Bættu heilsuna með illgresi

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir.
Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir.

„Nú er farið að glytta í einstaka túnfífilshnappa víða í görðum og fleiri jurtir að líta dagsins ljós með hækkandi sól. Flestar jurtir sem við köllum illgresi eru í raun kröftugar lækningajurtir sem við getum tínt sjálf og nýtt okkur til heilsubótar,“ segir Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir sem heldur námskeið í því hvernig við getum bætt heilsuna með lækningajurtum.

„Sem dæmi þá eru túnfífill, haugarfi og njóli allt jurtir sem hafa verið notaðar frá örófi alda sem lækningajurtir. Túnfífillinn er í sérstaku uppáhaldi hjá mér þó fólk sé almennt ekki par hrifið af honum en ég nota hann mikið bæði blöðin og ræturnar þegar ég set saman jurtablöndur. Túnfífillinn er ákaflega næringarík jurt og inniheldur ríkulegt magn af beta karótíní, B vítamínum, C vítamíni, kalíum og biotíni. Túnfífill er talin hafa jákvæð áhrif á starfssemi meltingar og þá sérstaklega lifur og gallblöðru, ásamt því að vera vökvalosandi,“ segir hún.

Hvernig getum við notað túnfífilinn sem lækningajurt?

„Það er best að tína laufblöðin af túnfífli og og leggja á lak og láta þau þurrkast í nokkra daga, mylja þau svo aðeins í höndunum og setja í krukku og merkja. Svo notar maður til dæmis 1 tsk upp í 1 msk af þessu í 1 bolla af soðnu vatni og drekkur sér til heilsubótar.“

Hún segir að það séu margar jurtir í umhverfi okkar sem við getum nýtt betur. 

„Eins og til dæmis birki, mjaðjurt, blóðberg, gulmaðra og vallhumall. Þetta eru jurtir sem við getum nálgast rétt fyrir utan bæjarmörkin og finnast hvarvetna í íslenskri náttúru. Að mínu mati ættum við að veita því meiri athygli því sem vex í kringum okkur í náttúrunni, nýta það sem náttúran gefur af sér og læra að nota lækningajurtir okkur til heilsubótar og sem hluta af daglegum mataræði. Að tína jurtir er frábær útivera og samvera með til dæmis börnunum okkar og við höfum öll aðgang að þessum gersemum náttúrunnar og ég hvet alla til að fara út og skoða jurtirnar í túnfætinum og læra inn á hvernig við getum nýtt þetta hráefni betur. Enda hefur ein og sama jurtin fjölþætt heilsueflandi áhrif á líkamann og góð jurt er gulli betri sagði einhver,“ segir Ásdís Ragna. 

Í dag, 4. júní, mun Ásdís leiða fólk í gegnum heim kyngimagnaðra lækningajurta og fara yfir virk efni í jurtum og heilsueflandi áhrif þeirra á heilsu okkar og hvernig við getum laumað þeim inn í daglegt mataræði okkar. Hægt er að nálgast námskeiðið HÉR.  

„Miðvikudaginn 11. júní mun ég svo kenna ykkur hvernig við getum búið til okkar eigið jutasmyrsl og náttúruleg krem úr náttúrulegum hráefnum sem næra og styrkja húðina. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar HÉR.  

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir heldur spennandi námskeið um lækningajurtir.
Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir heldur spennandi námskeið um lækningajurtir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál