Arnar Gauti verður listrænn stjórnandi

Arnar Gauti Sverrisson er listrænn stjórnandi sýningarinnar Lifandi heimili og …
Arnar Gauti Sverrisson er listrænn stjórnandi sýningarinnar Lifandi heimili og hönnun.

Arnar Gauti Sverrisson hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi heimilissýningarinnar Lifandi heimili og hönnun sem fram fer í Laugardalshöll 1.-3. júní 2018. Sýningin var haldin í fyrsta skipti í fyrra undir nafninu Amazing home show en breyttu nafni fylgja breyttar áherslur.

Vista expo eru sýningarhaldarar og mun Arnar Gauti starfa með þeim. Jón Gunnar Geirdal hjá Ysland hefur verið ráðinn fjölmiðlafulltrúi sýningarinnar. 

„Í vor gerðu 24.000 manns sér ferð í Laugardalshöllina til að sjá það nýjasta sem í boði var fyrir heimilin í landinu. 1.-3. júní 2018 er markmiðið að gera enn betur og nú þegar er um 45% sýningarsvæðisins frátekið og mikil eftirspurn eftir plássi,“ segir Jón Gunnar. 

Arnar Gauti segir að þessi áhugi sýnenda endurspeglist í áhuga fólks á hönnun og öllu sem viðkemur fallegu heimili.

„Það er þekkt að fólk hefur gaman af að fara á milli húsgagnaverslana og hönnunarfyrirtækja um helgar og taka rúntinn. Á sýningunni býðst fólki að koma og sjá það helsta sem húsgagnaverslanir, hönnuðir og fyrirtæki sem tengjast heimilinu hafa upp á að bjóða þannig að þetta er gríðarlega stór og áhugaverður vettvangur að upplifa í höllinni næsta sumar,“ segir Arnar Gauti. 

Sýnendur eru allt frá fjölbreyttum hönnuðum, húsgagnaverslunum og verslunum sem tengjast heimilinu á sviði gólfefna, lýsingar, rúma og öryggiskerfa og í raun öll þau svið þar sem hægt er að fá hugmyndir fyrir heimilið.

Jón Gunnar Geirdal og Arnar Gauti Sverrisson verða að vinna …
Jón Gunnar Geirdal og Arnar Gauti Sverrisson verða að vinna saman að sýningunni.
mbl.is