Eru ekki allir að glíma við tímaskort?

Sólveig Þórarinsdóttir, jógakennari í Sólum.
Sólveig Þórarinsdóttir, jógakennari í Sólum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Jógkennarinn Sólveig Þórarinsdóttir elskar að vera á ferð og flugi. Hún hefur farið með hópa í nokkrar jógaferðir til Taílands en nú er komið að því að sameina jóga og skíðaiðkun í spennandi ferð í Ölpunum. 

Hvað er við þessa ferð sem er svo heillandi?

„Við teljum að með samstarfi Sóla og GB ferða getum við boðið upp á brot af því besta úr báðum heimum. Í fyrsta skipti geta þeir sem hafa ástríðu fyrir skíðum og jóga sameinað þetta tvennt og svo miklu meira þar sem við bjóðum nú uppá einstaka skíða- og jógaferð sem eru til þess fallnar að endurnæra líkama og sál.“

Hvað gerir fólk í jóga- og skíðaferð?

„Nýtur þess að skíða í fjöllunum, í brakandi fersku og hreinu lofti, innan brautar og utan, reynir á sig líkamlega í góðum félagsskap og nú loks með tækifæri á því að stunda jóga samhliða útiverunni. Ég mun leiða jógatíma í hlýjum sal með áherslu á teygjur til að tryggja hámarksendurheimt og vellíðan en boðið verður upp á bæði hlýtt hatha-jóga og hlýtt yin-jóga sem hvort tveggja er aðgengilegt fyrir alla, líka byrjendur. Það er mikil hefð fyrir sauna í Austurríki sem er meðal annars frábært til þess að mýkja og hita þreyttan og kaldan kropp ásamt djúpum og slakandi teygjum í jóganu.“

Hvers vegna eru svona heilsuferðir svona vinsælar?

„Ég hugsa að flestir séu ekki tilbúnir til að fórna heilsuræktinni sinni hver sem hún er þótt farið í sé í frí. Hún er orðin ómissandi hluti af lífstíl svo margra og því nær fólki að velja slíkar ferðir. Við höfum séð þvílíkar umbreytingar á fólkinu sem hefur verið að fara í Taílands-ferðirnar okkar og höfum því miklar væntingar til þessa nýju ferða þó þær verði með ólíku sniði.“

Hverju eru Íslendingar að sækjast eftir þessa dagana?

„Eru ekki allir að glíma við tímaskort í dag?! Tímaskortur er að einhverju leyti tilbúningur og kannski versta einkenni góðæris eða hraðans í samfélaginu en ég met það svo að margir séu að leitast eftir því að hámarka tímanýtingu sína. Hvernig ég get varið frítímanum mínum á uppbyggilegan hátt fyrir mig og fólkið í kringum mig er því eftirsóknarvert.“

Tekurðu einhver frí?

„Já og nei, ég þekki varla lengur muninn á vinnu og fríi, mörkin þarna á milli eru svo óljós hjá mér. Ég tók daga hér og þar frá „neti“ í sumar en er komin af fullum þunga inn í Sólir núna þar sem haustdagskráin okkar er mjög þétt og miklar breytingar. Ég er nánast búin að vera í heimsreisu það sem af er þessu ári m.a. í nokkrum hreyfiferðum og einni undirbúningsferð vegna samstarfs Sóla og GB ferða. Þegar ég vil alvörufrí þá fer ég í sveitina til foreldra minna á Helgustöðum en Unadalur í Skagafirði er mín hleðslustöð og í algjöru uppáhaldi frá því ég var barn.“

Hvernig er þinni jógaiðkun háttað yfir vetrartímann? 

„Ég æfi daglega óháð árstíð en sló aðeins úr í heita jóganu yfir hásumarið því það var svo margt annað ánægjulegt sem togar í mann á þeirri árstíð. Ég get alls ekki án jóga verið en nálgunin, þ.e. æfingarnar og erfiðleikastigið, ræðst af fjölmörgum þáttum. Ég tók nýverið upp á því að hjóla sem nærir útivistarþörfina og ekki síður hraðalöngunina í mér en tekur tíma frá dýnunni. Núna þegar haustið er skollið á af öllum sínum þunga, rútínu og verkefnum finnst mér ómissandi að ná mínum klukkutíma eða tveimur á dýnunni og ég reyni sannarlega að setja það í forgang, einu frávikin eru dansæfingar og svo skíðin þegar snjórinn loksins kemur.“

Breytist mataræðið eitthvað eftir árstíðum? 

„Almennt séð fylgi ég praktískum ráðum ayurveda sem eru systurvísindi jóga í mínu mataræði en sveiflast eitthvað með árstíðunum, ég til að mynda byrja að fasta aftur með reglulegum hætti á haustin eftir þann slaka og óreglu sem fylgir íslensku sumri. Þegar það fer svo að kólna meira þá koma súpurnar aftur inn. Fiturík næring er plássfrek í mínu mataræði en þannig náði ég loks að losa mig mig við sykurlöngun og orkan mín varð jafnari. Hreint cacao í bolla er því mitt heilsu-„treat“ auk þess sem það er raunverulega hjartaopnandi. Ég hef tilhneigingu til að verða járnlítil og við það dettur orkan mín niður og mig langar helst að leggja mig á miðjum degi en fyrst og fremst stendur og fellur orkan mín með því hvernig ég næri mig á heildrænan hátt og þá er svefninn og hreyfingin jafnmikilvæg og maturinn sjálfur. Það eru þó einhverjar fastar matarvenjur sem víkja ekki óháð árstíðum eins og t.d. olíuinntaka, grænir djúsar, súkkulaðiát, sítrónuvatn og þess háttar.“

Hvaða væntingar hefur þú til vetrarins?

„Ég er óvenjuspennt fyrir vetrinum því nú fer að koma að því að afrakstur vinnu síðustu mánaða og eiginlega ára að fari að líta dagsins ljós. Auk breytinga og framkvæmda í Sólum er ég að gefa út tvær bækur erlendis í samstarfi við aðra höfunda og stórt samstarfsverkefni þ.e. nýtt fyrirtæki er í fæðingu. Samhliða þessu langar mig bara að gera sem mest af því að elska, anda, jógast, synda, skíða, svetta, dansa, syngja, spila á hljóðfærin mín, skrifa og allt sem veitir mér gleði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál