Nokkrar leiðir til að ná sér eftir helgina

Eftir eina vinsælustu ferðahelgi ársins eru landsmenn án efa að velta fyrir sér leiðum til að verða ferskir aftur. Langur tími í bíl, það að sofa í tjaldi og nokkrir drykkir á kvöldin geta myndað bólgur og þrota sem erfitt er að losna við.

Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að hafa í huga til að ná upp ferskleikanum aftur.

Baðaðu þig í sjónum

Það kostar ekki krónu að baða sig í Nauthólsvíkinni í sumar. Það að sprikla í sjónum kemur blóðrásinni í gang svo um munar. Eins hreinsar saltið í sjónum líkamann og magnesíum róar. Gott er að fara nokkur skipti í heitan pott og sjóinn á víxl til að ná upp ferskleikanum.

Farðu í langan göngutúr

Þeir sem sátu lengi í bíl eða sváfu úti ættu að fara í langan göngutúr til að mýkja líkamann og koma sér á hreyfingu aftur. Gott er að hafa góða hljóðbók eða að hlusta á spennandi þátt. Fyrr en varir hefur þú gengið af þér slenið og þú finnur mun strax daginn eftir. 

Drekktu nóg af vatni

Eftir nokkra drykki, sér í lagi þegar maður er óvanur að drekka áfengi á líkaminn það til að þurfa meira vatn en vanalega. Ekki drekka mikið meira en 2 lítra á dag. Ef þú ert mjög sólginn í vatn eftir helgina, er ágætt að blanda vatnið söltum sem fást í apótekum víða um landið. 

Borðaðu prótein og ferskt grænmeti

Til að losa líkamann við bólgur eftir helgina ættir þú að borða nóg af agúrkum í bæði hádeginu og á kvöldin þessa vikuna. Hafðu ferska grænmetisskammtinn í það minnsta 300 gr. í kvöld. Hafðu einnig nóg af próteini á diskinum en slepptu kartöflum og sterkju um sinn. Bernais er góð þar sem hún er vanalega sykurlaus. Eitt epli eftir matinn getur haldið blóðsykrinum uppi á milli mála. Þú losnar við nokkur kíló ef þú nærð að halda þig í þessu mataræði næstu dagana. Eins er ofnbakað eða grillað grænmeti æðislegt á þessum árstíma eftir helgina.

Farðu í nudd

Það er ekkert betra en að fara í nudd akkúrat núna. Gott nudd kemur ró á hugann og kemur líkamsstarfseminni í gang aftur. Sogæðanudd á einnig sérlega vel við eftir annasama daga. 

Notaðu ilmkjarnaolíur

Í vinnunni dagana eftir stórar ferðahelgar er gott að vera með ilmkjarnaolíur við höndina. Settu í lófann á þér olíu sem ilmar af piparmyntu eða sítrónu og dragðu inn djúpan anda. Þetta er gott að gera fyrstu klukkustundirnar á hverjum morgni til að ná fókus og áttum aftur.

Farðu í bað á kvöldin

Gott bað með róandi tónlist er nauðsynlegt eftir síðustu helgi. Það kemur huganum inn í líkamann aftur og fær þig til að slaka á fyrir nóttina. Góður nætursvefn og úthvíldur líkami er það sem þú vilt upplifa sem fyrst til að ná upp fyrri orku fyrir lífið, fjölskylduna og vinnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál