Íþróttaferillinn dapurlegur hingað til

Ilmur Kristjánsdóttir verður andlit Reykjavíkurmaraþonsins.
Ilmur Kristjánsdóttir verður andlit Reykjavíkurmaraþonsins. Eggert Jóhannesson

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona er byrjuð að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið en hún ætlar að hlaupa tíu kílómetra í hlaupinu þrátt fyrir að hingað til hafi íþróttaferill hennar verið frekar dapurlegur að eigin sögn. 

Af hverju ákvaðst þú að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu?

„Við ákváðum, stór hópur leikara að taka okkur saman og láta gott af okkur leiða. Við erum andlit maraþonsins,“ segir Ilmur. 

Hvaða málefni hleypur þú fyrir?

„Það eru mörg málefni sem ég brenn fyrir en það er eitt vandamál sem við glímum við í okkar samfélagi sem ég upplifi mig algjörlega lamaða gagnvart og það eru sjálfsvíg. Við horfum á eftir alltof mörgum sem kjósa að taka sitt eigið líf, sem sjá bara eina útgönguleið frá óbærilegri vanlíðan. Við erum einhversstaðar að bregðast. Ég vil hlaupa til að styrkja Píeta samtökin sem vinna forvarnastarf gegn sjálfsvígum.“

„Ég vil hlaupa til að styrkja Píeta samtökin sem vinna …
„Ég vil hlaupa til að styrkja Píeta samtökin sem vinna forvarnastarf gegn sjálfsvígum,“ segir Ilmur. Eggert Jóhannesson

Hvernig hefur þinn íþróttaferill verið?

„Hann hefur verið nokkuð dapurlegur, ég hef aldrei æft neinar íþróttir ég hef bara alltaf haft það markmið að gera eitthvað á hverjum degi þó að það sé ekki nema tvær armbeygjur.“

Hvernig æfir þú fyrir Reykjavíkurmaraþonið? 

„Ég hljóp 5 km í miðnæturhlaupinu um daginn, það gekk ágætlega en svo er ég að hugsa um að finna mér hlaupahóp. Mér er sagt að það sé skemmtilegra að hlaupa í hóp.“ 

Áttu þér uppáhalds skokkleið?

„Ég bý við Laugardalinn og mér finnst best að hlaupa þar.“

Hvað ætlar þú að gera annað skemmtilegt í sumar en að hlaupa?

„Ég ætla að fara til Marokkó með fjölskylduna og dvelja í litlum strandbæ. Ég hef hugsað mér að hlaupa morgunhlaup á ströndinni. Sjáum til hvernig það á eftir að ganga,“ segir Ilmur að lokum og brosir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál