Næstu skref er að starf lækna sjálf­virkni­væðist

Ragnheiður H. Magnúsdóttir.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir.

Við lifum á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Tæknin virðist vera að taka yfir og valmöguleikar á sviði heilsu og tækni að stóraukast. En eftir sitja mörg okkar sem eigum ennþá fullt í fangi með Instagram og Snapchat. Ragnheiður H. Magnúsdóttir formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, varaformaður Tækniþróunarsjóðs og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins útskýrði byltinguna og færði okkur sannleikann um hvað þessi bylting getur gert fyrir okkur. 

Frumkvöðlar á sviði heilsu og tækni eru að tala um hvernig hin helstu heimilistæki, sem lengi vel hafa verið eins, eru að snjalltæknivæðast, og munu í nánustu framtíð taka reglulega púlsinn á því hvað maður gerir og hvernig maður mælist. Sem dæmi er talað um að ískápurinn muni segja manni hvað hefur farið úr honum í vikunni og hvað vantar nýtt inn. Sýndarveruleiki er sagður verða vettvangur læknisins inni á heimilinu, lyfin verða 3D prentuð inni í stofu og ársskýrslur verða gerðar tengt heilsu og heilsufari.

Starf lækna að sjálfvirknivæðast

„Með tilkomu síma og snjallúra, erum við að fá miklu meiri aðstoð en við erum vön, við erum að safna gögnum og næstu skref í tæknibyltingunni er að starf lækna sjálfvirknivæðist og snjallforritin byrja að mæla gildi í blóði og gefa viðvaranir tengdar hjartasjúkdómum og fleiru miðað við venjur okkar og gildi, líkamsþyngd o.fl,“ segir Ragnheiður og bætir við. „Crispr verkefnið er einnig áhugavert í umræðunni um framtíð heilsutækninnar. En verkefnið snýst um genasplæsingar, þar sem búið er að finna út leið til að lækna mýs af MS-sjúkdómi. Talið er að þessi leið muni gera okkur kleift að lækna ýmiskonar erfiða sjúkdóma sem við höfum nú þegar ekki fundið neinar lækningar á,“ segir Ragnheiður en bætir við að það séu ýmsar siðferðislegar spurningar sem við þurfum að svara í þessu samhengi. „Ætlum við að leyfa að foreldrar panti hár- og augnlit á börnin sín? Hvar drögum við línuna í genasplæsingum?“

Þróun snjallúra

Hvaða þróun sérðu með snjallúrin?

„Með tilkomu snjallúra, sem við erum að setja á okkur, verður ekki langt í það að við sem sjúklingar komum með gögnin um okkur sjálf til læknis, í staðinn fyrir að læknirinn geri mælingarnar hjá sér. Maður hefur heyrt margar frábærar hugmyndir tengdar þessu, um að úrin muni geta mælt vítamínmagn úr fæðunni á staðartíma. Einnig er verið að þróa mjög hátæknilegar lausnir við að uppgötva krabbamein í ristli, þar sem sjúklingur tekur inn efni, og ef hann er með krabbamein verða hægðirnar bláar, en ekki ef allt er í lagi í kerfinu. Ábyrgðin er því að færast meira til okkar og frá læknum, sem er jákvætt að mínu mati.“ Ragnheiður útskýrir nánar. „Við erum einnig að sjá breytingar verða á upplýsingalöggjöfinni, þar sem heilsufarsupplýsingarnar eru manns einkamál, sem maður getur selt áfram í skiptum fyrir þjónustu, en fólk mun ekki græða lengur á heilsufarsupplýsingum manns eða þær týnast í skápum hjá læknum á heilsugæslunni.“

Ísland framarlega í svefnrannsóknum

Eru að verða spennandi tækniþróunarverkefni til á Íslandi um þessar mundir, tengd heilsu?

„Já, ekki spurning, Ísland hefur um tíma verið framarlega þegar kemur að heilsutækni. Og má nefna Nox Medical í því samhengi. Ég man eftir áhugaverðu verkefni frá Hjartavernd sem ég fylgist spent með þar sem æð í hálsi á 35 ára einstakling gefur forspágildi um kransæðastíflu í framtíðinni,“ segir Ragnheiður og það er greinilegt að fyrirbyggjandi aðgerðir eru henni að skapi. „Svefnrannsóknir hafa einnig verið áberandi hér á landi og snjallforrit í kringum það. Og benda má á nýjustu snjallsímalausnina frá Mayo Clinic sem býður upp á þjónustu í gegnum netið.“

Nýsköpun til að hagræða í heilbrigðiskerfinu

Ragnheiður segir að teikn séu á lofti með nýjum stjórnarsáttmála um að beita nýsköpun á allar greinar, og þar sé heilbrigðiskerfið ekki undanþegið framþróun. „Tal um að við ætlum að nota nýsköpun til að hagræða í heilbrigðiskerfinu er mér að skapi, enda á Ísland að vera miðstöð rannsókna og þróunar í heiminum. Slíkt gæti haft hliðaráhrif á svo margt í samfélaginu. Skapað ný vellaunuð störf, stækkað hagkerfið, aukið útflutningstekjur og læknað fólkið okkar hér á landi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál