Ófrjósemi er ekkert til að skammast sín fyrir

Eyrún Telma hefur reynt að verða ólétt í þrjú ár.
Eyrún Telma hefur reynt að verða ólétt í þrjú ár. ljósmynd/Rúnar Geirmundsson

Eyrún Telma Jónsdóttir og unnusti hennar Rúnar Geirmundsson eru að fara gifta sig í sumar en í nokkur ár hafa þau haft hug að því að stækka fjölskylduna. Plön um barneignir hafa þó ekki gengið eftir áætlun. Eyrún opnaði sig um ófrjósemina í pistli á Facebook en hún segir mikilvægt að geta talað um ófrjósemi og að mun fleira fólk gangi í gegnum ófrjósemi en fólk haldi.

„Mér finnst mín saga vera smávægileg miðað við sögurnar sem ég hef heyrt og lesið frá konum í sömu stöðu og ég. Þess vegna þorði ég ekki beint að tala um þetta af því mér fannst mín saga ekkert merkileg. Mér finnst sumar konur búnar að ganga í gegnum helvíti og hafa þurft að fara í fullt af meðferðum sem hafa ekki skilað árangri,“ segir Eyrún um það að hún ákvað að deila sögu sinni en fljótlega munu þau Eyrún og Rúnar fara í sína fyrstu frjósemismeðferð.

Fékk loksins greiningu á legslímuflakki

Fyrir þremur árum byrjuðu þau Eyrún og Rúnar að reyna að eignast barn. „Ég er bara búin að vera barnasjúk síðan ég var 18 ára og mig langaði bara að eignast barn strax. Ég hef alltaf litið rosa mikið upp til mömmu. Mamma er ung móðir, hún eignaðist mig þegar hún var 22 ára og ég er elsta barnið hennar. Mér fannst alltaf svo ótrúlega gaman að eiga unga mömmu og er ótrúlega stolt af henni, mig langaði bara að vera eins og hún að eignast mitt fyrsta barn í kringum tvítugt,“ segir Eyrún en áætlanir hennar fóru ekki samkvæmt plönum.

Eyrún glímir bæði við fjölblöðrueggjastokksheilkenni (PCOS) og legslímuflakk (Endometriosis) og því hefur henni reynst erfitt að verða ólétt. Áður en hún byrjaði að reyna að eignast barn vissi hún af heilkenninu. „Þegar ég hef farið í skoðun þá hefur læknirinn alltaf séð mjög mörg egg, ég held að hann hafi einhvern tímann talið 15 í öðrum eggjastokknum og 20 í hinum,“ segir Eyrún en ástæðan fyrir því að eggin safnast saman er sú að þau losna ekki og oft líður langt á milli blæðinga hjá Eyrúnu.

Rúnar og Eyrún Telma ætla að gifta sig á árinu.
Rúnar og Eyrún Telma ætla að gifta sig á árinu.

Læknir sagði Eyrúnu að það gæti tekið hana langan tíma að eignast barn ef hún á annað borð myndi geta það. Hún fékk ýmis lyf til þess að hjálpa til við egglos, fyrstu lyfin sem hún fékk gerðu það að verkum að hún fékk stórar blöðrur á eggjastokkana en legslímuflakkið kom ekki í ljós fyrr en eftir að hún var búin að vera að reyna að eignast barn í um það bil ár.

Greiningin á legslímuflakkinu útskýrði ýmislegt fyrir Eyrúnu. „Ég hef farið til alls konar magasérfræðinga, ég hef alltaf verið með svakalega maga- og ristilkrampa síðan ég byrjaði á blæðingum. Þá var það bara legslímuflakkið sem loksins skýrði nánast bara helminginn af mínu lífi. Læknirinn sendi mig í aðgerð þar sem fullt af samgróningum og legslímuflakki var brennt í burtu,“ segir Eyrún sem var góð í tvo mánuði eftir aðgerðina en svo byrjaði allt aftur.

Tekur á andlegu hliðina

„Mér er eiginlega alveg sama um öll líkamleg einkenni, ég fæ verki í kviðinn oft í mánuði og er oft rúmliggjandi, mér er samt einhvern veginn sama um það. Það er hins vegar svo sorglegt og erfitt hvað þetta tekur á andlegu heilsuna og andlega líðan. Mér finnst það erfiðast,“ segir Eyrún sem er þakklát fyrir að unnustinn standi enn við hliðina á henni.  „Maður er alltaf að fá vonir, maður er kannski ótrúlega vongóður einn daginn og svo næsta dag liggur maður heima í þunglyndi,“ segir Eyrún.

„Þegar ég er mest niðri þá spyr ég af hverju ég, af hverju þarf ég að ganga í gegnum einhverjar þjáningar í til dæmis eggheimtu og taka endalaust af lyfjum og sprauta mig og gera allan andskotann á meðan aðrir geta gert þetta á einni nóttu, jafnvel ekki vera[ndi] að reyna það. Manni finnst þetta stundum vera pínu ósanngjarnt en ef ég fæ barn í hendurnar í lokin á þessu þá get ég dáið sátt.“

„Þetta er engu líkt finnst mér, ég hef lengi hugsað með mér að mér liði eins og ég sé að bregðast sjálfri mér, ég sé að bregðast Rúnari, bregðast fjölskyldum okkar að geta ekki gefið þeim barnabarn, mér líður eins og ég sé að bregðast öllum í kringum mig.“

Eyrún segir það vera ákveðinn létti að hafa tekið þá ákvörðun að leita sér frekari hjálpar. „Það sem mig langar mest að upplifa er að prófa að ganga með barn. Mér finnst kvenlíkaminn svo magnaður að geta gert þetta. Ég þrái svo mikið að upplifa þessa tíma og bara að fá að gera það einu sinni, þá gæti ég dáið sátt. Að vera búin að taka ákvörðun finnst mér mikill léttir, að við séum ákveðin í að fara í þetta ferli. Auðvitað er það erfitt, þetta er nú ekki ókeypis á Íslandi,“ en Eyrún segir að fyrsta glasafrjóvgunarmeðferðin kosti tæplega hálfa milljón og svo þurfi að kaupa lyf sem geta kostað um tug þúsunda án niðurgreiðslu.

„Á ekki að fara að koma með eitt lítið?“

Eyrún segist oft heyra spurningar þess efnis hvort hún ætli ekki að fara að eignast barn enda er hún mikil barnagæla og í fjölskylduboðum er oft hægt að finna hana meðal barnanna eða með barn í fanginu. „Fyrir mörgum árum var ég líka alveg þessi manneskja sem var að spyrja. Ég veit alveg að þetta er bara spurt með góðum vilja og bara forvitni en fólk kannski hugsar ekki alveg spurninguna til enda. Maður er svo fljótur að henda henni fram og ekki hugsa um hvað maður er að segja,“ segir Eyrún sem mundi frekar vilja sjá fólk spyrja hvort fólk hafi hug á því að eignast barn í stað þess að spyrja eins og það sé bara eitthvað tímaspursmál, þá geti fólk frekar útskýrt mál sitt.

„Við erum búin að reyna í þrjú ár og ég er fyrst svona að sætta mig við að tala um þetta núna. Ég hef þvílíkt reynt að halda þessu bara fyrir okkur. Mér finnst þetta allt í lagi þegar fólk spyr en þegar þetta er svona oft þá er þetta pínu þreytandi. Fólk er líka að skjóta á Rúnar, manninn minn, og er að beina þessu að honum, að vandamálið sé að koma frá honum og hvenær hann ætli að hætta að skjóta endalausum púðurskotum. Ekki það að maður þurfi að finna einhvern sökudólg þar sem þetta er jú auðvitað verkefni okkar beggja, en þá finnst mér það samt pínu sárt því að fólk veit ekki að vandamálið er mín megin,“ segir Eyrún.

Eyrúnu finnst mikilvægt að þessi málefni séu uppi á yfirborðinu. „Það þarf að tala um þetta meira og vekja athygli á því að það eru miklu fleiri pör sem eru að ganga í gengum þetta en maður heldur, pör eða einstaklingar það skiptir ekki máli,“ segir Eyrún.

„Ég held að þó að mín saga sé ekki stór og ekki löng eins og er þá gæti ég kannski haft áhrif á einhvern eða fengið einhvern til þess að opna sig, haft jákvæð áhrif á einhvern. Mér finnst gott að geta hjálpað. Ég veit bara sjálf að ég skammaðist mín fyrir þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál