Við verðum að auka hægðalosun

Guðrún Bergmann hefur hjálpað mörgum að fá betri heilsu en …
Guðrún Bergmann hefur hjálpað mörgum að fá betri heilsu en námskeið hennar eru endalaust vinsæl. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Bergmann segir að við megum ekki rotna að innan og við getum bætt heilsuna mikið með meiri hægðalosun og sykurleysi. Á námskeiðum sínum, Hreint mataræði, nær fólk miklum árangri en hún segir að það sé vegna þess að bólgur minnki í líkamanum þegar fólk hættir að borða ruslmat, tekur inn bætiefni og fastar í 12 tíma á dag. 

-Hvað er að gerast í heilsuheiminum í dag sem þú hefur ekki séð áður?

„Það er náttúrlega alltaf eitthvað nýtt að koma fram. Sumt heldur velli, annað ekki, því nýir kúrar og megrunarráð henta aldrei öllum. Ég hef svo sem ekki rekist á margt nýtt, sem er ekki afbrigði af því sem komið hefur fram áður, hvað alls konar kúra varðar.

Ég fylgist hins vegar mikið með greinaskrifum og les bækur bandarískra lækna sem eru framarlega í því sem kallast heildrænar lækningar. Þeir fjalla mikið nú um skaðsemi glútens á líkamans, svo og candida-sveppasýkingar. Ég þekki auðvitað vel til candida-sveppasýkingar, enda greind með hana árið 1985 og fór upp frá því að vinna með Hallgrími heitnum Magnússyni lækni að því að fræða fólk um hvað hægt væri að gera til að vinna bug á henni. Saman skrifuðum við svo bókina Candida sveppasýking sem kom fyrst úr árið 1993 og var endurprentuð nokkrum sinnum eftir það, síðast í endurnýjaðri útgáfu árið 2011.

Árið 2010 var ég svo greind með glútenóþol og í framhaldi af því las ég og lærði allt sem ég gat um það. Þeirri þekkingu hef ég svo deilt í gegnum bækur mínar og námskeið frá 2015.

Það sem mér finnst einna athyglisverðast núna er umfjöllun bandaríska taugasérfræðingsins dr. David Perlmutter um Alzheimers og þá staðhæfingu hans að við getum komið í veg fyrir sjúkdóminn og jafnvel læknað okkur af honum með lífsstíl okkar, ef hann er ekki mjög langt genginn. Þar leggur hann meðal annars áherslu á að bæta þurfi meltinguna og þétta leka þarma, en þarmaveggirnir verða yfirleitt lekir ef um candida- eða glútenóþol er að ræða. Með lífsstíl er hann að tala um mataræði, bætiefni, hreyfingu og svefn – og svo það sem hann kallar meðvitund t.d. gagnvart alls konar mengun úr umhverfinu.

Þetta finnst mér áhugavert, því í dag eru helmingi fleiri konur sem greinast með Alzheimer‘s en karlar. Nýlegar rannsóknir benda líka til þess að konur sem hætta tiltölulega ungar á blæðingum séu í meiri áhættu. Tengist það meðal annars minni hormónaframleiðslu, sem þá leiðir til færri boðefna til heila.

Dr. Perlmutter er reyndar ákafur talsmaður ketó-mataræðis, en það hentar mér engan veginn, því ég er í A-blóðflokki og þoli ekki alla þessa fitu. Get til dæmis ekki borðað avókadó, sem svo margir elska,“ segir Guðrún. 

Guðrún er búin að prófa nánast allt þegar kemur að því að bæta heilsuna. Aðspurð hvað hafi reynst henni best nefnir hún sykurlaust fæði. 

„Það er einfalt að svara því. Mataræði án sykurs, mjólkurafurða og glútens, bætiefni, góður svefn og hreyfing. Regla í lífinu er líka góð, en þar klikka ég aðeins, því ég ferðast mikið. Ég legg mig samt fram um að halda alltaf reglu á bætiefnainntöku og að velja mataræði sem byggir upp heilsu mína, frekar en brjóta hana niður, en á löngum ferðalögum geta svefnmálin aðeins ruglast. Annars er stefnan að ná helst 2 klukkustundum af svefni fyrir miðnætti og vakna þá frekar fyrr á morgnana,“ segir hún. 

Guðrún er hrifin af magnesíum og talar mikið um það á námskeiðum sínum. En hvers vegna er það svona gott fyrir okkur? 

„Já, það er eitt af þeim bætiefnum sem ég ráðlegg fólki að taka, byggt bæði á ráðleggingum frá Hallgrími heitnum og ráðum dr. Carolyn Dean. Hún er bandarískur læknir og náttúrulæknir og ein af þeim sem hafa rannsakað hvað mest áhrif magnesíums á líkamann. Dr. Dean hvetur fólk til að taka magnesíum daglega og talaði í nýlegum fyrirlestri sem ég hlustaði á með henni að það hafi áhrif á um 700 boðskiptaferla í líkamanum.

Dr. Dean bendir líka á að magnesíum sé slakandi efni og því losum við það úr líkamanum þegar við erum undir álagi. Og hver er ekki undir álagi í dag? Bara streitan losar um það, en einnig mikil kaffidrykkja, sem oft fylgir streituástandi. Þess vegna er svo mikilvægt að taka það alltaf inn, til að viðhalda birgðum þess bæði í blóði, en ekki síður í frumum og hjarta, en í hjartanu segir hún að mestar birgðir þessi eigi að vera.

Svo hefur það losandi áhrif á hægðir og stuðlar þannig að hreinni ristli og þörmum,“ segir Guðrún. 

-Fólk sem fer á námskeið til þín öðlast nýtt líf, hvers vegna gerist það?

„Margir þátttakendur tala um að þeir hafi öðlast nýtt líf, vegna þess að þeir losna við króníska höfuðverki, bakflæði, bólgur og bjúg, meltingin batnar og hægðirnar skila sér reglulega nokkrum sinnum á dag.

Það gerist fyrst og fremst vegna þess að hreinsikúrinn virkar þannig að teknar eru út allar fæðutegundir sem geta verið að valda bólgum, ofnæmi eða ertingu í líkamanum, en það má samt fullt borða, bara af ráðlögðum mat. Þetta með bólgurnar er mikilvægt, því út frá bólgum myndast oft alvarlegri sjúkdómar.

Neyslumynstur breytist, líkaminn fær 12 tíma hvíld frá mat og þegar hreinsun fer að virka fer fólki að líða betur, margir léttast heilmikið og svo líður fólki andlega betur þegar  þarmaflóran batnar, því hún hefur svo mikil áhrif á geðheilsu okkar. Einn sem er á námskeiði hjá mér núna sendi mér vísu í gær þar sem hann lýsti gleði sinni með að vera farinn að léttast og líða betur andlega og líkamlega.

Svo hafa svona einföld ráð, fyrir þá sem eru með exem og bólgur í höndum, eins og að bera Castor Oil frá NOW á hendurnar og sofa með bómullarhanska, skilað undraverðum árangri. Breyttur lífsstíll skilar yfirleitt betri líðan og því finnst fólki það hafa öðlast nýtt líf.“

-Eru lífshættir Íslendinga svona ógurlega slæmir?

„Ég vil nú ekki endilega segja það, heldur hitt að við gleymum að taka reglulega til innandyra í líkama okkar. Þegar fólk er með meltingarvandamál og hægðatregðu og hefur kannski ekki hægðir nema með nokkurra daga millibili eða þá einu sinni í viku, er það að safna upp S-K-Í-T í ristli og þörmum – því úrgangurinn á enga útleið nema í gegnum endaþarminn.

Við sem þjóð toppum reyndar lista yfir alla helstu óhollustu sem hægt er að neyta og trónum hátt yfir öðrum í gosdrykkja- og sykurneyslu. Hvorttveggja hefur niðurbrjótandi áhrif á heilsu okkar. Við tökum kannski ekki eftir því utan á okkur, en veikindi og vandamál hefjast að innan og koma svo út. Hallgrímur heitinn Magnússon læknir var oft ansi beinskeyttur og sagði einfaldlega: „Við rotnum innanfrá og út!“

Þess vegna þurfum við að mínu mati að passa upp á ástand meltingavegarins, því þarmarnir eru í raun ónæmiskerfi okkar. Með því að losa uppsafnaðan úrgang úr líkamanum, dregur úr líkum á að hann verði eitraður, en eitrun getur leitt til skemmda á líffærum og hættulegra sjúkdóma.“

-Er eitthvað eitt sem fólk gæti gert til að bæta heilsu sína mikið?

„Já, tvímælalaust. Ég myndi reyndar vilja segja tvennt. Bæta mataræðið og auka hægðalosun. Í kínverskum læknisfræðum, sem ég hef stúderað nokkuð mikið, er talað um að meltingavegurinn sé eins og rör. Það er bara ákveðið langt og því ætti eitthvað að fara út um leið og annað kemur inn. Mér finnst það skynsamleg ályktun.“

Það er ekki hægt að tala við Guðrúnu nema spyrja hana út í ketó-bylgjuna sem ríður yfir landið. Hún segir að öll fitan í ketó-fæðinu henti henni sjálfri engan veginn en hún sé hinsvegar góð fyrir þá sem eru í O-blóðflokki. 

„Ég held ég hafi svarað þessu hér að framan hvað mig sjálfa varðar, þ.e. fitan í ketó-mataræðinu hentar mér engan veginn. Það er nefnilega þannig að ég skoða alltaf blóðflokkana og áhrif mataræðis á blóðið, þegar ég skoða nýjar stefnur í mataræði. Ég þýddi á sínum tíma þrjár bækur sem fjölluðu um blóðflokkamataræðið, í samstarfi við Sveinbjörgu Eyvindsdóttur hjúkrunarfræðing.

Þar fékk ég í fyrsta sinn skýringu á því af hverju ákveðnar fæðutegundir hentuðu mér alls ekki. Síðan þá hef ég alltaf haft blóðflokkamataræðið til hliðsjónar, sama hvaða kúra eða hreinsanir ég er að skoða og geri það líka í dag. Leiðbeini reyndar þeim sem koma á námskeiðin mín með það líka.

Ketó-mataræðið er fínt fyrir þá sem eru í O-blóðflokki, sem eru um helmingur þjóðarinnar. Þeir geta grennst á því. Bandaríski náttúrulæknirinn Peter D‘Adamo, sem skrifað bækurnar um blóðflokkamataræðið í kjölfar rannsókna sinna, segir reyndar að enginn ætti að borða svínakjöt, en beikon er ofarlega á lista í ketó. Í þeim matreiðslubókum um ketó sem ég hef gluggað í er líka mikið um lax. Eftir því sem ég best veit er mestallur eldislax alinn á fóðurblöndu sem inniheldur mikið af maís og því forðast ég hann, þar sem maís er almennt mikill bólguvaldur.

Við erum nefnilega það sem við borðum, borðar, svo langsótt sem það kann sumum að virðast.“

Nú eru bætiefni umdeild. Það heyrist alltaf í þeim sem segja að þau virki ekki og fólk eigi bara að fá öll næringarefnin úr matnum. Hvað finnst þér um það?

„Já, það eru alltaf einhverjir sem eru með þessar staðhæfingar. Staðreyndin er hins vegar sú að allt frá árinu 1960 hefur eiturefna- og áburðarnotkun við matvælaframleiðslu í heiminum bara margfaldast. Það hefur leitt til þess að jarðvegurinn hefur rýrnað að gæðum, auk þess sem hann er mengaður af öllum þessum eiturefnum, sem í gegnum fæðuna skaða heilsu okkar. Lífrænt ræktað er því best fyrir líkamann.

Til frekari skýringar á næringu í mat má vísa hér í dr. August Dunning, sem er aðalvísindamaður og meðeigandi í Eco Organics. Hann segir að til að fá sama magn af járni og fékkst úr einu epli árið 1950, þurftir þú árið 1998 (20 ár síðan) að borða 26 epli. Eplin eru ekki bara rýrari af næringu í dag en þau voru, heldur líka bragðminni. Það er vegna þess að jarðvegurinn er rýrari af steinefnum. Steinefnin búa nefnilega til efnasamböndin sem gefa ávöxtum og grænmeti bragð sitt. Ef þetta á við um epli, á það væntanlega líka við um alla aðra fæðu og ef steinefni eru ekki næg í fæðunni, þurfum við að bæta okkur það upp með bætiefnainntöku.

Ég lít því á bætiefni sem akkúrat það sem felst í orðinu. Efni sem bæta okkur upp það sem við ekki fáum úr fæðunni. Í mínu tilviki get ég þakkað bæði breyttu mataræði og reglulegri bætiefnainntöku fyrir að heilsa mín er jafn góð og hún er í dag, því í janúar 2010 stóð ég ansi nærri dauðans dyrum. Ónæmiskerfi mitt var nánast óvirkt og heilsuna mátti mæla á milli 0-1 á skalanum 0-10, þar sem 10 telst best. Í dag mæli ég hana á sama skala svona 8,5-9.“

-Föstur hafa líka notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Ertu hrifin af þeim?

„Ég prófaði föstur hér áður fyrr og fastaði lengst í 14 daga á vatni. Þá voru hvorki í boði sömu leiðir, né sú þekking sem nú er, til að hreinsa líkamann og byggja hann samhliða því upp með bætiefnum og fæðu. Ég hallast því ekki að föstum í dag, þar sem ég tel að hreinsikúrinn sem ég leiðbeini fólki í gegnum á HREINT MATARÆÐI námskeiðum sé mun áhrifaríkari.

Á tæpum fjórum árum er ég búin að halda fimmtíu stuðningsnámskeið, eitthvað sem mig hefði aldrei órað fyrir þegar ég byrjaði með þau. Þá var ég bara að hugsa um að hvetja fólk til að prófa þennan hreinsikúr, sem ég var sjálf búin að fara í gegnum, því hann hafði svo góð áhrif á mig. Svo hefur þetta smátt og smátt undið upp á sig, árangur skilað sér og ánægðir þátttakendur sagt öðrum frá.

Flest námskeiðin hef ég haldið í Reykjavík, en líka í Keflavík, á Grundarfirði, Egilsstöðum og Akureyri. Um 1.450 manns hafa lokið námskeiðum hjá mér og rúmlega 30 eru skráðir á næstu námskeið sem verða í Reykjavík 19. febrúar og á Egilsstöðum 20. febrúar. Lífið heldur því bara áfram að vera HREINNA hjá mér, sem er frábært, því þannig vil ég hafa það,“ segir Guðrún sem horfir bjartsýn fram á veginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál