Ívar myndi aldrei sleppa morgunmat

Ívar Guðmundsson einkaþjálfari.
Ívar Guðmundsson einkaþjálfari.

Ívar Guðmundsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, heilsuvöruframleiðandi og einkaþjálfari hefur um árabil verið öflugur talsmaður heilbrigðs lífsstíls og hreyfingar. Hann segir þó meðalhófið í öllu lykilinn að breyttum og bættum lífsstíl – ásamt því að láta sig hafa það í gegnum fyrstu vikuna af strengjum. Í heilsublaði Nettó segir hann frá því hvað skiptir hann mestu máli. 

„Hreyfing er upphaf og endir á mögulegri vellíðan, það er okkur í blóð borið að hreyfa okkur og það sjáum við hjá yngstu börnunum sem vilja alls ekki vera kyrr í eina einustu mínútu. Það sem kemur með hreyfingu er vellíðan bæði fyrir líkama og ekki síður andlegu hliðina,” segir Ívar aðspurður hvers vegna fólk ætti yfir höfuð að drífa sig fram úr sófanum. Hann segir alla hreyfingu í eðli sínu góða. „En tvennt þarf að hafa í huga og það er að finna hreyfingu sem manni finnst skemmtileg, setja sér lítil markmið í hvert skipti og fá hjartað til að slá hraðar og blóðið til að renna betur. Ef þú tekur ekkert á því þá er ávinningur lítill.

Þegar hann er spurður hvort sé mikilvægara, mataræðið eða hreyfingin, vandast málið.

„Erfiðasta spurning sem ég hef fengið! Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur en ef ég ætti að velja að hafa mataræðið 100% og hreyfa mig ekki eða hafa mataræðið í rugli og hreyfa mig mikið þá myndi ég velja það seinna frekar,” segir hann og bætir við að fyrir honum sé hinn fullkomni fæðuhringur samsettur af próteinum, góðum kolvetnum og góðri omega-fitu. Það sé ekkert sem hann borði alls ekki en hafi vissulega hugfast að borða kannski sjaldan það sem hann veit fyrir víst að er ekki mjög gott fyrir hann.

„Ég passa í hverri viku að fá mér kjöt, fisk, hrísgrjón og kartöflur og auðvitað grænmeti og ávexti. Tek þó fram að ég elska súkkulaði og finnst gott að fá mér hvítvín. Ég tel meðalhófið í öllu vera lykilinn að því að breyta lífsstílnum til hins betra.”

Á tímum föstu og annarra heilsubóla hefur hugmyndin um að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins átt undir högg að sækja. Hvar stendur þú í hinu stóra morgunverðarmáli?

„Ég get alla vega ekki sleppt morgunmat og undanfarin fjögur eða fimm ár hef ég borðað nánast sama morgunmatinn sem gefur mér mikla orku inn í daginn, það eru 70 gr. haframjöl, 20 rúsínur og helli ½ súkkulaði-Hámark út á, hræri það upp og læt standa í svona 5 til 7 mínútur og þá er þetta bara mjúkt og bragðgott, færð ekki hollari morgunmat.”

Ekki risastór markmið í fyrsta kasti

Nú þegar margir eru að koma sér aftur almennilega af stað á nýju ári er mikilvægt að hafa ákveðin atriði á hreinu. Ívar segir eitt það mikilvægasta fyrir þá sem eru að fara af stað – jafnvel stíga sín fyrstu skref í líkamsrækt – að byrja bara strax, ekki veltast óþarflega með þetta eða flækja. „Ef þú þarft hjálp skaltu hringja og fá aðstoð. Svo er best að byrja með mörg lítil markmið, ekki fara af stað með risamarkmið um að ætla að missa 20 kíló eða eitthvað svipað, á kannski þremur mánuðum. Fólk þarf svo að hafa það á bak við eyrað að fyrsta vikan í hreyfingu eða styrktarþjálfun getur einfaldlega verið mjög erfið. Maður fær töluvert af strengjum og þá er stóra málið að gefast bara ekki upp,” segir Ívar og undirstrikar það sem hann sagði í upphafi um að sú hreyfing sem við veljum okkur verði að vera skemmtileg og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Sjálfum finnst mér til dæmis allra skemmtilegast að spila fótbolta auk þess sem líflegar styrktaræfingar, þar sem maður vinnur með eigin líkamsþyngd og lóð, koma líka sterkar inn,” segir Ívar sæll að lokum.

Hefðbundinn dagur í lífi Ívars:

Vakna kl. 5.30

Borða 1 banana og tek Pre workout með mér í ræktina og drekk á meðan æfingu stendur. 

8.30 borða ég morgunmatinn sem ég nefndi hér að ofan.

11.00 1 ávöxt, appelsínu eða epli en stundum próteinsúkkulaði.

12.30 hádegismatur sem er yfirleitt mikið af grænmeti, kjúklingi eða fiski og hrísgrjónum.

15.00 1 próteinshake/Hámark.

19.00 kvöldmatur. Við erum oft með kjúkling eða fisk heima og þarna er lykillinn að borða sig ekki pakksaddan.

21.00 kvöldsnarl getur verið smá popp, hrískaka eða vínber.

Drekk svona 2 til 3 lítra af vatni á dag og það skiptir miklu máli, fyrir mig alla vega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál