Ekki láta vinnuna brenna þig upp

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Bergmann býður upp á kvöldnámskeið þriðjudagskvöldið 6. nóvember, sem hún kallar Ekki láta vinnuna brenna þig upp. En hvers vegna lenti hún í kulnun eða útbruna í eigin starfi og hvernig hefur hún tekið á því?

„Það má segja að ég hafi lent í algerum útbruna árið 2010 og líf mitt lá við að mér tækist að snúa ferlinu við. Líkaminn var orðin svo súr að tennurnar voru farnar að rýrna og ónæmiskerfið svo veikt að það var á milli 0-1 að mati Hallgríms heitins Magnússonar læknis á skala þar sem tíu var best.

Ég var algerlega orkulaus, fannst ég þurfa kranabíl til að hífa mig út úr rúminu á morgnana og vegna bólgusjúkdóma og verkja gat ég lítið unnið. Ég var hins vegar ákveðin í að ná bata eftir náttúrulegum leiðum og þegar ekki gekk nógu vel með þær aðferðir sem voru í boði hér heima, leitaði ég til náttúrulæknis í Bandaríkjunum. Í framhaldi af því tók við tveggja ára bataferli.

Náttúrulæknirinn mældi mig meðal annars með glútenóþol á mjög háu stigi og sagði að þegar fólk mældist með 15 á þeim mælikvarða sem hún notaði teldi hún það vera með glútenóþol. Ég mældist hins vegar með 47. Það var töluvert áfall, því ég hef átt í ævilöngu ástarsambandi við brauð og brauðmeti. Í bataferlinu þurfti ég því að segja því sambandi upp og gera margar aðrar breytingar á eigin lífi. Það tók aðeins á, en að launum fékk ég heilsuna á ný, svo það var svo sannarlega þess virði,“ segir Guðrún. 

Hvernig fjallarðu þá um efnið á þessu kvöldnámskeiði?

„Ég fjalla um einkennin sem koma fram löngu áður en til algerrar kulnunar kemur. Einkenni sem við finnum flest fyrir, en hlustum ekki á. Það er svo einkennandi fyrir okkur sem Íslendinga að keyra okkur áfram, því okkur hefur svo lengi verið innrætt að vinnan göfgi manninn.

Ég fann öll þreytueinkennin, streituna og álagið sem gerði það að verkum að ég gat ekki sofið á næturnar þótt ég væri úrvinda. Ég sannfærði mig hins vegar um að ég gæti ekki breytt vinnufyrirkomulaginu og hélt því áfram. Það má segja að þessi brjálaða vinnutörn hjá mér hafi byrjað eftir að ég missti manninn minn 2004 og ég þurfti allt í einu að sinna tveggja manna starfi. Árið 2009 missti ég svo móður mína og það tók líka á, svo það voru margir samverkandi þættir sem leiddu til útbrunans.

Ég fjalla einmitt um þá og þær „quick fix“ leiðir sem við grípum oft til, til að keyra orkuna upp, þegar segja má að runnið sé út af bæði aðalbatteríinu og varabatterínu. Þetta eru hættulegar leiðir sem grafa enn frekar undan heilsu okkar.“

Hvað getum við gert til að minnka líkur á kulnun?

„Það er ýmislegt sem hægt er að gera eins og til dæmis að stunda slökunaræfingar og hugleiðslu. Við erum hins vegar flest svo miklir spennufíklar að við þrífumst á því að hafa of mikið að gera. Það er ekkert fjör í því að slaka á, svo við höldum keyrslunni áfram þar til við brennum út.

Svefninn er líka mikilvægur og almennt förum við hér á landi allt of seint að sofa á kvöldin. Við fáum því ekki þann mikilvæga svefn fyrir miðnætti sem gerir líkamanum svo gott. Mataræðið skiptir líka miklu máli, góð melting og hægðalosun og svo eru mörg bætiefni sem geta hjálpað okkur að takast á við ástandið og styrkja ónæmiskerfi okkar.“

Hvað er best að gera ef grunur er á að slíkt sé að gerast?

„Margir gera sér alls ekki grein fyrir að sífelld veikindi, smásýkingar og ýmis önnur heilsufarsvandamál megi tengja við hættu á útbruna. Því er gott að koma á námskeið eins og þetta til að læra um einkenni og undanfara útbruna – og hvað er til bóta ef alger útbruni er staðreynd.

Ég hélt nýlega svona námskeið fyrir starfsfólk Arion banka. Í framhaldi af því fékk ég póst frá einum starfsmanni sem sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann þjáðist af kulnun eða útbruna, fyrr en eftir að hafa hlustað á mig.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál