Alger sigur að fá heyrnina aftur

Katrín Björk Guðjónsdóttir skrifar sig í gegnum bataferli sitt, en hún er 25 ára og hefur nú þegar fengið þrjú heilaáföll. Í sínum nýjasta pistli á bloggsíðu sinni segir hún frá því hvernig það var að missa heyrnina og hvað það var mikil gjöf þegar hún fékk hana aftur. 

„Þegar ég vaknaði eftir stóru heilablæðinguna þá gat ég bara hreyft annað augað og var bundin við öndunarvél. Ekki nokkur manneskja gat leitt hugann að því að þá fór að safnast vökvi bak við hljóðhimnurnar mínar, með öllum sínum tilheyrandi verkjum og þessu helvítis suði. Í þrjú ár heyrði ég ekki neitt og ég bara hélt og trúði því í allri minni einlægni og hræðilegu þögn að bifhárin mín hefðu misst alla skynjun og verkirnir væru bara eitthvað sem ég þyrfti að lifa með svo ég sagði ekki nokkrum manni frá þessu, því þannig tekst ég á við mikinn ótta, minnist ekki á það og græt svo bara hljóðlausum tárum í koddann á kvöldin.

Svo í sumar fór mig samt að langa að fá mér heyrnartæki. Ég saknaði þess svo að heyra allan venjulegan og hversdagslegan umgang, heyra óminn frá fjölskyldumeðlimum sem baksa um í húsinu og öll umhverfishljóðin sem berast inn, tifið í klukkunni og ég þráði svo sárt bara að heyra og sáru tárin féllu hljóðlaus á kvöldin þegar ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að á morgun skyldi ég segja við mömmu „Hey! Ég var að pæla í að fá mér heyrnartæki.“ Og mikilvægast væri að brosa þegar ég myndi segja þetta því hana mætti aldrei gruna að ég hafi eytt öllum þessum mikla tíma í að loka mig frá öllum og hágrenja. Þegar morgundagurinn loksins kom mörgum dögum eftir þessa örlagaríku nótt þá varð ég að einum risastórum stresshnút og með tárin í augunum, loksins segi ég þetta við mömmu, og hún bara skellihló og brosti og sagði: „Hjúkk! Þá get ég loksins lækkað sjónvarpið!“

Þetta var pínulítill persónulegur sigur sem vannst þegar ég fór að hlæja með henni. Allt í einu urðu þessi svo sorglegu sorgartár að stórskemmtilegum gleðitárum. Mamma reyndi og reyndi að finna tíma sem hentaði mér hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni en það gekk heldur brösuglega svo við ákváðum að ég færi fyrst til háls-, nef- og eyrnalæknis út af eyrnaverknum sem hafði verið að plaga mig frá því ég fékk áfallið. Hann leit í eyrun á mér og sagði mér að það væri ekkert skrítið þótt ég heyrði bara alls ekki neitt og verkjaði svona rosalega í eyrun, þau væru troðfull af vökva. Ég þurfti því bara rör og núna heyri ég allt! Það er ekkert í heiminum öllum sem getur verið dásamlegra en það að liggja við hliðina á ástinni sinni og geta ekkert sofið því þú ert of upptekin við að hlusta á andardráttinn hjá manneskjunni sem á bæði hjarta þitt og hug þinn allan. Þegar Ásgeir fór í vinnuna þá hlustaði ég bara á fuglana eða á regndropana falla til jarðar með sínum róandi dynkjum. Ég heyri vel í fyrsta sinn í þrjú ár!

Frá því ég fékk áfallið þá var eins og það hefði verið klippt á allar mínar ótalmörgu og pirrandi ofvirku kitlutaugar, mig bara var gjörsamlega hætt að kitla. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég var fegin að kitla ekki eftir að hafa kitlað óeðlilega mikið. Það var núna um daginn, sem sagt alveg nýliðinn, einn fallegan haustmorgun þegar mamma var að hjálpa mér að klæða mig í peysu og þegar hún fór með hendina sína í handarkrikann á mér til að ná í peysuna og toga hana niður þá var eins og hún hefði vakið mig upp af svefni sem ég hafði í sannleika sagt ekkert saknað, þessi síhlæjandi og kitlandi fiðrildi sem fara um mig alla þegar einver gerir sig líklegan til að snerta mig í handarkrikunum. Ég var fljót að skella höndinni niður og hlæja eins og hinn mesti vitleysingur!

Þegar ég hélt í sigurförina til Reykjavíkur þá játaði ég smá þrá fyrir foreldrum mínum sem hafði blundað í hjarta mínu í lengri tíma. Draumur minn var heldur langþráður og eitthvað sem margir héldu að ég myndi aldrei ná en ég ætlaði mér að ná því. Ég lá inni á stofunni minni á Grensás þegar ég ákvað að eftir nokkur ár þá ætlaði ég mér að koma gangandi inn á Grensás. Síðan þá hefur þetta verið eitt af mínum allra stærstu markmiðum. Núna eru þrjú ár frá því ég lá á Grensás og leyfði mér að dreyma þennan draum. Ég þarf að fara með  reglulegu millibili á Grensás til að hitta lækninn minn og þá fer ég alltaf og heilsa upp á starfsfólkið sem reyndist mér svo vel á þessum erfiðu tímum. Í októberheimsókninni fór ég gangandi inn á Grensás og var í augnhæð við alla sem ég hitti!

Katrín Björk Guðjónsdóttir er komin með heyrnina aftur.
Katrín Björk Guðjónsdóttir er komin með heyrnina aftur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál