Var orðin óvinnufær vegna ofþyngdar

Líf Birnu Ásgeirsdóttur hefur breyst mikið á fimm árum og …
Líf Birnu Ásgeirsdóttur hefur breyst mikið á fimm árum og er hún nú hreystin uppmáluð. Ljósmynd/Aðsend

Birna Ásgeirsdóttir, sjúkraliði og hjúkrunarfræðinemi á Akureyri, sneri við blaðinu fyrir nokkrum árum, breytti matarvenjum sínum og byrjaði að hreyfa sig. Hún segir lífstílsbreytinguna hafa breytt lífi sínu en minnir þó fólk á að þetta gerist ekki á einni nóttu rétt eins og það taki fólk tíma að komast í ofþyngd. 

„Ég var orðin óvinnufær vegna verkja, þreytu og ofþyngdar, og stefndi allt í örorku. Ég greindist með vefjagigt, liðagigt og latan skjaldkirtil árið 2007, og smá saman yfirtóku verkirnir og þreytan öll völd. Ég hreyfði mig minna og minna og borðaði meira og meira,“ segir Birna um ástandið sem hún var í. 

„Botninum var náð sumarið 2013 þegar ég treysti mér ekki til þess að fara og horfa á fótboltaleik hjá dóttir minni. Bara tilhugsunin um að þurfa að fara út úr húsinu, labba upp stutta göngustíginn og svo labba um og standa á fótboltavellinum var mér um megn. Ég sat því ein eftir á meðan allir hinir fóru á fótboltaleikinn. Ég sat heima og grét, og hugsaði um hvort lífið mitt yrði svona það sem eftir væri. Hvort þetta væri svona sem ég sæi fyrir mér lífið, ekki orðin fertug,“ segir Birna sem gat ekki gengið upp stigann á milli hæða heima hjá sér án þess að stoppa. 

Mikil er breyting er á Birnu síðan hún tók líf …
Mikil er breyting er á Birnu síðan hún tók líf sitt í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Þetta snýst allt um rétta hugarfarið

Birna þakkar hugarfarsbreytingu 90 prósent af sínum árangri. Hún tók heilt ár í að undirbúa sig og komst að því að rétt mataræði og hreyfing væri lykillinn. Það er erfiðara en það hljómar og þess vegna var mikilvægt að hafa hausinn á réttum stað. 

Birna fór í gegnum þetta á eigin vegum en notaði öppin Endomondo og MyFitnessPal til þess að hjálpa sér. Auk þess vigtaði hún sig og mældi einu sinni í viku og skráði niður. Mitt fyrsta skammtímamarkmið var að geta labbað upp hálfan stigann án þess að stoppa, það tók eina viku. Eftir tvær vikur náði ég að labba upp allan stigann,“ segir Birna um sín fyrstu markmið þegar kom að hreyfingu. Hún ákvað að hunsa verkina sem hún fékk þegar hún gekk upp stigann. „Langtímamarkmiðið var að vera búin að ná af mér nægilega mörgum aukakílóum og vera líkamlega og andlega hraust til þess að geta farið í svuntuaðgerð,“ segir Birna sem fór í aðgerðina fyrir einu og hálfu ári. 

Þegar hún náði markmiðum sínum verðlaunaði hún sig en verðlaunin voru ekki alltaf stór. „Stundum var það bara að geta lesið næsta kafla í spennandi bók, stundum var það hvítvínsglas. Setningin að gefast upp var á bannlista.“

Þessi mynd af Birnu og dóttur hennar, Þórnýju Söru, var …
Þessi mynd af Birnu og dóttur hennar, Þórnýju Söru, var tekin í ágúst 2014. Þá var Birna búin að léttast um í kringum tíu kíló og komst upp á fjall í fyrsta sinn. Ljósmynd/Aðsend

Tók ákvörðun um að fara aldrei aftur í megrun

Eins og svo margir hafði Birna prófað að fara í flesta þá megrunarkúra sem til eru. „Það endaði alltaf eins, annaðhvort gafst ég upp ansi fljótt eða eftir margar vikur í ströngu aðhaldi þá bætti ég á mig öllu aftur og nokkrum kílóum í viðbót auk þess sem andlega hliðin fór í rúst rétt eina ferðina. Ég tók ákvörðun um að fara aldrei aftur í megrun eða átak. Ég ákvað að breyta um lífsstíl, ekki einhvern lífsstíl sem einhver flott íþróttakona eða -maður hafði búið til. Ef þú ætlar að breyta um lífsstíl gerðu hann þá að þínum eigin. Breyttu því sem þú getur lifað með það sem eftir er ævinnar. Lífsstílsbreytingin er varanleg og maður verður alltaf að hafa á bak við eyrað að þetta er ævilöng vinna. Grípa þarf inn í um leið og eitthvað fer úrskeiðis, áður en það verður of erfitt að snúa við.“

Eina sem Birna hætti alfarið var að drekka gos. Hún borðar áfram kökur en minna, hún borðar líka enn þá hamborgara en bara eitt gróft brauð með, sleppir frönskum og fær sér salat í staðinn. 

Margir kenna tímaleysi um þegar kemur að breyttum lífstíl og Birna sem er gift og fimm barna móðir þekkir þá afsökun vel. „Stærsta og versta afsökun í heimi er að segja að ég hafi ekki tíma fyrir þetta. Þessa afsökun hafði ég notað í svo mörg ár og þessi afsökun varð til þess að ég glímdi við ofþyngd.

Ég velti því fyrir mér hvað ég notaði mikinn tíma fyrir framan sjónvarpið, tölvuna og símann og stytti þann tíma smátt og smátt. Að taka fjölskylduna með út að labba varð smám saman bara fastur liður eða fara út í garð í smá fótbolta eða eltingarleik. Feluleikur inni getur til dæmis verið mjög erfiður líkamlega allt eftir því hvar þú velur að fela þig, eða að fela hlut þá fær maður fullt af teygjum á ótrúlegustu stöðum.

Ljósmynd/Aðsend

Allt annað líf

Hverju breytti þessi lífstílsbreyting fyrir þig?

„Hvar á ég að byrja? Þetta breytti öllu, nákvæmlega öllu, bæði líkamlega og andlega. Að taka stjórnina yfir eigin líkama og löngunum er mjög erfitt, en það er svo þess virði. Árin 2013 og 2014 stefndi ég í öryrkja. Árið 2016 byrjaði ég í hjúkrunarfræði, og í dag vinn ég 40 prósent vinnu með, á tvo hunda og er búin að ná tökum á mínu lífi. Er ég verkjalaus? Nei aldrei, ég verð aldrei verkjalaus. En ligg ég upp í rúmi og athuga hvar og hvernig verkirnir eru og ákveð út frá því hvernig dagurinn verður? Nei, alls ekki. Ég á mína slæmu daga verkjalega og orkulega séð, og það er bara í lagi.

Andlega líðan mín er mun betri, ég sef betur, ég nærist betur, ég hreyfi mig og þegar að allt þetta fer saman þá líður mér líka betur andlega. Það er líka stórt afrek að hafa tekist að léttast og maður verður að leyfa sér að eiga það og vera stoltur af því,“ segir Birna og minnir fólk á að gleyma ekki að hrósa sjálfu sér. Hún gleymir heldur ekki fyrsta boðorðinu í geðorðunum tíu, „hugsaðu jákvætt, það er léttara“.“

Þegar blaðamaður spyr Birnu hvað hún myndi ráðleggja öðru fólki sem er á sama stað og hún var er svarið ekki einfalt. Allt snýst þetta um hugarfarið og segir hún að fólk verði að vilja þetta sjálft. „Byrjaðu rólega. Mundu að þú varðst ekki svona eins og þú ert í dag á einni nóttu, og þú breytir þessu heldur ekki á einni nóttu,“ segir Birna sem ráðleggur fólki líka að vera raunsætt þegar kemur að lífstílsbreytingum, ekki ákveða að hætta að borða nammi ef það getur ekki ímyndað sér nammilausa laugardaga. Fólk ætti frekar að minnka skammtana.

„Það þýðir lítið að búa til fullt af hollustufæði og borða það svo ekki af því að það er svo vont, og panta þér svo pizzu af því að þú ert orðin svo svöng. Skráðu niður hvaða fæði, sem er hollt, þú gætir hugsað þér að borða og bættu því við um leið og þú minnkar skammtana. Hreyfðu þig eitthvað á hverjum degi og byrjaðu daginn á að drekka vatn eða te, ekki kaffi. Kaffið getur komið sem drykkur númer tvö á morgnana. Þetta var trix sem ég komst að, að gerði það að verkum að maginn minn varð rólegri og ég borðaði minna yfir daginn,“ segir Birna og bætir því við að fólk verði að muna eftir því að það tók þessa ákvörðun sjálft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál