Þarftu að fara í afvötnun?

Það þarf hugrekki til að breyta um lífstíl. Vanmáttur og …
Það þarf hugrekki til að breyta um lífstíl. Vanmáttur og að sjá að maður er í óstjórn er vanalega fyrsta skrefið í átt að nýju lífi. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Þegar einn súkkulaðibiti kallar á þann næsta og þú hefur ekki stjórn á því sem þú borðar gæti lausnin fyrir þig verið að fara í afvötnun frá sykri og sterkju. MFM-miðstöðin gæti verið með lausnina fyrir þig. 

Esther Helga Guðmundsdóttir er mörgum kunn en hún hefur lagt sig fram um að ræða málefni er varða mat og samskipti fólks við mat af skynsemi og þekkingu. Esther rekur MFM – Matarfíknarmiðstöðina þar sem fólk getur sótt einstaklingsviðtöl og námskeið til að skilja betur hvað er í gangi ef það missir stjórn í áti og þyngd. Eins og fram hefur komið í viðtölum við hana þá nota sum okkar mat til að breyta líðan sinni. Hluti landsmanna er að reyna að koma sér í form en án árangurs. Hún vinnur eftir kerfi sem ber góðan árangur og hefur hjálpað fjölda fólks í að komast á rétta sporið þegar kemur að þyngd þess.

Nú býður hún upp á 30 daga afvötnun frá sykri og sterkju 1. september. Smartland vildi vita betur um slíka meðferð.

Hverjir þurfa að fara í afvötnun af þessum toga?

„Þeir gætu þurft að fara í afvötnun sem finna að þeir byrja að borða sætindi og/eða skyndibita og þá kallar það á meira. Viðkomandi missir stjórn á hvað mikið hann borðar,“ segir Esther og útskýrir áfram áskorunina sem viðkomandi stendur frammi fyrir.

„Vandinn lýsir sér í stjórnleysi í át- og þyngdarstjórnun. Súkkulaðið kallar og viðkomandi hlýðir kallinu þrátt fyrir einlægan vilja til að fá sér ekki meira.“

Hvað eru margir Íslendingar samkvæmt rannsóknum í ykkar markhóp?

„Samkvæmt könnunum á matarfíkn gætu um 30% íslensku þjóðarinnar átt við matarfíkn á einhverju stigi að stríða.“

Esther Helga Guðmundsdóttir er sérfræðingur í að aðstoða fólk með …
Esther Helga Guðmundsdóttir er sérfræðingur í að aðstoða fólk með matarfíkn. Hún segir að allt að 30% landsmanna samkvæmt rannsóknum eigi við erfiðleika að stríða á þessu sviði. mbl.is/Kristinn

En hvernig veit ég hvort ég er matarfíkill eða ekki?

„Þú veist að þú gætir verið með matarfíkn ef þú borðar meira en þú ætlar þér. Ef þú ert að glíma við afleiðingar af átinu, eins og ofþyngd eða ýmiss konar heilsubrest. Eins veistu að ef þú heldur áfram að borða á ákveðinn hátt, þrátt fyrir einlægan vilja til að hætta því, þá er um að ræða einhverja óstjórn sem gæti breytt lífi þínu ef þú ert tilbúin/tilbúinn að skoða betur.“

Spurð um hvernig lífið er í bata frá matarfíkn segir Esther að sé gott líf. „Þú upplifir ákveðna frelsistilfinningu og innri frið.“

Að lokum segir Esther að við þurfum öll að skoða hvernig lífsgæði við viljum. „Er súkkulaðibiti sem kallar á annan, meira virði en heilbrigði og andlegur styrkur? Við getum átt stundarfró með neyslu á ýmsum efnum. En þegar við erum laus úr viðjum þeirra þá upplifum við raunverulega vellíðan og öðlumst tól til að takast á við lífið og tilveruna meðvitað og í núvitund,“ segir hún að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða málið nánar geta fengið nánari upplýsingar hér.

mbl.is