Líkaminn í góðu formi út lífið

Brynja Rós Bjarnadóttir byrjaði að æfa í lok árs 2016.
Brynja Rós Bjarnadóttir byrjaði að æfa í lok árs 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynja Rós Bjarnadóttir er sérfræðingur hjá Fangelsismálastofnun. Hún er gift Guðmundi Birgissyni og saman eiga þau tvö börn, þau Birgi og Lydíu Líf. Brynja hefur vakið athygli síðustu misseri fyrir að hafa tekið heilsuna í gegn. Okkur lék forvitni á því hvað hún er að gera. 

Hvað varð til þess að þú fórst í heilsuátak?

„Upphafið að því að ég breytti til var í lok árs 2016. Ég var búin að vera undir miklu álagi bæði í vinnu og heima. Ég hafði þyngst mjög hratt og fann að mér leið ekki nógu vel. Ég man að þetta var algjör uppgjöf við ástandið sem var í gangi hjá mér, ég vissi að mig langaði að ná tökum á því að komast í form. Ekkert af því sem ég hafði gert virkaði. Ég fór inn á skrifstofu til Erlu Kristínar vinnufélaga míns sem er frábær fyrirmynd að þessu leyti, settist hjá henni og sagði hingað og ekki lengra og bað hana um aðstoð. Hún benti mér á einstakan þjálfara í World Class, hana Agnesi Kristjónsdóttir. Og þar hófst ferðalagið mitt í átt að heilbrigðara lífi.“

Hvað gerir þú vikulega til að halda þér í formi?

„Ég fer þrisvar til fjórum sinnum í viku í ræktina. Fer til Agnesar einkaþjálfara tvisvar í viku, fer svo sjálf einu sinni í viku og brenni/lyfti. Svo erum við með hlaupabretti í vinnunni og nokkur önnur tæki og reyni ég að nýta þau einu sinni í viku. Yfirmaður minn, hann Páll Winkel, hefur mikinn skilning á mikilvægi hreyfingar og hvetur okkur áfram í því sambandi.“

Hver er ein helsta breytingin andlega við að komast í form?

„Mér líður svo mikið betur. Hér áður var ég að sligast úr þreytu, átti erfitt með að halda mér vakandi á heimleið í bílnum, kom heim og bara beið eftir því að klukkan yrði 22:00 á kvöldin til að fara að sofa. En sama hvað ég svaf mikið þá var ég alltaf þreytt. Ég þurfti að breyta öllu, mataræðinu líka. Það var erfitt að koma sér af stað í fyrstu og ég get ekki sagt að mér finnist ræktin alltaf skemmtileg en mér líður svo sannarlega vel á eftir og það skiptir öllu máli. Nú upplifi ég miklu minni streitu en áður, ég er sterkari á taugum, sem hentar mér í þeirri vinnu sem ég er í og ekki síður að vera upp á mitt besta heima fyrir með fjölskyldunni.“

Hver er helsta breytingin líkamlega?

„Líkamlega, þá líður mér svo mikið betur. Áður var mér illt hér og þar og þessi vanlíðan smitaðist yfir í allt annað í mínu lífi. Ég komst ekki lengur í fötin mín. Núna er ég með meiri vöðvamassa, minna ummál og mér líður vel í fötunum mínum og er farin að kaupa minna númer.“

Hvaða merkingu hefur það fyrir þig að vera í góðu formi?

„Það eflir sjálfstraustið mitt og sjálfsvirðing eykst. Það skiptir mig miklu máli að vera heilbrigð fyrir börnin mín og fjölskylduna og lífið framundan. Ég er frjálsari þó ég sé í aðhaldi í mataræði og ég trúi að það komi síður upp sjúkdómar hjá mér í framtíðinni og ég vil að líkaminn sé í góðu formi út allt lífið.“

Brynja ætlar að bæta sig í hnébeygjunni á þessu ári.
Brynja ætlar að bæta sig í hnébeygjunni á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig er mataræðið þitt?

„Í fyrstu sendi ég á Agnesi matseðilinn yfir daginn, í nokkrar vikur. Hún fór yfir hann og gaf mér upplýsingar um hverju ég þyrfti að breyta. Ég borðaði mikið kolvetni og nammi á laugardögum sem náði kannski yfir á sunnudag, mánudag og þriðjudag. Í dag borða ég nánast engin kolvetni. Ég tók út nánast allt hveiti, hrísgrjón o.þ.h. og fæ mér frekar bakað grænmeti í staðinn. Ég leyfi mér helling, en geri það sjaldnar en áður. Ég hef minnkað sykur töluvert enda sé ég það núna að ég hef verið mikill nammifíkill, gæti lifað á sælgæti alla daga. Í dag fæ ég mér stöku sinnum orkustykki, og ef ég fer í veislu þá borða ég kannski fjórðung af þeim sykri sem ég var vön að gera. Maður þarft svolítið að tala við heilann, t.d. ákvað ég að sleppa öllum sætindum í vinnunni, sem eru nánast á boðstólum daglega og það truflar mig ekki neitt þó að hinir séu að fá sér.“

Hvert stefnir þú heilsufarslega á nýju ári?

„Ég ætla að halda áfram að koma mér í gott form. Mig langar að prófa eitthvað meira og nýtt því mér finnst mikilvægt að hreyfingin sé fjölbreytt. Ég hef notið einstakrar leiðsagnar Agnesar í heilt ár og mun alltaf búa að því og er henni ævinlega þakklát. Ég hef áhuga á að lyfta lóðum og hef gaman að því að skora á sjálfa mig. Ég stefni að því að taka þyngri lyftur á þessu ári, sérstaklega í hnébeygju.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál