Grennistu ef þú hreyfir þig minna?

Þórey Kristín Þórisdóttir klínsíkur sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir klínsíkur sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.

„Það ætti að gleðja marga að nýlegar rannsóknir sýna að margir eiga það til að grennast í fríi þrátt fyrir meiri kyrrsetu og óhollara fæði. Það er þó sérstaklega einn hópur sem þetta á við um: Þeir sem eru undir miklu álagi í hversdagsleikanum. Þetta eru til dæmis þeir sem eru með lítil börn, þeir sem eru undir miklu álagi í vinnunni eða stunda krefjandi nám. Það eru nefnilega sterk tengsl milli þyngdaraukningar og stress. Kortisólstresshormónið eykst verulega þegar við erum undir álagi og hefur þar með áhrif á blóðsykurinn og eykur insúlínframleiðsluna. Þegar blóðsykurinn fellur eykst löngunin í fituríkar og sykraðar matvörur,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og heilsumarkþjálfi, í sínum nýjasta pistli: 

Það sem gerist er að þegar einstaklingar undir álagi fara í frí þá minnkar stressið og þar af leiðandi minnkar innspýting streituhormóna. Ef þú ert ein/einn af þeim sem grenntust í sumarfríinu ættirðu að skoða vel álagið í kringum þig og fara að hugleiða hvernig þú getur dregið úr streitumyndandi þáttum.

Það eru margar einfaldar leiðir til að draga úr streituhormónunum og stuðla að þyngdartapi. Einfaldasta ráðið er að borða hægar, en allt of margir borða of hratt. Það sem gerist þegar einstaklingar borða of hratt er að inntaka matar verður meiri þar sem það tekur líkamann um 20 mínútur að finna fyrir seddu. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að hjá þeim sem borða hægar tekur líkaminn betur upp næringarefnin en hjá þeim sem til dæmis borða nákvæmlega sama mat nema hraðar. Þeir sem borða hraðar verða þannig fyrr svangir og borða því meira en þörf er á. Að borða í núvitund (borða hægt og vera til staðar) er án efa auðveldasta og skilvirkasta „megrunin“ sem til er. Það að borða í núvitund getur beinlínis verið grennandi og hefur hjálpað einstaklingum með matarfíkn.

Fyrir utan þyngdaraukningu þá eru aðrir þættir sem langtímastreita hefur í för með sér líkt og þunglyndi og ættu því allir að reyna að draga úr streitu.

Einkenni stress geta verið margvísleg og lúmsk og margir átta sig ekki á samhenginu. Einkenni geta komið fram í húðvandamálum (til dæmis bólum eða kláða), meltingartruflunum, of litlum svefni eða of miklum, hröðum hjartslætti og aukinni svitamyndun svo dæmi séu tekin. Þar að auki hefur stress mikil áhrif á ónæmiskerfið sem getur valdið því að einstaklingar verði oftar lasnir og fá endurteknar sýkingar.

Það er því óhætt að mæla með því að leggja ýmislegt á sig til að draga úr stressi. Ef tímaskortur er vandamálið má hugga sig við að sá tími sparast sem fer til spillis í endurtekin veikindi, tíðar apóteks- og læknisheimsóknir, orkuleysi og endalaus millimál. Ávinningurinn kemur fljótt fram í bættri heilsu og gæti því allt eins orðið meiri tími til ráðstöfunar sem stuðlar að enn minna stressi. Er þá ekki til mikils að vinna?

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent henni fyrirspurn HÉR. 

Heimildir frá Harvard Health og Psychology of eating auk klínískrar reynslu.

Ljósmynd/Snæþór Sigurbjörn Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál