Leggur áherslu á hamingju í lífinu

Erna Héðinsdóttir er með jákvæðnina að leiðarljósi.
Erna Héðinsdóttir er með jákvæðnina að leiðarljósi. ljósmynd/aðsend

Erna Héðinsdóttir greindist fyrst með vefjagigt árið 2008. Erna, sem er markþjálfi, kennari og næringarfræðingur, er nú að klára nám í jákvæðri sálfræði en hana langar til þess að hjálpa þeim sem hafa svipaða reynslu og hún. Erna leggur áherslu á gleði og hamingju í lífinu þrátt fyrir öll þau verkefni sem fylgja vefjagigtinni.

„Að lifa með vefjagigt eða öðru krónísku hamlandi ástandi getur vissulega dregið fólk niður en ég vil trúa því að við getum og eigum skilið að vera hamingjusöm og njóta þess sem við höfum þrátt fyrir það. Það sem einstaklingar með vefjagigt þekkja kannski best eru ýmis óútskýrð einkenni sem læknar finna ekki svör við með blóðprufum og myndatökum. Í mínu tilfelli er það ofsaþreyta sem ræðst á mig bæði í tímabilum og á vissum tímum dags. Auk þess eru útbreiddir óútskýranlegir verkir sem bæði geta verið stöðugir eða komið í köstum,“ segir Erna um vefjagigtina og bendir á Vefjagigt.is til frekari fróðleiks.

Hafði lengi fundið fyrir einkennum

Þrátt fyrir að Erna hafi ekki fengið greiningu fyrr en fyrir tíu árum þá man hún eftir einkennunum mun lengur. 16 ára fór hún í skjaldkirtilsrannsókn vegna þess að hún átti erfitt með að halda sér vakandi. Það var þó ekki fyrr en hún var í meðferð hjá sjúkraþjálfara vegna grindargliðnunar að sjúkraþjálfarinn benti henni á að tala við lækni í sambandi við vefjagigt.

„Eins og svo margir sem eru með vefjagigt og almenningur var ég full af fordómum og vildi helst afneita þessari greiningu. Ég ætlaði bara að redda þessu sjálf með mataræði og hreyfingu, því í því var ég góð,“ segir Erna sem játaði sig þó sigraða tveimur árum seinna.

„2010 var ástandið orðið þannig að ég sofnaði hvar sem er og hvenær sem er. Einu sinni til dæmis þegar ég sat í sófa og braut saman þvott með börn og læti í kringum mig. Þá gafst ég upp, fór til annars læknis, fékk sömu greininguna og samþykkti að gefa lyfjum séns, sem hjálpuðu mér á þessum tíma. Það erfiða við vefjagigtina og lyf sem reynd eru, eru að hver einstaklingur er svo einstakur og alls ekki allir með sömu einkennin, svo lyfjagjafir eru alltaf tilraunir og það sem hentar einum hentar ekki öllum.“

Fyrir fjórum árum endaði Erna með kulnun (e. burn out). „Þá hófst endurhæfingarferli sem að vissu leyti stendur enn. Ég var hjá Virk, fór á Reykjalund, var í sjúkraþjálfun, hjá sálfræðingum og gekk á milli lækna með ýmis einkenni. Margt hjálpaði til en reynslan mín er einnig sú að allar þessar starfstéttir eru fullar af misjöfnum einstaklingum með mismunandi ráð og oft ekki samræmi á milli ráðlegginganna. Áherslan var samt mjög mikið á það sem var að og þurfti að laga,“ segir Erna sem leggur áherslu á fólk velji sér einstaklinga í sitt lið sjálft. Til dæmis ef ákveðinn læknir getur ekki hjálpað er sjálfsagt að prófa annan lækni.

ljósmynd/aðend

Síendurtók áfallasöguna

„Ég hef heyrt allt of margar sögur af erfiðum samskiptum við meðferðaraðila, og ef einn hentar ekki, þá hefur maður alltaf rétt á að leita annað. Til dæmis var ég hjá yndislegum sjúkraþjálfara en meðferðin hjá henni var ekki að skila neinum bata. Ég skipti og hitti á frábæran einstakling sem sennilega er sá sem læknaði tveggja ára krónískan höfuðverk sem ég hafði verið með.

Ernu fannst eins og hún væri að segja sömu áfallasöguna aftur og aftur í stað þess að leggja áherslu á það jákvæða í lífinu. Eftir tvö ár af alls kyns endurhæfingu fékk hún nokkurra blaðsíðna skýrslu um allt sem var að henni en aðeins þrjár línur fjölluðu um styrkleika hennar. „Sennilega var þetta ákveðinn vendipunktur. Ég vissi að ég hefði meira til að bera og meira að gefa en þetta, þótt orkan mín og starfsþrekið væri ekki alltaf upp á sitt besta.“

Fann köllun sína í markþjálfun

„Eitt af því sem ég gerði í endurhæfingunni var að fara til Matta Osvald markþjálfa. Í upphafi var þetta öruggi staðurinn þar sem ég gat grátið úr mér augun, en smám saman fór líka að birta til því í markþjálfun er unnið með möguleika, drauma og langanir. Horft á hvað við höfum og hvað við getum gert úr því,“ segir Erna sem í kjölfarið lærði markþjálfun.

„Að læra markþjálfun og fá að nota aðferðir markþjálfunar til að hjálpa öðrum er eitthvað það magnaðasta sem ég hef gert. Ég sannarlega fann köllun mína og löngun þarna. Ég sá líka fram á að geta stjórnað vinnutímanum mínum og álaginu með þessu móti. Því enn þann dag í dag er ég ekki á þeim stað að geta unnið fullan vinnudag fimm daga vikunnar.“

Hamingjan og vefjagigt

Í lokaverkefni Ernu í jákvæðri sálfræði beinir hún sjónum sínum að fólki sem er í sömu sporum og hún hefur verið í með námskeiðinu Hamingjan og vefjagigt. „Ég fór inn í námið með það í huga að fá fleiri verkfæri í verkfærakistuna mína sem markþjálfi og kennari. Lokaverkefni námsins er að búa til einhvers konar afurð, námskeið eða námsefni.“

„Jákvæða sálfræðin er fræðigrein sem fjallar um það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum ýmissa aðferða til að auka vellíðan og hamingju fólks með því að beina athyglinni á það jákvæða og uppbyggilega. Þetta afneitar þó alls ekki vanlíðan eða kvíða og þunglyndi, heldur snýst um að allar okkar tilfinningar eru hluti af okkur, en í jákvæðu sálfræðinni er fókusinn á jákvæðu uppbyggilegu hluta lífsins og hvað einkennir fólk sem blómstrar og er hamingjusamt,“ segir Erna að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál