„Ég er í besta formi lífs míns“

Ellý Ármannsdóttir á níu líf eins og kettirnir. Í fyrra hóf hún myndlistarferil sinn eftir að hafa unnið við fjölmiðla í meira en áratug. Nú ætlar hún taka aðra U-beygju með því að kenna fólki leikfimi. Þegar Ellý er spurð að því hvernig þetta hafi komið til kemur í ljós að þetta er afsprengi þess að hún fór sjálf að æfa af kappi. 

„Ég byrjaði að æfa þar af krafti. Þá komu stjórnendur stöðvanna á tal við mig og spurðu hvort ég vildi skoða möguleikann á að kenna í Reebok Fitness og buðu mér að stunda fjarkennslu hjá akademíunni. Ég hugsaði með mér: Já af hverju ekki að prófa og fá greitt fyrir að æfa með fullt af fólki sem vill upplifa þessa vellíðan sem ég finn svo sterkt í sál og líkama með æfingunum sem ég elska?“ segir hún. 

Nú er hún búin að setja saman námskeiðið Topp form með Ellý og hefst námskeiðið 8. maí. 

„Á námskeiðinu, sem stendur yfir í mánuð, er ég með æfingar þrisvar sinnum í viku sem eru byggðar upp á grjóthörðum lyftingum ásamt öðrum æfingum með stöng og lóðum. Við toppum þetta svo með kvið- og bakæfingum. Í lok tímanna er svo slökun, kannski hugleiðsla, tarotspil og það sem nærir okkur að innan.“

Ellý Ármannsdóttir hefur sjaldan verið í betra formi.
Ellý Ármannsdóttir hefur sjaldan verið í betra formi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Hvernig byrjaði ræktar-ævintýrið?

„Ég var frekar einangruð í herberginu mínu að leggja mig alla fram við að mála myndir til að selja. Ég var ekki með spennandi sturtuaðstöðu í leiguherbergi og langaði að hreyfa mig meira og njóta þess að fara í heita notalega sturtu eins lengi og ég vildi þannig að ég keypti mér mánaðarkort í Reebok. Þá loksins sá ég árangur. Svakalegan árangur bæði innra með mér og utan á.“

Ellý segir að hreyfingin geri henni svo gott. 

„Hreyfingin brýtur upp daginn minn, ég fæ þarna „me time“, hitti frábært fólk með sama viðhorf til lífs og ég og svo hreinsa átökin huga minn og lyfta andanum á hærra stig.“

Hvað varð til þess að þú fórst að æfa á fullu? „Vellíðanin sem ég finn eftir 60 mínútna æfingu er mögnuð. Hún töfrar fram gleði, von og bjartsýni. Sálartetrið mitt elskar þennan lífstíl og líkami minn blómstrar sem aldrei fyrr. Ég er í besta formi lífs míns andlega og líkamlega. Allt gott er nú einhvern veginn.“

Hvers vegna skiptir máli að æfa svona mikið?

„Því hreyfing daglega er lykill að toppformi á allan máta og þá er ég ekki eingöngu að hugsa um útlitið heldur jafnvægi augnabliksins. Endurtekningar á því sem kroppurinn elskar og mataræðið mikilvægt, en ég hámarkaði minn persónulega árangur með hollustu. Ég ætla að leiðbeina þeim sem vilja æfa með mér og sýna þeim hvað ég geri. Það virkar nefnilega.“

Hvað færðu sjálf út úr ræktinni?

„Gleði fyrst og fremst. Svo minni ég mig á hvað það eru mikil forréttindi að geta gengið á tveimur jafnfljótum í líkamsræktarstöðina. Ég minni mig á það í hvert skipti sem ég fer í gegnum augnskanna Reebok sem bjóða mig velkomna en þá þakka ég almættinu fyrir góða heilsuna og allt sem það færir mér í þessari tilvist.“

Ellý er nýbyrjuð með Hlyni Jakobssyni tónlistarmanni en hann sagði í viðtali við Smartland á dögunum að móðir hans og systir hefðu leitt hann og Ellý saman. Þegar Ellý er spurð að því hvort þau séu byrjuð að búa svarar hún afdráttarlaust.  

„Ég hitti Hlyn og hef ekki farið frá honum síðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál