„Hreyfing er mega þerapía fyrir mig“

Stella Rósenkranz hefur alltaf hreyft sig mikið.
Stella Rósenkranz hefur alltaf hreyft sig mikið. ljósmynd/Garðar Ólafsson

Hreyfing er stór hluti af lífi danskennarans og danshöfundarins Stellu Rósenkraz en auk þess að starfa sem deildastjóri í Dansstúdíói World Class er hún að undirbúa stórtónleika Páls Óskars sem fara fram í Laugardalshöllinni í september. 

Hvað gerir þú til að halda þér í formi?

Ég reyni að fara mikið í ræktina. Ekkert alla daga samt, ég tek þetta meira svona í syrpum. Ég hleyp mikið, það er svona mín hugleiðsla. Næ að slökkva aðeins á heilanum, endurhlaða batteríin, skipuleggja mig eða endurstilla fókusinn, það er misjafnt!

Hefur þú alltaf stundað líkamsrækt? 

Já, ég hef alltaf verið aktív og stundað íþróttir. Mamma fór með mig á fyrstu fimleikaæfinguna þegar ég var fimm ára. Ég held að ég hafi prófað að æfa flestar íþróttir sem krakki enda algjört íþróttanörd. Ég er það enn í dag, elska að fylgjast með íþróttum! Líkamsrækt kom svo á seinni árum, samhliða dansinum.

Ertu dugleg að hreyfa þig á sumrin og þegar þú ert í sumarfríi?

Já, ég er það. Það er svo stór partur af því sem ég geri, þ.e. minni vinnu. Dansinn er ekkert nema vöðvastjórnun og vöðvaminni, því betra formi sem ég er í, því betur dansa ég.

ljósmynd/Rakel Tómasdóttir

Hreyfirðu þig öðruvísi á sumrin en á veturna? 

Já, ég er miklu meira úti á sumrin af því að veðrið leyfir það. Hleyp og geng mikið úti með hundinn og svona. Mig langar alltaf í fjallgöngur, ég þarf að fara að bæta mig í því. Nenni því allt of sjaldan!

Hvað færðu út úr hreyfingu?

Hreyfing er mega þerapía fyrir mig. Fá smá útrás og á sama tíma að viðhalda sjálfri mér. Ég þarf að viðhalda mér mikið í styrk og liðleika út af dansinum svo þetta helst allt í hendur. Ég er yfirleitt mest skapandi þegar ég er einhvers staðar að hreyfa mig, þá koma oft bestu hugmyndirnar.

Hugsarðu vel um mataræðið? 

Ég hugsa mikið um holla næringu en ég vinn þannig vinnu að ég borða mikið á hlaupum. Þá næ ég ekki alltaf að borða það sem ég myndi helst vilja setja ofan í mig. Djúsarnir á Joe & The Juice bjarga mér þó alltaf með vítamínin þegar ég hef ekki skipulagt mataræðið nógu vel yfir daginn. En ég stefni á að verða betri í þessu  - þetta er allt að gerast hjá mér.

Hvað gerir þú til slaka á og gera vel við þig?

Ég ferðast mikið, bæði vinnutengt og til að slaka á. Það er oft best að komast í burtu að heiman. Ég fer mikið í nudd, verð að gera það til að vera í lagi líkamlega. Göngutúrar í Heiðmörk eru eitthvað sem ég get ekki sleppt. Heiðmörk hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu, þar sem ég er úr Garðabænum. Útivera gerir mjög mikið fyrir mig, ég er algjört náttúrubarn. Svo fer ég mikið í spa í World Class í Laugum, það er algjör töfralausn við öllu!

Eru einhverjir ósiðir sem þú þarf að venja þig af?

Já, ég þarf að fara fyrr að sofa á kvöldin. Ég er að vinna í því.

Stella Rósenkranz.
Stella Rósenkranz. ljósmynd/Rakel Tómasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál