Pínulítið geggjað samfélag

Margrét Grímsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ.
Margrét Grímsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ. mbl/Arnþór Birkisson

Margrét Grímsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ. Þar er boðið upp á 4 vikna streitumeðferð sem Margrét stýrir. Hún segir aðsókn á þetta námskeið vera í stöðugri sókn, enda sé streita að aukast í samfélaginu með aukinni þenslu í hagkerfinu. 

„Það er ekki einungis fólk sem er að upplifa kulnun í starfi sem kemur til okkar, heldur einnig fólk sem er að upplifa kulnun í lífinu. Er búið að koma sér upp leiðum til að lifa af í stað þess að njóta lífsins og hafa tök á því sem gerist yfir daginn. Þegar það kemur hingað kemst það út úr öllum þeim munstrum sem það er í daglega. Fær tækifæri til að vera úti í náttúrunni, borða hollan mat og vinna úr því sem það þarf að vinna úr hverju sinni.“

Í streitumeðferð eru lokaðir hópar með 12-16 dvalargestum. Kennt er í fjórar vikur í senn, átta skipti í tvo samfellda tíma. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur vinni heimaæfingar á milli tímanna og boðið er upp á einkaviðtöl á námskeiðinu.

Neikvæðar hugsanir eitt einkenna streitu

Hver eru helstu einkenni þeirra sem leita til ykkar í streitumeðferðina?

„Einkennin eru td svefntruflanir, vöðvabólga, verkir í líkama, spennuhöfuðverkur, kvíði, þunglyndi, neikvæðar hugsanir, rótleysi og gremja svo eitthvað sé nefnt. Fólk talar oft um að stutt sé í reiðina og einnig að það sé búið að týna neistanum, ekkert sé skemmtilegt lengur. Margir tala um félagslega einangrun, skort á löngun og þreki til að umgangast fólk og staði sem það er vant að vera á, forðast mannamót, afmæli og fleira í þeim dúr. Líðan fólks er þannig að það hefur ekki líkamlega eða andlega heilsu til félagslegra samskipta. Ýmislegt annað einkennir einnig fólk sem kemur til okkar, s.s. hækkaður blóðþrýstingur, kviðverkir, svitaköst, innri skjálfti, og fleira í þeim dúrnum.“

Hver er nálgun ykkar í þessari meðferð?

„Við vinnum mjög heildrænt með einstaklingum. Bjóðum upp á mikið af fræðsluefni og skoðum streituvalda sem og streitueinkenni. Við tölum um leiðir til að vinna úr streitu, tölum um sjálfsmyndina og hlutverk sjálfstrausts í þessu samhengi.“

Mikilvægt að setja mörk

Hvaða hlutverk spilar það að setja mörk inn í þessa vinnu?

„Það að kunna að setja mörk í lífinu spilar stórt hlutverk í því að við getum viðhaldið þeim bata sem við öðlumst á námskeiðinu. Þess vegna tölum við mikið um meðvirkni, mörk og markaleysi. Við veltum því upp hvar við eigum erfitt með að setja mörk og fleira í þeim dúrnum. Þessi sjálfsvinna, ásamt því að vera úti í náttúrunni og að nota þannig hreyfingu eins og göngur, líkamsrækt og sund, er sú heildræna vinna sem við höfum trú á að komi fólki út úr kulnun og alvarlegu streituástandi.“

Margrét trúir af fullum hug á það að taka einstaklinginn út úr öllum mynstrum og úr sínu náttúrulega umhverfi til að endurforrita hugmyndakerfið og næra nýja jákvæða hugsun um lífið, það sjálft og tilveruna.

Hún segir streitu og kulnun algengari hjá konum sem leita til þeirra, enda séu þær 70% af þátttakendum á námskeiðinu. Aldur þeirra sem sækja Heilsustofnun í þessa meðferð er frá 40 ára og upp í 70 ára.

Hvað er helst að koma upp í þessari vinnu?

„Allar þær kröfur sem við setjum á okkur sjálf, undirliggjandi óunnar neikvæðar tilfinningar, gömul áföll o.fl sem þarf að vinna með.  Við erum öll að glíma við ýmislegt í lífinu, eigum okkar sögu og sumt úr henni þurfum við að vinna úr. Fólk sem hefur ekki unnið úr sínum málum, eða tekist á við verkefnin sem þeim hefur verið úthlutað, getur orðið mjög veikt. Þar komum við m.a. inn með lausn sem hefur virkað vel fyrir marga.“

Allt starfsfólk stofnunarinnar sem kemur að þessari meðferð er fagfólk, svo sem læknar, hjúkrunarfólk, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar, sálfræðingar og áfram mætti telja.

Öll meðferð er einstaklingsmiðuð til þess að hver og einn fái sem mest út úr dvölinni. Stofnunin notar sem dæmi aðferðir núvitundar, hugræna atferlismeðferð og ýmiskonar slökun. „Hreyfing og hollt mataræði er einnig stór þáttur í meðferð allra sem til okkar koma.“

Getur þú sagt mér dæmigerða sögu fyrir aðila sem leitar til ykkar svo að fólk geti tengt hvort það eigi erindi til ykkar?

„Já, ég get tekið dæmi sem er tilbúið en ég hef oft heyrt. Kona sem er 55 ára, á aldraða foreldra, börn og barnabörn sem hún er að sinna. 

Margrét sér stórar breytingar verða þegar tekið er til í …
Margrét sér stórar breytingar verða þegar tekið er til í litlu hlutunum sem skipta oft miklu máli að skoða. mbl/Arnþór Birkisson

Hún er í fullu starfi, það eru að koma upp hnökrar í hjónabandinu tengt breyttum lífsverkefnum og hún er að lenda í árekstrum í vinnu vegna eigin vanlíðunar. Þar fyrir utan er hún gjaldkeri í húsfélaginu og ritari í íþróttafélaginu. Hún reynir að takast á við öll þessi verkefni ein og óstudd, en finnst eins og hún sé að missa alla boltana og hvergi að standa sig nægilega vel. Af þessum sökum er hún komin með langvinnan kvíða, getur ekki sofið og hefur upplifað gríðarlegt álag í langan tíma. Hún er stöðugt með fókusinn í lífinu á aðra en sjálfa sig, reynir að standa undir kröfum sem eru kannski ekki mannlegar og er sjálfstraustið hennar að molna.

Þegar hún kemur til okkar byrjum við að skoða streituvaldana í lífi hennar, streitueinkennin og hvaða bjargráð hún sé með til að takast á við þau verkefni sem eru á hennar könnu. Þarf hún að sinna öllum þessum verkefnum eða er hægt að forgangsraða þeim? 

Við skoðum hvernig hún setur sjálfri sér og öðrum mörk eða hvort hún geri það yfir höfuð. Við vinnum að því að styrkja sjálfsmyndina og sjálfstraustið  og í framhaldi af því er markmið á meðan á dvölinni stendur að hún setji sig í forgang, sem hún svo vonandi heldur áfram eftir útskrift.

Við skoðum líka við hvernig hún deyfir tilfinningar sínar, notar hún áfengi, mat eða lyf til að breiða yfir vanlíðanina? Síðan förum við að sortera, forgangsraða og einfalda svo hún geti verið til staðar fyrst fyrir sig og svo fyrir aðra.“

Að lokum vill Margrét skerpa á því hvað er magnað að upplifa breytingar í lífi fólk á þessum tíma. „Við erum ekki að leita eftir stórum kraftaverkum, en litlar breytingar sem gerast jafnt og þétt yfir lengri tíma enda á því að vera stórir þættir í lífi fyrir þá sem hafa dvalið hér. Þeim tekst því yfirleitt að halda áfram þeirri vinnu sem þeir hófu með okkur eftir útskrift. Samfélagið sem við búum í er pínulítið geggjað, og það að fá að endurskoða sjálfan sig og vinna með að efla heilsu sína á Heilsustofnun getur skipt sköpum í lífi fólks.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál