa dagarnir eftir mót verið?

„Þar sem það voru páskar þá bara slakaði ég alveg rosalega vel á og naut mín í góðu yfirlæti. Eðlilega er ég búinn að vera þreytt og svaf mikið og gaf mér þann tíma alveg í það. Það er nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að ná upp orku og jafnvægi eftir svona törn enda er orkan öll að fara í eðlilegt horf núna viku seinna og allt að detta í sína gömlu rútínu. Þarf að passa matarræðið alveg gífurlega vel núna þar sem líkaminn er að halda í allt. Þurfum að ná góðu jafnvægi þar og það tekur smá tíma að trappa sig upp.“

Hvernig muntu æfa næsta mánuðinn?

„Ég auðvitað fór á æfingu strax tveimur dögum eftir mót og hef haldið því nokkurn veginn óbreytt. Eins og var fyrir mót og mun ég halda inni 2 æfingum á dag næstu 2 vikurnar. Þar á eftir minnka ég brennsluæfingar um helming næstu 2 vikur þar á eftir og svo eftir 6 vikur ætti ég að vera komin í þetta klassíska að æfa 5-6 sinnum í viku sem ég geri alltaf, allt árið um kring.“

Hvað fékkstu út úr því að keppa?

„Þetta er ótrúlega mikill lærdómur að keppa, þú ert að sigrast á ótalmörgum hindrunum og þá aðallega í huganum. Slíkur undirbúningur er alveg þaulplanaður og úthugsaður, og þar kom Konráð Valur þjálfari minn sterkur inn enda viskubrunnur hvað þetta varðar. Aldrei fara í slíkt verkefni nema hafa einhvern sem hefur þekkingu og reynslu á svona ferli með þér til halds og trausts. Það er bara glapræði að gera þetta án þess að hafa aðstoð, því það er svo margt sem getur komið upp á því við erum svo misjöfn og bregðumst misjafnlega við. Líkaminn er magnað fyrirbæri þegar þú hefur þekkinguna á honum og finnur hvar mörkin þín liggja og hvað er hægt að gera. Svo er annað – þetta ferðalag var ekki bara að koma kroppnum í gott stand, heldur var þetta ferðalag ekki síður til að hreinsa vel til í huganum og hugsa skýrar, draga sig pínu út úr þessu daglega amstri og hugsa inn á við. Ég hef sjaldan verið eins einbeitt og með hausinn rétt skrúfaðan á eins og núna. Það er sagt að þú sért það sem þú borðar og æfir – og það er það sannarlega. Þetta hefst allt í huganum og þar gerast kraftaverkin sama á hvaða stað þú ert á í lífinu, hvort þú ert að fara að keppa í fitness, í golfi eða vilt losa þig við kílóin. Um leið og þú trúir því einlæglega og án vafa að þú getur, þá fer allt af stað! Þetta mun einnig gefa mér mikla þekkingu inn í mitt starf sem einkaþjálfari.“

Muntu gera þetta aftur?

„Eins og staðan er núna þá er ég ekki viss, en hver veit. Kannski fara á erlenda keppni þá helst. Mér finnst þetta annars fínt í bili, enda gott að taka sér góða pásu á milli í keppnishaldi. Ég hef lært að segja ALDREI SEGJA ALDREI, læt bara ráðast hvað mér dettur í hug hverju sinni.“

Hvernig ertu gíruð fyrir sumarið?

„Ég er rosalega gíruð fyrir sumarið, margt spennandi fram undan í lífinu og aðalmarkmiðið með þessu öllu er að halda góðu formi ávallt og hvað þá í sumar. Ef ég þekki mig rétt, þá verð ég komin á kaf í eitthvert nýtt ferðalag – en þetta er bara svo spennandi að prófa nýja hluti og skora á sjálfan sig. Gerir lífið svo miklu áhugaverðara og skemmtilegra. Manni eru allir vegir færir ef maður vill!“

mbl.is