Svefn og sykur – einhver tenging?

Gunnar Már Kamban skrifaði LKL bókina, Hættu að borða sykur …
Gunnar Már Kamban skrifaði LKL bókina, Hættu að borða sykur og 17:7 svo einhverjar séu nefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svefn er ekkert smáatriði þegar kemur að því að bæta heilsuna og aðstoða í sykurleysinu. Ár hvert eru 8 milljónir skammta af svefnlyfjum skrifaðar út á Íslandi. Þetta er meira en 4 sinnum hærri tala en Danir nota af svefnlyfjum og þeir eru 5,6 milljónir manns svo það er augljóslega eitthvað stórkostlega bogið við svefninn hjá okkur. Við vitum það öll að svefnleysi þýðir orkuleysi sem þýðir að við leitum í orkuríkari mat og hvað er orkuríkara en sykur? Gæti þessi jafna verið rétt?“ segir Gunnar Már Sigfússon í sinni nýjustu grein en hann er lesendum Smartlands innan handar í Sykurlausum september: 

Svefnleysi=orkuleysi=aukin löngun í sykur


Til að skilja hvers vegna maður þarf að sofa vel er gott að líta aðeins á það hvað gerist ef þú sefur EKKI nógu vel eða nærð ekki nægum gæðasvefni:

- Þú er líklegri til að þyngjast og átt erfiðara með að léttast.

- Þú ert líklegri til að fá áunna sykursýki.

- Framleiðsla á hormóninu leptín minnkar. Leptín er svokallað mettunarhormón sem segir okkur að við séum södd. Ertu alltaf svöng/svangur?

- Framleiðsla á hormóninu ghrelin eykst en það er svokallað hungurhormón sem segir okkur að við séum svöng. Rannsóknir hafa sýnt að þegar framleiðslan eykst sækjum við frekar í sykur, einföld kolvetni og saltari mat. Á mannamáli verðum við veikari fyrir skyndibita og sælgæti.

- Framleiðsla á hormóninu kortisól eykst töluvert og framleiðslan fer hægar niður.
Aukin framleiðsla á kortisóli eykur líkur á offitu og áunninni sykursýki.

- Heilinn verður fyrir verulegum og neikvæðum áhrifum. Athygli minnkar, viðbragðstími verður lengri (ekki gott í umferðinni), minnið verður lélegra, rökhugsun brenglast og skapandi stöðvar heilans virka ekki eins vel.

- Ónæmiskerfið verður fyrir verulegum og neikvæðum áhrifum sem geta leitt til tíðari sýkinga og eykur líkur á að þú þróir með þér hjartasjúkdóma eða fáir krabbamein.


Ég get eiginlega ekki undirstrikað það nægjanlega vel hversu mikilvægur svefninn er en ég get sagt þér hvernig þú getur bætt hann verulega og bætt þannig heilsu þína svo um munar og dregið úr líkunum á að fá þessi einkenni sem talin voru upp hér að framan. Það er í raun meira að segja frekar auðvelt.

Samfélagsmiðlar og heilastöðvar

Rétt að skrolla yfir Facebook, Instagram eða Pintrest fyrir svefninn þegar þú ert komin(n) upp í rúm kveikir aftur á heilastöðvunum sem farið var að hægjast á og ekki er svo auðvelt að slökkva á þeim aftur. Við gerum þetta langflest en þetta er hluti af því að þú náir ekki góðum svefni. Slökktu á raftækjunum þínum 30 mínútum fyrir svefn og best væri að taka þau ekki einu sinni með upp í rúm.

Borðaðu létt og rétt – borðaðu snemma

Að borða þungan mat (meltingarlega) of seint getur haldið fyrir þér vöku. Stefndu á að borða kvöldverð fyrr og hafðu hann léttari en hádegisverðinn. Salat með léttari og auðmeltanlegri prótíngjöfum eins og fisk eða eggjum er góður kostur.

Svefnherbergið er ekki „heilagt“

Orðinu heilagt er kannski ofaukið en ef þú vaknar við að velta þér ofan á barna- eða hundaleikföng uppi í rúmi eða sjónvarpið er enn á um miðja nótt þá verður þú að gera svefnherbergið að betri stað því þú manst að heilsa þín er í húfi. Börnin og gæludýrin verða bara að skilja það og nota hin 95% af húsinu til að leika sér í.

Þú hefur bara of mikla orku – það er hægt að laga það

Að hafa mikla orku er oftast tengt jákvæðum aðstæðum en kl. tvö um nótt er ekkert jákvætt við að vilja fara að taka til í bílskúrnum. Hreyfing hjálpar þér að nota þessa orku á réttan hátt á réttum tíma sólarhringsins. Gerðu hreyfingu að lífsstíl. Ég lofa þér því að þú munt aldrei hugsa til baka og hugsa hvern fjárann þú hafir verið að spá með að stunda þessa líkamsrækt.

Þú gleymir forleiknum

Að fara frá A til Ö er ekki gott mál þegar svefninn er annars vegar. Líklegt er að þú náir þér ekki niður ef þú ætlar skyndilega að fara að sofa án þess að taka þessi litlu skref sem hægja á þér og koma huga og líkama í annað ástand. Lestu bók, fáðu þér gott te eða farðu í heitt bað til að trappa þig niður eftir daginn.

Sykurlaus september er í fullum gangi á Smartlandi. Smelltu HÉR til að vera með okkur í lokaðri stuðningsgrúbbu á Facebook. 

Ertu að fylgja Smartlandi á Instagram? Þú gætir unnið Probi Mage LV299-meltingargerla! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál