„Ég er 15 kg léttari og allur að styrkjast“

Kristján Berg ákvað að koma sér í form og losaði …
Kristján Berg ákvað að koma sér í form og losaði sig við 15 kíló. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Berg Ásgeirsson er stofnandi Fiskikóngsins. Hann er giftur Sólveigu Lilju Guðmundsdóttur og saman eiga þau sex börn, þau Alexander Örn, Eyjólf, Ægi, Ara, Kjartan og Kára. Kristján hefur vakið athygli síðustu misserin fyrir að hafa tekið heilsuna í gegn. Hann segir hér frá því hvað hann er að gera. 

Hvað varð til þess að þú fórst í heilsuátak?
„Fyrir tíu árum gifti ég mig og fékk í brúðkaupsgjöf mjög fallegar myndir af konunni minni sem ég geymi í mínu prívatdóti. Í lok ársins í fyrra var ég að gramsa í dótinu mínu og fann þessar fallegu myndir, ég man að ég leit í spegilinn á þessum tíma og leist ekkert á það sem ég sá. Þá datt mér í hug að gaman væri að koma sér í gott form og láta taka svipaðar myndir af mér fyrir næstu jól. Þetta vatt svo upp á sig og hef ég verið nú í tæpt ár að vinna að því að vera í mínu besta formi. Ég vil einnig vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín, þar sem þau sjá að hægt er að vera 50 ára pabbi með „sixpack“. Ég vildi einnig vera fyrirmynd í þeim iðnaði sem ég er í, en ég sel náttúrulega hollustuvöru, er í heilsuiðnaði. Feitur fisksali er ekki sú fyrirmynd sem mig langaði að vera.“

Hvað gerir þú vikulega til að halda þér í formi?

„Fyrst þurfti ég einfaldlega að koma mér í form. En vikulega fer ég í einkaþjálfun í Hreyfingu, hjá Jóni Oddi, nánar tiltekið þrisvar í viku. Síðan æfi ég tvisvar í viku sjálfur þar sem ég er að leggja áherslu á brennslu. Markmiðið mitt er ekki að safna vöðvum, heldur að brenna fitu. Vera venjulegur grannur flottur Íslendingur.“

Hvernig er mataræðið þitt?

„Ég þurfti að taka mataræðið mitt í gegn. Það var númer eitt, tvö og þrjú hjá mér. Ég þáði öll ráð frá Jóni Oddi, Við byrjuðum að taka út kolvetni, brauð, pizzu, allt vín, bjór og nammi. Ég drakk mikið mjólk, sykrað gos og fleira. En í dag er aðaldrykkurinn minn vatn. Ég er ekki alveg hættur í öllu, en það sem ég geri í dag er meira spari. Svo borða ég mikið af hollum og góðum fiski.“

Hver er ein helsta breytingin andlega?

„Helsta breytingin andlega, er sú að ég er kraftmeiri. Ég er með betri einbeitingu, meiri orku og úthald í vinnu. Meiri andleg vellíðan er það sem maður sækir í. En þar sem ég hef misst ein 15 kg á þessu ári, þá hefur kostað sitt að kaupa ný föt sem maður passar í.“

Hver er helsta breytingin líkamlega?

„Ég er 15 kg léttari og allur að styrkjast. Ég er heilbrigður, venjulegur og hraustur. Ég valdi mér einkaþjálfara með útlit eins og ég vildi fá og það var nákvæmlega það sem ég fékk út úr þessari vinnu. “

Hvaða merkingu hefur það fyrir þig að vera í góðu formi?

„Ég hef nú aldrei verið með lítið sjálfstraust, og ekki minnkaði það með þessu framtaki. En já, maður er bara ánægðari með sjálfan sig, lífið og tilveruna. Ég viðurkenni að það var erfitt að koma sér af stað, en nú er þetta hluti af lífsstílnum mínum.“

Hvert stefnir þú heilsufarslega á nýju ári?

„Ég ætla að halda áfram að halda mér í formi, þetta er minn lífsstíll og verður það áfram. Ekkert flóknara en það,“ segir Kristján að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál