Fólk ætti að eyða meiri tíma utandyra

Andrea Halldórdóttir nýtur þess að vera úti.
Andrea Halldórdóttir nýtur þess að vera úti. Ljósmynd/Aðsend

Andrea Halldórsdóttir vill hvetja fólk til útiveru og hefur sett saman 30 daga prógramm sem fær fólk til þess að bæta 30 mínútum af útiveru á dag við sína daglegu rútínu. Hugmyndin er sprottin upp úr námi Andreu en hún leggur stund á meistaranám í Svíþjóð sem kallast Outdoors Environment for Health and Wellbeing. 

Á hvað er lögð áhersla í náminu sem þú ert í?

„Námið sem ég er í tengist að miklu leyti umhverfissálfræði og sýnir okkur hversu mikil áhrif umhverfið hefur á okkur. Það veitir okkur vísindalegt sjónarhorn og kennir okkur mismunandi hugtök innan umhverfissálfræði í þverfaglegu samhengi. Við lærum hvernig við getum nýtt okkur þetta bæði til þess að skilja og geta útskýrt líðan fólks í mismunandi aðstæðum í mismunandi umhverfi. Mikil áhersla er lögð á það hvernig náttúran eða náttúrlegt umhverfi hefur áhrif á líðan fólks og hvernig hægt er að nýta það til heilsueflingar og vellíðunar. Umhverfið hefur gríðarleg áhrif á okkur og ég hefði ekki trúað því hversu mikil og góð áhrif náttúran eða grænt umhverfi getur haft. Við lærum einnig hvernig plöntur, tré, dýr og aðrir þættir náttúrunnar geta verið notuð okkur til hagsbóta í almenningsrýmum fyrir mismunandi notendahópa. Námið er líka verklegt, og höfum við eytt dágóðum tíma í mismunandi skógum hérna í Svíþjóð.“

Sænsku skógarnir heilla.
Sænsku skógarnir heilla. Ljósmynd/Aðsend

Þú ert líka menntaður arkitekt, getur hönnun ýtt undir hreyfingu fólks? 

„Ég útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í arkitektúr og var svo heppin að geta unnið við það í nokkur ár og öðlast góða og dýrmæta reynslu í þeim geira. Arkitektar og hönnuðir bera mikla ábyrgð í samfélaginu, og hefur mér oft fundist þörf á meiri umræðu varðandi það. Í dag býr mikill hluti af mannkyninu í borgum sem hannaðar eru af okkur, og erum við að átta okkur betur og betur á því hversu mikil áhrif umhverfið hefur á fólk, og kemur mikilvægi arkitekta og hönnuða þar inní. Að sjálfsögðu geta hönnuðir haft áhrif á hreyfingu fólks, með betra aðgengi að hjólastígum, með því að hanna og bæta við fleiri grænum svæðum innan borgarinnar svo eitthvað sé nefnt. Að mínu mati skiptir líka máli að skoða hvernig hönnun hefur áhrif á líðan fólks. Fólk, sem líður vel, á auðveldara með að koma sér af stað í hreyfingu. Við þekkjum það flest að á erfiðum dögum þá langar okkur kannski ekkert að koma okkur af stað í göngutúr eða hvað sem það er sem gerir það að verkum að okkur gæti liðið betur.“

Þarf fólk að eyða meiri tíma utandyra?

„Já fólk ætti að eyða tíma utandyra á hverjum degi. Það styrkir okkur bæði andlega og líkamlega. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á það að grænt umhverfi hjálpar okkur til dæmis að minnka streitu og kvíða ásamt auðvitað mörgum öðrum jákvæðum eiginleikum. Við mannkynið höfum eitt meirihlutanum af tíma okkar hér á jörðinni í að aðlagast náttúrunni og hennar umhverfi, en minni tíma í að aðlagast stórborgarumhverfinu eins og við þekkjum það í dag. Okkur hefur ekki tekist að aðlagast því að fullu, og við sjáum það til dæmis í formi aukins kvíða og andlegrar vanlíðunar hjá fólki.“ 

Andrea hefur lengi haft áhuga á hreyfingu og andlegri vellíðan.
Andrea hefur lengi haft áhuga á hreyfingu og andlegri vellíðan. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju stendur þú fyrir 30/30 prógramminu?

„Ég hef haft áhuga á hreyfingu, hollu matarræði og andlegri vellíðan í mörg ár, og var það drifkrafturinn hjá mér í að sækja um þetta nám sem ég er í. Við lifum í samfélagi sem krefst mikils af okkur. Við þurfum að vinna hratt og mikið, við þurfum að vera skipulögð og krafa er gerð um að við eigum við að vera besta útgáfan af okkur sjálfum á hverjum degi. Margir upplifa kvíða og stress og oft finnst fólki það vera að drukkna í verkefnum. Það er í skóla og vinnu, og oft með stóra fjölskyldu sem það þarf að sinna. Að geta hjálpað fólki að taka 30 mínútur frá á hverjum degi fyrir sjálft sig, til þess að líða vel er mín helsta ástæða fyrir þessu prógrammi. Ég hef einnig mikinn áhuga á að sjá hvort það breyti einhverju í lífi fólks að bæta þessum 30 mínútum af útiveru við sína daglegu rútínu.“   

Geturðu tekið nokkur dæmi úr prógramminu?

„Prógramminu er skipt niður í nokkra þætti, en aðalmálið er að eyða tíma utandyra. Lögð verður áhersla að að nýta þennan tíma fyrir sjálfan sig þegar tækifæri gefst, en þess á milli er þetta líka kjörinn tími fyrir samverustundir. Við förum lauslega í mikilvægi þess að anda, tæma hugann, og mikilvægi þess að vera hér og nú. Þetta á að vera létt og skemmtilegt. Hreyfing verður tekin inn í prógrammið einhverja daga.“

Hvernig er hægt að nálgast 30/30 prógrammið?

Það er einfaldast að senda mér skilaboð á snapchat – andreahalld, eða í gegnum tölvupóst – andreahalld@gmail.com til þess að nálgast það og fá nánari upplýsingar. 

Á paddleboard-i.
Á paddleboard-i. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú alltaf verið dugleg að hreyfa þig?

„Já ég hef yfirleitt hreyft mig mikið, og hef prófað margar mismunandi gerðir af íþróttum. Í dag stunda ég lyftingar á hverjum degi, fer mikið í göngutúra og fer á snjóbretti eins oft og ég get.“

„Fyrir mér er hreyfing forgangsatriði og lykill í því að setja sjálfa mig í fyrsta sæti. Fólk áttar sig oft ekki á því, en hreyfing styrkir þig jafnmikið andlega og hún gerir líkamlega. Þú öðlast oft meira sjálfstraust og þér líður betur í eigin skinni.“    

Hvers konar útvist stundar þú og hvað gefur það þér að vera úti í fersku lofti?

„Mér finnst virkilega gaman að vera úti, og það jafnast ekkert á við það að eyða heilum degi úti í góðu veðri. Ég hreinlega elska að fara í útilegur, fara á brimbretti, paddleboard eða snjóbretti. Það sem mér finnst skipta máli er mikilvægi þess að muna eftir því að leika sér, og svæðið sem við höfum utandyra er einn risastór leikvöllur og þar er sko nóg pláss fyrir alla. Það eru forréttindi að búa svona nálægt náttúrunni eins og við gerum á Íslandi, og fólk ætti að vera duglegra að nýta sér það.  Eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég tekið ástfóstri við sænsku skógana, það er stórfengleg upplifun að eyða tíma þar.“

Andrea segir hreyfingu styrkja andlega líðan ekki síður en líkamlega.
Andrea segir hreyfingu styrkja andlega líðan ekki síður en líkamlega. Ljósmynd/Aðsend
Andrea segir að svæðið sem við höfum untandyra sé einn …
Andrea segir að svæðið sem við höfum untandyra sé einn stór leikvöllur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál