Sagði upp vinnunni og stakk af til Gvatemala

Tinna tók skyndiákvörðun sem hún sér ekki eftir þegar hún …
Tinna tók skyndiákvörðun sem hún sér ekki eftir þegar hún fór til Guatemala.

Tinnu Sverrisdóttur kannast margir við úr Reykjavíkurdætrum. Tinna sem er menntuð leikkona stakk af til Gvatemala fyrr á árinu til þess að læra um kakóplöntuna, krafta hennar og heilunarmátt ásamt því að læra tónheilun. Tinna er ánægð með að hafa hlustað á hjarta sitt og segir ferðina hafa breytt lífi sínu. 

Tinna sem vinnur mikið með súkkulaði segir að einn súkkulaðibolli sé besti morgunmaturinn en súkkulaðið sem hún vinnur með er töluvert frábrugðið hefðbundnu súkkulaði sem við kaupum úti í búð. Nú vinnur Tinna að því að stofna fyrsta súkkulaðisetur borgarinnar ásamt Láru Rúnarsdóttur en setrið heitir ANDAGIFT. Þær Tinna og Lára standa fyrir hópfjármögnun á ANDAGIFT á Korolina Fund en stefnt er á að því að súkkulaðisetrið opni á Rauðarárstígnum í janúar.

Samstarf þeirra Tinnu og Láru var skrifað í stjörnurnar.
Samstarf þeirra Tinnu og Láru var skrifað í stjörnurnar.

Af hverju fórstu til Gvatemala?

„Ég er enn að reyna að skilja það. Árið 2016, á 28 ára afmælisdaginn minn, fór ég í mína fyrstu súkkulaðiseremóníu. Mér fannst það bæði skrýtið og skemmtilegt en mest af öllu spennandi. Ég átti alveg magnaða stund þetta kvöld og hélt áfram að iðka í framhaldinu. Tæpu ári síðar átti ég dásamlegt spjall við stelpuna sem hélt seremóníuna sem var þá orðin vinkona mín en hún var á leið til Gvatemala að hjálpa til við nám sem hét “Yoga of sound and chocolate”. Hún sagði mér frá því og deildi með mér að þetta væri í senn djúp heilun og mikill lærdómur. Ég fór að hágráta þegar hún sagði mér frá náminu og skildi ekki alveg af hverju en eitthvað inn í mér sagði mér að það kæmi ekkert annað til greina en ég færi. Þetta var allt sem ég elskaði í einum pakka, jóga, tónlist og súkkulaði. Svo daginn eftir hætti ég í vinnunni minni og fimm dögum síðar var ég flogin út. Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara og fór með það eitt að markmiði að brosa með augunum og syngja með hjartanu. Nú átta mánuðum síðar skil ég betur hvers vegna ég átti að hlusta á hjartað mitt og innsæi í þetta skiptið því þessi ferð breytti lífinu mínu svo sannarlega.“

Hver voru viðbrögð fólks þegar þú ákvaðst að stinga af til Mið-Ameríku til þess að læra um kakóplöntuna?

„Lang, langflestir samglöddust mér svo innilega og héldu með mér alla leið. Meira að segja yfirmaðurinn minn á þessum tíma óskaði mér til hamingju með hugrekkið og að hlusta á hjartað mitt þrátt fyrir að ég hafi hætt með eins dags fyrirvara. Alveg ótrúleg kona! Það voru einstaka aðilar sem skildu ekkert hvað ég var að fara út í enda hafði ég ekki hugmynd um það sjálf. Og svo aðrir sem vissu ekki einu sinni af brottför minni þar sem ég hreinlega hafði ekki tíma til að láta alla vita því fyrirvarinn var svo stuttur. En langflestir vinir mínir hlógu bara og sögðu: „Jájá auðvitað ertu bara að fara til Gvatemala eftir fimm daga!“ Það virtist ekki koma neinum á óvart enda hef ég verið ansi ævintýragjörn undanfarin ár. Svo ég er þeirrar lukku aðnjótandi að vera umkringd dásamlegu fólki sem styður mig í einu og öllu og fyrir það er ég óendanlega þakklát.“

Tinna í Gvatemala.
Tinna í Gvatemala.

Hvernig var Gvatemala og námið?

„Ég var í tvo mánuði í Gvatemala. Ég bjó við vatn sem heitir Lake Atitlan og er alveg magnaður staður umkringdur eldfjöllum og mikilli orku. Ég var í tæpan mánuð í náminu sem var á jógasetri umkringt óspilltri náttúru. Við vorum um 30 manneskjur í náminu og í þeim hópi var fólk hvaðan af úr heiminum og á öllum aldri. Einn af mínum uppáhalds var danskur maður á sjötugsaldri, algjör grallari, svo var tónlistarfólk, jógakennarar og fólk úr alls kyns stéttum.

Námið skiptist í þrennt, fyrsta vikan var eins konar „retreat“ þar sem við sjálf fórum í gegnum djúpa heilun og mikla innri vinnu. Mér leið eins og ég væri í mastersnámi í sjálfsvinnu. Svo tók við meira aksjón, við lærðum á hljóðfæri, fengum æðisleg workshop og unnum í hópum. Að lokum fengum við rými til þess að undirbúa okkar eigin seremóníur og tónheilun. Lokadaginn var uppskeruhátíð þar sem fjöldi manns sigldi yfir vatnið til þess að njóta afrakstursins. En þá sá hver hópur um hluta af deginum. Til gamans má geta að þennan dag hélt ég mína fyrstu súkkulaðiseremóníu, á 29 ára afmælisdaginn minn. Akkurat ári síðar! Svo allt kom þetta heim og saman á einhvern ótrúlega skemmtilegan og ævintýranlegan hátt. Ég á þessu námi mikið að þakka en það veitti mér innblástur sem fæddi af sér ANDAGIFT.“

Af hverju súkkulaði? Hvað er svona gott við kakóplöntuna?

„Góð spurning! Súkkulaði er ein okkar helsta ofurfæða og kraftar þess eru margþættir. Það stuðlar bæði að líkamlegri og andlegri vellíðan. Súkkulaðið sem við í ANDAGIFT vinnum með er 100% hreint kakó frá regnskógum Gvatemala, það er handunnið af ástríðu frá baun í bolla sem gerir það að verkum að eiginleikar þess og næringarinnihald helst óskert við framleiðslu. Súkkulaðið er stútfullt af ýmiss konar lífsnauðsynlegum næringarefnum. Meðal annars inniheldur það hæsta magn magnesíum af öllum plöntum sem hjálpar okkur að slaka á þreyttum og spenntum vöðvum, einnig er það ríkt af andoxunarefnum sem stuðlar að heilbrigðara ónæmiskerfi og sterku hjarta. Það eykur einnig endorfínframleiðslu til heilans sem hefur hjálpað mörgum að glíma við kvíða og þunglyndi. Því finnst okkur tilvalið að nýta krafta þess í okkar iðkun, því það er fátt meira notalegt en að gæða sér á ilmandi súkkulaðibolla rétt áður en farið er í djúpslökun og hugleiðslu.“

Súkkulaði er oft tengt við sætindi, eru súkkulaðiserímóníur líka fyrir fólk sem ætlar að taka upp heilsusamlegan lífstíl á nýju ári?

„Já svo sannarlega, súkkulaðið sem við neytum dagsdaglega inniheldur oft því miður voðalega lítið magn af hreinu súkkulaði, í staðinn kemur hvítur sykur, mjólk og ýmis önnur efni. En 100% hreint súkkulaði sem þetta er algjör vítamínbomba, það inniheldur engan sykur og engin aukaefni. Að mínu mati er það besti morgunmaturinn, einn súkkulaðibolli gefur mér ró í hjartað, fókus í höfuðið og meira úthald í líkamann. Svo fyrir þá sem hafa áhuga á að næra líkama, huga og sál allt á sama tíma að þá er kakó hinn fullkomni félagi að mínu mati.“

Hvaða áhrif hefur andleg iðkun sem þessi á heilsu okkar?

„Eins og fram hefur komið er hún margþætt. En andleg iðkun sem þessi slakar á vöðvum, lækkar blóðþrýsting, eykur súrefni til heila sem eflir skerpu og úthald, gefur okkur serótónín- og endorfín-boozt auk þess að hjálpa okkur að anda djúpt og finna andlegt jafnvægi á streitutímum.“

Ferðin til Gvatemala var mikið ævintýri.
Ferðin til Gvatemala var mikið ævintýri.

Hvað er ANDAGIFT?

„ANDAGIFT er hreyfing sem er sprottin frá þeirri gríðarlegu vitundarvakningu sem á sér stað í samfélaginu um mikilvægi andlegrar heilsu. Fleiri og fleiri þjást af kvíða, þunglyndi og streitu og leggur ANDAGIFT upp úr því að efla sjálfsmildi og sjálfást. Í kjölfarið á öllum þeim kröftugu byltingum sem hafa tröllriðið samfélagsmiðlunum síðustu mánuði; #metoo, #égerekkitabú, #höfumhátt og fleira fundum við mikla þörf til þess að skapa rými til heilunar, þar sem auðvelt er að staldra við, næra líkama og sál og slaka á í amstri dagsins. ANDAGIFT opnar því fyrsta súkkulaðisetur borgarinnar á Rauðarárstíg í janúar. Þar bjóðum við upp á tónheilun, djúpslökun, hugleiðslu, jóga og súkkulaðiseremóníur. Einnig verður boðið upp á einkatíma, námskeið og einstaka viðburði. Svo ANDAGIFT býður upp á griðarstað þar sem öllum er boðið að taka þátt í gefa huga og líkama hvíld með því að tengjast inn á við.“

Hvernig hófst samstarf ykkar Láru Rúnarsdóttur?

„Við Lára þekkjumst aðeins úr tónlistarheiminum og mér hefur alltaf þótt hún flott og kraftmikil. Ég fór á möntrukvöld hjá henni fyrir nokkrum árum og fannst það algjörlega dásamlegt. Í Gvatemala fékk ég þá hugmynd að gaman væri að vinna með henni og þegar ég kom heim var hún sú fyrsta sem pantaði hjá mér tíma í einkasúkkulaðiseremóníu. Ég sagði henni frá því að mér hefði verið hugsað svo sterkt til hennar og þá kom í ljós að hún var í nákvæmlega sömu pælingum. Við hlógum mikið yfir þessari tengingu okkar og fannst ekkert annað koma til greina en að prófa að halda seremóníu saman. Það gekk svona ljómandi vel því að nú nokkrum mánuðum síðar erum við komnar á flug og höfum stofnað okkar fyrsta fyrirtæki saman, ANDAGIFT. Svo ætli þetta samstarf hafi ekki verið skrifað einhvers staðar í stjörnurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál