Kvöldsullið heyrir sögunni til með föstunni

Oddný og Rögnvaldur byrjuðu að fasta í nóvember.
Oddný og Rögnvaldur byrjuðu að fasta í nóvember.

Að fasta hluta sólahrings nýtur mikilla vinsælda nú um stundir og hefur reynst mörgum vel. Oddný Arnarsdóttir segist skilja vinsældirnar mjög vel en hún og maður hennar, Rögnvaldur Bjarnason, hafa fastað síðan í nóvember og líkað vel.

„Ég var á námskeiði í ræktinni. Ég er ekki þannig að ég þurfi að grenna mig endilega en að var að díla við ýmislegt annað. Var þrútin og leið illa í meltingarkerfinu og talaði við þjálfarann og hann minntist á þetta. Við fórum bara og rannsökuðum þetta það kvöld og daginn eftir byrjuðum við,“ segir Oddný um það hvernig þau byrjuðu að fasta.

„Ég er á 14/10. Ég hætti að borða átta á kvöldin og byrja að borða tíu á morgnana. Maðurinn minn er á 16/8 þannig hann hættir líka átta á kvöldin og byrjar að borða á hádegi,“ segir Oddný en bendir þó á að það megi drekka vatn, kaffi og te á föstunni.

Lífstíll en ekki kúr

Oddný segir að maðurinn hennar hafi grennst síðan hann byrjaði að fasta í nóvember en sjálfri finnst henni bæði blóðsykurinn og meltingin vera komin í fínt lag síðan hún byrjaði. „Ég er hressari og líður bara betur í líkamanum,“ segir Oddný.

Tókstu þá mataræðið í gegn líka? „Nei, ég gerði það ekki en það kom samt svolítið af sjálfu sér. Af því að blóðsykurinn jafnaði sig þá hef ég minni áhuga á nammi og ekki jafnmikinn áhuga á brauði. Það var eins og hugurinn færi að leita að öðruvísi samsetningu af mat en borðaði hitt alveg án þess að vera með samviskubit. Í stað þess að fá mér sex mola af Nóa konfekti fékk ég mér einn og það var bara nóg.“

Oddný fastar frá klukkan átta á kvöldin til tíu á …
Oddný fastar frá klukkan átta á kvöldin til tíu á morgnana. mbl.is/Thinkstockphotos

Oddný telur að staðreyndin að þetta sé lífstíll en ekki kúr sé ein af ástæðunum fyrir því að hún kann svona vel við föstuna. „Ég lít meira á þetta sem ég er að sleppa öllu kvöldsulli. Maður var alltaf að fá sér eitthvað, popp eða smá nammi.“ Hún segist hafa prófað áður að taka út allt ger, sykur, hveiti og mjólkurvörur en fastan finnst henni ekki vera neitt mál miðað við það enda ekki hrifin af boðum og bönnum.  

Oddný og Rögnvaldi tókst vel til á föstunni um jólin. „Það var jólahlaðborð og alls konar en maður var ekkert að halda áfram,“ segir Oddný sem hélt ekki áfram að narta eins og fólk gerir gjarnan á jólunum þegar nóg er í boði. „Á gamlárskvöld borðuðum við náttúrulega seinna en svo langaði okkur ekki í eftirrétt sem var á miðnætti. Það er ekki að ég sé að pína sjálfa mig að ég sé að gera það ekki,“ segir Oddný um áhrifin af föstunni.

Verður ekki svöng

Það er hægt að ímynda sér að fólk verði svangt ef það borðar ekkert í kannski 14, 16 klukkutíma. Oddný fann hins vegar ekki fyrir því þegar hún byrjaði. „Það var aðallega einhver söknuður í að narta í eitthvað á kvöldin en það var búið eftir tvo, þrjá daga.“ Hún segir föstuna vera sveigjanlega og nefnir dæmi að ef hún fer í bíó og fær sér popp klukkan níu þá einfaldlega seinki hún morgunmáltíðinni.

Oddný segir að mælt sé með því að konur byrji á ekki lengri föstu en 14/10 út af hormónum, síðan sé hægt að færa sig upp í 16/8. Auk þess segir hún að sumir kjósi að fasta hluta sólahrings, kannski bara fjóra daga í viku. Svo það er ýmislegt í boði fyrir þá sem vilja prófa sig áfram með föstu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál