Líkaminn sagði stopp við óhollu líferni

Arna Björk segir að magnið skipti máli þegar kemur að …
Arna Björk segir að magnið skipti máli þegar kemur að mataræði. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Arna Björk Sigurðardóttir var í góðu formi á sínum yngri árum en segist hafa gefist upp fyrir löngu á að reyna að léttast aftur þegar það gerðist í rauninni óvart. Arna Björk ákvað að snúa vörn í sókn og gerði lífstílsbreytingu í kjölfar þyngdartaps vegna ofsakvíðakasta sem hún fékk fyrir rúmu ári. 

„Í apríl 2017 ákveð ég að stíga á vigtina eftir mörg ár og sé mér til mikillar undrunar að 11 kíló eru farin. Þá fer ég að hugsa með sjálfri mér að fyrst að ég hafði náð af mér 11 kílóum á fjórum mánuðum, þá ætlaði ég ekki að stoppa þar. Ég byrjaði að nota hugræna atferlismeðferð til að sigrast á kvíðanum og ákvað að fylgjast betur með hvað ég setti ofan í mig,“ segir Arna Björk.

Á rúmu ári er Arna Björk búin að missa 27 kíló og fara niður um þó nokkrar fatastærðir. Þrátt fyrir góðan árangur minnir Arna Björk sig reglulega á að þetta sé langhlaup en ekki spretthlaup. „Góðir hlutir gerast hægt og núna fyrst er ég að sjá það,“ segir Arna Björk sem segir að það sé stutt í að hún nái markmiði sínu.

Var búin að gefa upp vonina

Hafðir þú áður reynt að taka þig á?

Gömul mynd af Örnu Björk.
Gömul mynd af Örnu Björk. Ljósmynd/Aðsend

„Já, ég hafði mörgum sinnum reynt að taka mig á, reynt að forðast kolvetni, hvítan sykur og hveiti. Það gekk mjög illa því ég ætlaði bara að hætta öllu í einu. Ég tók kannski þá ákvörðun um morguninn að borða bara salat, drekka bara vatn og yfirleitt endaði þetta með að ég sprakk um kvöldið og gúffaði í mig öllu því sem ég fann í skápnum og gafst svo upp í kjölfarið. Ég leit á mig sem glataðan málstað hvað varðaði þyngdartap og betri heilsu,“ segir Arna Björk.

Arna Björk lýsir því að það hafi verið eins og líkami hennar hafi sagt stopp við óhollustunni.  „Súkkulaði fór allt í einu illa í mig og í raun flestallt nammi, þannig að ég hef forðast það einfaldlega til þess að koma í veg fyrir magaverki og krampa. Eins varð ég að hætta í gosinu þar sem ég fékk mikið bakflæði af því. Í raun sagði líkaminn minn bara stopp við óhollu líferni.“

Samspil mataræðis og hreyfingar

Hversu miklu máli skiptir mataræðið?

„Það skiptir máli en í mínu tilviki skiptir magnið meira máli, að missa sig ekki í hinu og þessu. Ég reyni að skammta mér því mér fer að líða líkamlega illa ef ég borða of mikið. Ég leyfi mér allt sem mig langar í, en fæ mér bara minna af því. Það getur alveg verið erfitt og ég get alveg misst mig, en svo segir líkaminn stopp. Mig langar yfirleitt ekki í nammi í fleiri daga eftir einn dag í gúffi,“ segir Arna Björk.

Auk þess að taka mataræðið ströngum tökum fór Arna Björk að hreyfa sig. „Ég byrjaði að hreyfa mig og fann þá hvernig andlega heilsan fór batnandi. Ég reyni að hreyfa mig þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ég tek alveg pásur inn á milli en ég finn það að þörfin fyrir hreyfingu byrjar að aukast með hverjum deginum sem ég tek pásu. Ég reyni að fara einu sinni í viku í Powerfit Tabata til að styrkja mig og tvisvar sinnum í viku í spinning. Stundum lauma ég hotbody inn á milli.“ 

Arna Björk segist klæða sig öðruvísi eftir að hún grenntist og er hún byrjuð að ganga í gallabuxum, eitthvað sem hún gerði ekki fyrir tveimur árum auk þess sem meira er um ljósa liti í fataskápnum. Umfram allt finnur Arna Björk þó mun á andlegri líða. „Ég finn heilmikinn mun, það er miklu bjartara yfir mér og ég er tilbúnari í það að takast á við daginn.“

Arna Björk Sigurðardóttir hefur náð flottum árangri á rúmu einu …
Arna Björk Sigurðardóttir hefur náð flottum árangri á rúmu einu ári. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál