Ræktin skiptir engu máli ef mataræðið er slæmt

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

„Pælingar um heilsusamlegra líferni, sérfæði og séróskir á veitingastöðum, þegar fólk hagar sér eins og Hollywood-stjörnur og pantar ekki það sem er á matseðlinum eða pantar einhvern rétt, mínus kartöflur og sósu, en plús snöggsteikt grænmeti – telst ekki lengur vera sérviska fárra, heldur lífsstíll margra,“ segir Guðrún Bergmann heilsudrottning í sínum nýjasta pistli: 

Daglegt val um heilsusamlegra líferni hjá fólki sem vill hugsa vel um líkama sinn og heilsu er orðið að staðreynd. Miklar breytingar hafa orðið á neysluvenjum fólks á síðari árum og heilsufæði, sem fyrir tæpum þrjátíu árum fékkst einungis í einni verslun í Reykjavík, sem var opin takmarkaðan tíma á dag, fæst nú í öllum helstu stórvörumörkuðum landsins. Á síðasta áratug eða svo hefur skilningur og þekking á mannslíkamanum einnig aukist mjög. Vísindalegar rannsóknir sýna nú að við getum stýrt ýmsu um heilsu okkar og gert breytingar þar á með breyttum lífsstíl.

NÝR OG BETRI LÍFSSTÍLL

Fyrir mér er þetta HREINN LÍFSSTÍLL og þess vegna hef ég ákveðið að gefa væntanlegri bók minni þann titil. Við erum það sem við borðum og við erum líka það sem við hugsum, eða kannski öllu heldur trúum. Þegar við sleppum tökum á gömlum hugmyndum, lærum eitthvað nýtt og tekst að tileinka okkur það getum við snúið við ótal lífsstíls- og sjálfsónæmissjúkdómum, sem því miður hrjá fjöldann allan af fólki víða um heim í dag.

Mín leið til að hvetja fólk til að gæta heilsu sinnar hefur legið í gegnum greinaskrif, námskeiðin HREINT MATARÆÐI, fyrirlestra og bókaskrif. Verndun heilsunnar er daglegt verkefni, líkt og að fara í sturtu eða bursta í sér tennurnar. Það felst ekki í neinum skyndilausnum eða kúrum, heldur í breyttum lífsstíl til frambúðar.

Ég hef lært í gegnum tíðina að ég get stundað líkamsrækt af kappi og tekið öll bestu bætiefnin, en ef ég borða ekki mat sem styður við líkamann og veldur ekki bólguviðbrögðum eða öðrum vandamálum, skiptir hitt ekki máli. Niðurstaða mín af öllum þeim tilraunum sem ég hef tekið sjálfa mig í gegnum, og þær spanna síðustu þrjátíu ár, er einfaldlega sú að maturinn er mikilvægastur. Bætiefnin eru svo akkúrat það sem felst í orðinu, efni sem bæta mér upp það sem vantar í fæðuna og líkamsræktin styrkir mig og veitir mér liðleika. Samanlagt veita þessir þættir mér aukin lífsgæði.

EINFALDAR OG BRAGÐGÓÐAR UPPSKRIFTIR
Í nýju bókinni minni hef ég í mataruppskriftunum einbeitt mér að því að hafa einfaldan mat, sem hægt er að útbúa og elda á innan við klukkustund – sumir taka mun styttri tíma – frá því komið er heim úr vinnu og sest niður til að borða. Uppskriftirnar taka mið af því sem ég hef heyrt og fundið hjá þátttakendum á námskeiðunum mínum. Flestir borða enn mest af fiski og kjöti, þótt grænmetisréttir séu aðeins prófaðir með og þess vegna hef ég sett fókus á að hafa uppskriftirnar í samræmi við það.

Svo verður auðvitað fullt af fræðslu í henni líka, því með aukinni þekkingu er hægt að taka breyttar og betri ákvarðanir.

Bókin kemur út síðari hluta ágústmánaðar, en ég mun bjóða hana í forsölu með miklum afslætti til þeirra sem eru á póstlistanum mínum strax í júní. Svo fer hún í almenna forsölu í framhaldi af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál