Olga svelti sig heilu dagana

Olga Helgadóttir segir margt hafa breyst eftir að hún fékk …
Olga Helgadóttir segir margt hafa breyst eftir að hún fékk hjálp frá næringafræðingi. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ljós­mynd­ar­inn Olga Helga­dótt­ir var orðin 152 kíló þegar hún fór í maga­ermaraðgerð fyr­ir tæp­um tveim­ur árum. Hún seg­ir aðgerðina hafa hjálpað sér en líður þó mun bet­ur eft­ir að hún fékk hjálp frá nær­ing­ar­fræðingi. Hún áttaði sig á því hversu óheil­brigt sam­band henn­ar við mat var og seg­ist hafa svelt sig heilu dag­ana.

„Ég var orðin 152 kg þegar ég ákvað að fara í maga­ermaraðgerðina. Ég var búin að hugsa þetta í nokk­ur ár, en hafði aldrei þorað að nefna það við neinn. Ég var búin að ganga í gegn­um mikla erfiðleika á þess­um tíma og hafði fitnað mikið í kjöl­farið, ég fann að ég vildi breyta til, ég ræddi það við vin­konu mína sem studdi mig í gegn­um ákv­arðana­tök­una og ég ákvað að fara í aðgerð eft­ir að hafa reynt ár­ang­urs­laust að grenn­ast á eig­in spýt­ur. Ég kynnti mér all­ar þær offituaðgerðir sem í boði voru og taldi erm­ina vera þá aðgerð sem hentaði mér best,“ seg­ir Olga um hvað varð til þess að hún ákvað að fara í aðgerðina.

Í mjög slæmu ástandi fyr­ir aðgerðina

Áður en Olga fór í aðgerðina var hún í mjög slæmu ástandi, bæði lík­am­lega og and­lega. Hún bjó í kjall­ara­her­bergi en veigraði sér fyr­ir að fara upp og niður tröpp­ur. Hún seg­ist líka hafa skamm­ast sín fyr­ir hver hún var. „Svo voru alls kon­ar hugs­an­ir líka sem maður seg­ir ekki frá. Ótt­inn við að brjóta stóla sem maður sest í og þess hátt­ar. Að vera í svona mik­illi yf­ir­vi­gt tak­mark­ar mann mikið, en maður vill ekki endi­lega viður­kenna það.“

Olga sér ekki eft­ir því að fara í maga­ermaraðgerðina þar sem það hjálpaði henni að létt­ast hratt og jók trúna á því að hún gæti lækkað töl­una á vigt­inni. Ef hún væri að fara í gegn­um ferlið í dag myndi hún þó lík­lega gera ým­is­legt öðru­vísi.

Svona leit Olga út áður en hún fór í aðgerðina …
Svona leit Olga út áður en hún fór í aðgerðina og fékk hjálp frá næringarfræðingi. Ljósmynd/Aðsend

„Mér var ráðlagt að missa fimm kíló fyr­ir aðgerðina og ég fékk send­ar leiðbein­ing­ar og upp­lýs­ing­ar. Ég ræddi líka við starfs­fólk í aðgerðarteyminu. Ég var hins veg­ar frek­ar löt og stóð mig alls ekki nógu vel þar. Ég var ekki dug­leg að sækj­ast eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um og hélt ég gæti þetta al­veg sjálf. Ég hefði að sjálf­sögðu átt að leita mér meiri fag­hjálp­ar áður,“ seg­ir Olga og á þá bæði við sál­fræðihjálp og nær­ing­ar­fræðslu.

Nær­ing­ar­fræðing­ur­inn Elísa­bet Reyn­is­dótt­ir, Beta Reynis, hef­ur hjálpað Olgu mikið að unda­förnu og með henn­ar hjálp hef­ur Olga öðlast dýpri skiln­ing á vanda­mál­um sín­um. Hún hafði til að mynda lengi átt í óheil­brigðu sam­bandi við mat.

Offitu­sjúk­ling­ur með nær­ing­ar­skort

Olga seg­ir það geta verið erfitt að átta sig á því að það sé hægt að vera offitu­sjúk­ling­ur með nær­ing­ar­skort en þannig var það í henn­ar til­viki. Olga hafði svelt sig lengi, hún vandi sig af því að borða morg­un­mat í kring­um ferm­ing­ar­ald­ur­inn og fljót­lega fór hún að mynda ótta í kring­um mat.

„Ég hef eig­in­lega aldrei borðað í kring­um fólk og veisl­ur og hlaðborð hefur verið minn versti óvin­ur vegna mat­ar­ins, þó ég sé aðeins að skána með þetta núna. Þar af leiðandi stundaði ég það að borða ekk­ert all­an dag­inn, vaknaði kannski klukk­an níu á morgn­ana en fékk mér ekk­ert að borða fyrr en um ell­efu­leytið á kvöld­in. Þá var ég hins veg­ar orðin svo svaka­lega svöng að ég kláraði 12 tommu pizzu, brauðstang­ir og gos og fékk svo jafn­vel sæl­gæti í desert. Þetta er mik­ill mat­ur sem ég var að inn­byrða en ekki mik­il nær­ing, þar af leiðandi var lík­ami minn ekki að fá nema brota­brot af þeirri nær­ingu sem hann þurfti á að halda, en rosa­lega mikið af sykri og kol­vetn­um. Ég tók líka tíma­bil þar sem ég borðaði ekki mat i í tvo til þrjá daga, en passaði að eiga gos og ávaxta­tögg­ur, sem þá voru til, þannig gat ég skotið upp ork­unni og haldið mér gang­andi. Á því tíma­bili þorði ég ekki út í búð að kaupa mat af ótta við að aðrir dæmdu mig fyr­ir að vera offitu­sjúk­ling­ur og borða. Því má segja að ég hafi alltaf átt mjög óheil­brigt sam­band við mat og aldrei borðað nær­ing­ar­ríka og góða fæðu sem pass­ar upp á að ég fái þau nær­ing­ar­efni sem ég þarf á að halda.“

Olga Helgadóttir er búin að léttast um 65 kíló á …
Olga Helgadóttir er búin að léttast um 65 kíló á tæpum tveimur árum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Í dag pass­ar Olga eft­ir bestu getu að borða nær­ing­ar­rík­an mat. Hún seg­ir ekk­ert heita full­kom­inn dag­ur en út­skýr­ir þó fyr­ir blaðamanni hvað hún borðar á góðum degi. Í morg­un­mat borðar húnchia-graut. Hún borðar heit­an mat í há­deg­inu, prótein­rík­an og kol­vetn­is­snauðan. Á milli mála fær hún sér harðfisk með smjöri, hrökkk­ex með smurosti, ban­ana eða Hleðslu. Á kvöld­in fær hún sér stund­um heita máltíð en finnst líka gott að búa sér til hveitikímsklatta og setja á hann smurost, skinku, alls kon­ar græn­meti, lárperu og jafn­vel egg. „Ég verð oft svöng á kvöld­in og epli með hnetu­smjöri er þá eitt­hvað sem ég sæk­ist mikið í,“ seg­ir Olga.

Vanda­mál­in hverfa ekki eins og kíló­in

„Betra mataræði hef­ur breytt rosa­lega miklu fyr­ir mig. Það gef­ur mér aukna orku og meira út­hald, það gef­ur mér meiri gleði og ég er ham­ingju­sam­ari, mér líður bet­ur. Ég fæ ekki jafn mik­inn kvíða og áður og hugs­un­in mín verður rök­rétt­ari. Ég finn það um leið og ég hætti að næra mig vel og hugsa út í það hvað ég er að borða, þá fer and­lega hliðin í rugl líka. Ef ég næ að halda mér nokk­urn veg­inn á beinni braut, þá líður mér miklu bet­ur. Auðvitað fer ég stund­um út af spor­inu og eins og Beta segir „lífið ger­ist“ en grund­vall­ar­hugs­un­in mín er að halda aðal­máltíðunum holl­um og nær­ing­ar­rík­um og þá hef­ur það minni áhrif á mig þó svo að eitt­hvað óhollt laum­ist með í milli­máli. En góð nær­ing er lyk­ill­inn að góðri and­legri heilsu, alla­vega er það þannig í mínu til­felli.“

Nú ert þú búin að létt­ast um 65 kíló, hvaða mun finn­ur þú helst á þér?

„Lík­am­lega er ég létt­ari á mér, ég er byrjuð að geta hlaupið smá­veg­is og finnst allt auðveld­ara sem ég geri. Það vex mér ekki leng­ur í aug­um að ganga upp tröpp­ur og ég get tekið virk­ari þátt í sam­fé­lag­inu.

And­lega er ég ekki eins óör­ugg með mig, ég skamm­ast mín ekki leng­ur fyr­ir það hver ég er. Mér finnst ég ekki þurfa að fela mig. Ég er far­in að hugsa bet­ur um mig, ég hugsa um húðina mína og fer í rækt­ina, ég borða holl­ari og nær­ing­ar­rík­ari mat sem ger­ir það að verk­um að and­leg heilsa er tölu­vert mikið betri en hún hef­ur verið fram að þessu.“

Góð næring hjálpar andlegu hliðinni.
Góð næring hjálpar andlegu hliðinni. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fólk kenn­ir auka­kíló­um um hin og þessi vanda­mál. Hverfa þau bara þegar maður létt­ist eða fylg­ir hug­ur­inn ekk­ert endi­lega lík­am­an­um?

„Þau hverfa alls ekki. Það er hell­ings vinna. Ég hef verið að hitta sál­fræðing sam­hliða þessu og það er fyr­ir mig mjög mik­ill þátt­ur af ferl­inu. Ég hef alla tíð bar­ist við kvíða og þung­lyndi af ein­hverj­um toga og skurðlækn­ir­inn tek­ur það ekki með mag­an­um í aðgerðinni. Að vera offitu­sjúk­ling­ur hjálpaði að sjálf­sögðu ekki til og hef­ur litað mig að mjög mörgu leiti og ég hef oft skil­greint mig sem slík­an og er enn að venj­ast því að gera það ekki. Haus­inn fylg­ir líka ekki lík­am­an­um eft­ir að því leit­inu til að ég er enn „feit í hausn­um“ eins og ég kalla það. Ég sé sjálfa mig stund­um enn sem 152 kg og lík­am­inn minn beit­ir sér enn sem slík­ur. Það er mik­il vinna sem fylg­ir því að láta þetta allt tala sam­an. En það er alls ekki bara ofþyngd­in sem hrjáði mig, held­ur alls kon­ar áföll, sjálfs­hat­ur og annað slíkt sem einnig þarf að tak­ast á við, sem ekki er lagað með skurðaðgerð. Svo að sjálfsögðu það að nærast ekki rétt jók alla vanlíðan. Samhliða aðgerðinni hef ég einnig unnið að ljósmyndaverkefni um þetta ferli mitt, sem ég kalla Changes. Ég stefni á að það fari í birtingu í lok desember.“

Að lok­um mæl­ir Olga með því að fólk fái sér nær­ing­ar­fræðing, sama hversu þungt það er. Ef fólk er í mik­illi yf­ir­vi­gt og kýs að fara í aðgerð ráðlegg­ur Olga fólki að ana ekki út í neitt og hafa gott stuðningsnet í kring­um sig. „Að fara í aðgerð er stór ákvörðun sem ekki verður tek­in til baka,“ seg­ir Olga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál