Einstæð og berst við krabbamein

Alma Geirdal er í lyfjameðferð eftir að annað brjóst hennar …
Alma Geirdal er í lyfjameðferð eftir að annað brjóst hennar var fjarlægt.

Alma Geirdal er einstæð þriggja barna móðir sem berst við krabbamein. Hún greindist með brjóstakrabbamein í október og fór í aðgerð í nóvember þar sem brjóstið var fjarlægt. Alma segist hafa fengið mikið áfall þegar hún greindist með krabbamein og nú bætast fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. 

„Ég byrjaði bara á að fá verki í brjóstið í júlí og fór til læknis sem fann ekkert en vildi samt senda mig í myndatöku. Í október fannst illkynja hnútur, 6 cm á lengd og 2,5 á breidd, og varð strax ljóst að það þurfti að fjarlægja brjóstið. Það var fjarlægt í nóvember,“ segir Alma. 

Hún játar að hún hafi orðið mjög óttaslegin þegar hún komst að því að hún væri með illkynja hnút í brjóstinu sem þyrfti að fjarlægja. 

„Það greip mig mikill ótti og sorg þegar ég fékk þessar fréttir en svo reynir maður að vera sterkur. Ég ætla að sigrast á þessu.“

Alma starfar í dag á sambýli og líkar sú vinna vel. Á meðan hún er í lyfjameðferð er hún óvinnufær og fær að eigin sögn lágmarkslaun frá vinnuveitanda.

„Launin duga ekki fyrir neinu og stéttarfélagið hjálpar ekki á meðan fólk fær einhverjar tekjur.“

Alma er í strangri lyfjameðferð núna uppi á Landspítala. Hún þarf að mæta í 16 skipti og er þessi meðferð ákaflega erfið. Hún reynir þó að vera bjartsýn. 

„Ég ætla að sigrast á þessu og rísa upp sem sigurvegari með stæl,“ segir hún. 

Ef þú vilt leggja Ölmu lið er hægt að leggja inn á eftirfarandi reikning: 0140-26-064210 og kt. 060979-3759.

Þessi mynd var tekin af Ölmu árið 2013.
Þessi mynd var tekin af Ölmu árið 2013. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is