„Mér finnst ég alltaf bara 25“

Anna Eiríksdóttir deildarstjóri í Hreyfingu varð fertug rétt fyrir áramót.
Anna Eiríksdóttir deildarstjóri í Hreyfingu varð fertug rétt fyrir áramót. Ljósmynd/Saga Sig

Anna Eiríksdóttir deildarstjóri í Hreyfingu varð fertug í lok árs. Hún stendur á tímamótum en á afmælisdaginn opnaði hún vefinn annaeiriks.is þar sem hún er með uppskriftir, æfingaplön og góð ráð. Vefurinn er ekki síst fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og hafa ekki tök á að mæta í tíma hjá Önnu. 

„Aldurinn er svo ótrúlega afstæður, mér finnst ég alltaf bara 25 ára en lífið verða skemmtilegra og skemmtilegra eftir því sem ég eldist. Er það ekki bara alveg eins og það á að vera? Þetta voru klárlega tímamót í mínu lífi að verða fertug og í rauninni svo mikil að ég upplifði smá svona núna eða aldrei augnablik og þess vegna ákvað ég að opna heimasíðu. Það er svo fyndið hvað þessi aldur, sem skiptir engu máli ýtir aðeins við manni, ég viðurkenni það alveg. Ég fagna því mjög að vera orðin fertug og er bara mjög spennt fyrir nýju og spennandi verkefni,“ segir Anna sem er búin að vera lengi viðloðandi líkamsræktarbransann.
Húnbyrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar hún var sex ára gömul og hefur ekki stoppað síðan þá.

„Mamma lagði alltaf mikið upp úr heilbrigðum lífsstíl. Sjálf er hún gömul landsliðskona í sundi og alveg frábær fyrirmynd. Ég hef trú á því að þetta hafi haft mikil áhrif á mig,“ segir hún.

Anna segist ekki þekkja neitt annað en að hugsa vel um heilsuna því þannig hafi hún verið alin upp. Hún æfði frjálsar íþróttir af kappi til 16 ára aldurs eða þangað til hún fór að æfa þolfimi hjá Magnúsi Scheving í Aerobix Sport. Anna segist hafa fundið sjálfa sig á þessum tíma og hóptímar hafi heillað hana upp úr skónum.

„Þetta var fyrsta upplifun mín af hóptímum og það varð ekki aftur snúið. Mér fannst æðislegt að vera í tímum hjá Magga, þvílíkur kraftur, útgeislun og gleði í hverjum einasta tíma. Það er honum að þakka að ég fetaði þessa braut því hann kom til mín dag einn þegar ég var búin að mæta til hans í hvern einasta tíma í svona 2 ár, þá um 18 ára, og spurði hvort ég væri ekki til í að fara að kenna, ég yrði pottþétt góð í því. Hann þurfti ekkert að sannfæra mig meira og ég stökk til og upp frá því jókst áhugi minn ennþá meira á heilbrigðum lífsstíl og hreyfingu,“ segir Anna.

Þaðan lá leiðin í Kennaraháskólann þar sem Anna tók íþróttir sem sérsvið. Í framhaldinu kláraði hún einkaþjálfaranám og hellti sér út í þjálfun og kennslu. Anna segir að það gefi sér mikið að hjálpa fólki að temja sér hollari lífshætti því hún veit að það getur algerlega breytt lífi fólks.

Anna hefur upplifað mörg tímabil í ræktinni. Það hefur nefnilega margt breyst í líkamsræktarheiminum síðan Anna var 18 ára.

„Þegar ég byrjaði var þolfimin og mjög flóknir pallatímar það allra heitasta. Síðan tók tæbó við og fór ég að kenna það og allt varð vitlaust. Tímarnir stútfylltust og það var alltaf svaka stuð og mikil orka í hverjum tíma. Svo kom spinning og pallarnir duttu út, Body Pump kom inn svo HIIT tímar og tæbóið datt út. Barretímar koma inn og svo framvegis. Þetta fer í endalausa hringi því fólk vill fá nýjungar og sækir í þær,“ segir Anna og bætir því við að fólk verði leitt á að gera alltaf það sama og þess vegna skipti fjölbreytnin máli.

Anna opnaði vefinn annaeiriks.is á fertugsafmælisdaginn sinn.

„Ég er búin að ganga með þennan draum í maganum lengi að opna mína eigin heimasíðu og hugsaði að ef ég myndi ekki gera það núna þegar ég yrði fertug þá myndi ég líklega aldrei gera það. Ég ákvað að kýla bara á það.

Á vefnum mínum býð ég upp á þjálfun sem er ólík flestri fjarþjálfun á Íslandi. Öll þjálfunin er í myndbandaformi sem þýðir að ég leiði fólk í gegnum hverja einustu æfingu frá upphafi til enda sem minnkar til dæmis

líkurnar á því að það hætti í miðjum klíðum,“ segir Anna.

Æfingarnar eru hnitmiðaðar og taka í kringum 20 mínútur.

„Þegar fólk kaupir 6 vikna þjálfun þá getur það hlaðið æfingunum niður og eignast þær. Mér finnst mjög það mikilvægt því markmiðið mitt er að hjálpa konum að koma hreyfingu og hollari venjum inn í sinn lífstíl en síðan mín einblínir á þjálfun fyrir konur. Hægt er að finna stakar æfingar sem einblína á kvið- og bakvöðva, efri hlutann eða rass- og lærvöðva en einnig er ég með frábært æfingaplan fyrir ungar stelpur á aldrinum 12-16 ára. Aðal-æfingaplanið mitt, „Í form með Önnu Eiríks“ er 6 vikna fjarþjálfun sem inniheldur 3 æfingamyndbönd, ásamt aukaæfingu, tillögur að matseðli og svo framvegis. Einnig er ég með uppskriftir, almenn heilsuráð, innsýn í mína eigin rútínu og líf, æfingafatnað, sniðug áhöld og mínar æfingar,“ segir hún.

Anna er búin að ganga með þá hugmynd í maganum í fjögur ár að opna vefinn. Það gerðist þegar hún var í fæðingarorlofi með dóttur sína, sem nú er fjögurra ára. Hún fann hvað það var mikil þörf því hún komst ekki mikið í ræktina á þessum tíma.

„Ég á fjögur börn og þegar ég var í fæðingarorlofi með yngsta barnið langaði mig að hreyfa mig en komst ekki frá litla barninu mínu og vantaði sárlega gott æfingaplan sem ég gæti hreinilega bara gert heima. Ég fór að kanna málið og sá hversu lítið væri í boði fyrir íslenskar konur.

Mér finnst mjög margar konur tala um það að þær hafi ekki alltaf tíma til þess að fara í ræktina, þær eru kannski í fullri vinnu með heimili og börn eða til dæmis í fæðingarorlofi en langar samt til þess að hreyfa sig markvisst. Einnig langaði mig að gefa konum út á landi, sem hafa hreinlega ekki aðgang að líkamsræktarstöð, tækifæri til þess að geta æft markvisst heima hjá sér,“ segir Anna.

Anna telur að hún geti hjálpað konum mjög mikið, ekki bara þeim sem komast ekki í ræktina heldur líka þeim sem hafa ekki fundið rétta hillu í ræktinni.

„Þegar maður finnur hreyfingu við sitt hæfi og finnst gaman að því sem maður gerir, ég tala nú ekki um finnur fyrir árangrinum sem fylgir því að æfa, þá er svo miklu auðveldara að hafa hreyfingu sem hluta af sínum lífsstíl. Einnig aukast líkurnar á því að halda góðri æfingarútínu þegar fyrirstaðan að komast á æfingu er engin. Mataræðið er gríðarlega stór þáttur í því að hugsa vel um heilsuna sína en með 6 vikna æfingaplaninu mínu fylgir matseðill sem hjálpar konunum að koma bættum matarvenjum inn í sinn lífsstíl. Ég er einnig með uppskriftarsíðu inn á vefnum sem ég vona að gefi konum góðar hugmyndir og hvetji þær enn frekar til þess að huga vel að mataræðinu sínu.“

Ljósmynd/Saga Sig

Þegar Anna er spurð hver sé heitasta þjálfunin í dag segir hún að hjólaþjálfun njóti mikilla vinsælda.

„HIIT tímar halda áfram sínum vinsældum því fólk sem stundar slíka þjálfun nær svo góðum árangri. Þetta er lotuþjálfun þar sem unnið er af mikilli ákefð í skamma stund. Barre-tímar eru áfram gríðarlega vinsælir og mjög heitir í Bandaríkjunum og auðvitað á Íslandi. Í þessum tímum er unnið mikið við balletstöng en æfingarnar sem gerðar eru í þessum tímum eru með þeim betri sem ég hef komist í og ég elska að kenna þessa tíma. Lyftingar eru mjög heitar í dag og jóga hefur sjaldan verið jafn heitt og núna, sérstaklega Hot Yoga. Fólk er svolítið að blanda saman þjálfun sem er ótrúlega jákvætt, þá fer því síður að leiðast og nær oft ennþá betri árangri,“ segir Anna.

Anna segir að fólk þurfi að finna sér hreyfingu við hæfi ef það á að ná árangri.

„Fólk þarf að setja sér markmið og hugsa vel um mataræðið, borða hollt og fjölbreytt. Mjög gott er að finna sér æfingafélaga, fara til þjálfara, fara á lokað námskeið, kaupa sér þjálfun á netinu því það hjálpar mikið við að halda sér við efnið og það skiptir líka málið að vita hvað maður er að gera og að þjálfunin sé markviss.“

Anna hefur sjaldan verið í betri formi en akkúrat núna. Hún segir að vinnan haldi henni í formi.

„Ég nýt þeirra forréttinda að starfa við það að hreyfa mig en það heldur mér klárlega í góðu formi auk þess sem ég passa vel upp á mataræðið, en án allra öfga samt. Ég reyni að borða fjölbreytt og passa upp á skammtastærðirnar en það er mjög oft ástæðan fyrir því að fólki gengur illa að komast í form, það borðar hreinlega of mikið. Það er svo gott að reyna að borða bara aðeins minna og oftar. Ég reyni að borða vel af grænmeti og ávöxtum, fæ mér hollan morgunverð eins og hafragraut, fæ mér svo salat, boozt eða eitthvað létt í hádeginu og svo venjulegan heimilismat á kvöldin. Ég á fjögur börn og elda því alltaf á kvöldin en við elskum mexíkóskan mat, eldum fisk, lasagna og þar fram eftir götunum. Ég reyni að forðast unnar vörur og nota fersk og góð hráefni sem mér finnst skipta máli. Ég er ekki alveg heilög því ég fæ mér alveg ís og súkkulaði af og til en það er nauðsynlegt að lifa líka. Þetta snýst bara um að finna hinn gullna meðalveg sem mér hefur tekist ágætlega að finna og hjálpar það mér að halda mér í fínu formi,“ segir hún.

Finnur þú fyrir mikilli pressu að vera alltaf í toppformi?

„Nei ég finn alls ekki fyrir neinni pressu að vera í toppformi. Hreyfing er frábær vinnustaður, það er ekki nein útlitsdýrkun í gangi þar heldur leggjum við meira upp úr fagmennsku og að vera heilbrigð og þannig góð fyrirmynd fyrir okkar viðskiptavini.“

En ætli Anna hafi einhvern tímann ekki verið í formi?

„Já, ég hef gengið í gegnum fjórar meðgöngur og því verið á þeim stað að þurfa að koma mér í aftur í form en ég viðurkenni að mér hefur alltaf fundist það ótrúlega skemmtilegt verkefni því ég starfa við það að hjálpa öðrum að komast í form og þess vegna hefur mér fundist mjög lærdómsríkt að vera á þeim stað sjálf.“

Ljósmynd/Saga Sig

Þótt Anna leggi mikið upp úr því sjálf að vera í góðu formi segir hún að það skipti alltaf mestu máli að fólki líði vel.

„Mér finnst alls ekki að allir þurfi að vera í einhverju svaðalegu formi, aðalmálið er að líða vel í eigin skinni og vera heilbrigður og hraustur.“

Þegar Anna er spurð út í líf sitt segir hún að það snúist fyrst og fremst um fjölskylduna. „Börnin mín fjögur eru öll í íþróttum og leggjum við hjónin mikið upp úr því að sinna áhugamálum þeirra, horfa á þau keppa og vera til staðar. Samverustundir með fjölskyldunni er það sem ég elska mest af öllu, mér finnst yndislegt að liggja öll upp í sófa og horfa saman á góða mynd eða fara saman í heita pottinn okkar þar sem við spjöllum saman og förum yfir daginn. Það eru litlu hlutirnir sem skila stundum svo miklu og muna að njóta hverrar stundar. Ég elska útiveru, fara á skíði, ferðast, borða góðan mat með góðum vinum, rölta í bænum, fara í brunch með fjölskyldunni og njóta þess að vera til.“

Hvert er áramótaheitið þitt fyrir nýja árið?

„Lifa í núinu og njóta þess að vera til!

Sinna mér og mínum, ferðast og gera margt skemmtilegt með fjölskyldunni minni.

Sinna nýja gæluverkefninu mínu, heimasíðunni minni, og reyna að ná til sem flestra kvenna og miðla reynslu minni og aðstoða þær eins og ég get.“

Hvað ætlar þú að gera í ár sem þú gerðir ekki í fyrra?

„Úff, nei, það veit ég ekki, kannski skella mér í eitt hálfmaraþon með vinkonu minni,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál