Langar þig til að húðin sé alveg glóandi?

mbl.is/Thinkstockphotos

Lára Sigurðardóttir, læknir hjá Húðinni skin clinic, segir að það sé ýmislegt sem við getum gert til að vernda húðina og líta betur út: 

Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður Arna Sigurðardóttir .
Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður Arna Sigurðardóttir .

Sagt er að fegurðin komi að innan en það er ekki verra að skarta fallegu hörundi. Það mæðir oft mikið á húðinni sem eldist því oft hraðar en önnur líffæri – sérstaklega ef við höfum reykt eða verið mikið í sól. Það sem við teljum stundum eðlilega öldrun er oft ekkert annað en afrakstur sólbaða. Til að sjá hversu mikið húðin hefur elst af völdum útfjólublárra geisla geturðu borið saman húð sem sól skín sjaldan á (t.d. handarkrika) og oft (t.d. handarbak). Manneskjan sem við sjáum í speglinum lítur því stundum út fyrir að vera eldri en okkur líður.

Auk þess fæðumst við öll með mismunandi húð. Sumir njóta þess að hún helst slétt og fín út ævina en aðrir fá snemma öldrunareinkenni. Það er þó alkunna að því fyrr sem við byrjum að hugsa vel um húðina því betur eldist hún og helst heilbrigðari. Líkt og það gerir lítið gagn að mæta einu sinni í ræktina til að komast í betra form þá er árangursríkast að hugsa jafnt og þétt um húðina. Hér fylgja nokkur atriði sem skipta máli þegar hugsað er vel um húðina.

Öldrun fyrirbyggð

Það besta sem þú getur gert fyrir húðina er að fyrirbyggja ótímabæra öldrun. Það er alltaf árangursríkara að halda heilu við en brotnu. Þá erum við að tala um atriði eins og að vera tóbakslaus því tóbak dregur úr blóðflæði til húðarinnar og minnkar súrefnisupptöku en súrefni er nauðsynlegt fyrir frumurnar okkar til að endurnýja sig. Auk þess eldist húðin hægar hjá þeim sem nota reglulega sólarvarnir, líka á veturna. Þá er einnig mikilvægt að passa upp á húðina ef verið er í kulda og þá er gott að bera á sig feitt krem.

Við þurfum meiri raka með aldrinum

Húðin tapar fitukirtlum með aldrinum og verður þurrari. Síðan er loftið oft og tíðum þurrt á Íslandi sem endurspeglast í þurri og sprunginni húð. Best er að sleppa því að nota sápu á líkamann og nota fasta sápu fyrir hendur. Fljótandi sápa inniheldur oft ertandi efni sem þurrka húðina. Einnig geta tíð og heit böð þurrkað húðina. Þá er gott að velja snyrtivörur og hreinsikrem án alkóhóls og sápu – oft nægir að nota t.d. apríkósu- eða kókosolíu og volgt vatn til að þrífa farða af húðinni. Við getum verið ginnkeypt fyrir alls konar fokdýrum kremum sem gefa loforð um eilífa æsku á meðan ódýrari krem gera sama gagn. Aðalatriðið er að velja krem sem hentar okkar húð og á veturna getum við þurft feitari krem. Ef þú ert með þurra húð hjálpar oft að taka inn kollagen (við mælum með úr sjávarríkinu) með hýalúrónik-sýru og ómega-3-fiskiolíu en það getur tekið allt að tvo mánuði að sjá áhrif. Og ekki gleyma að drekka nóg vatn og hafa í huga að kaffi og áfengi eru vatnslosandi.

Æfum líka andlitsvöðvana

Ef vöðvarnir í andlitinu eru farnir að slappast þá sígur húðin með því hún tengist vöðvunum með bandvefsþráðum. Auk þess hrörna andlitsbeinin og andlitsfitan minnkar með aldrinum þannig að með því að stækka andlitsvöðvana færðu meiri fyllingu í andlitið. Það er hægt að nálgast æfingar á netinu þar sem maður gerir æfingar án þess að gretta sig mikið.

Einfalt trix til að líta betur út er að hugsa um fjóra punkta í miðlínu: draga saman grindarbotninn, setja naflann inn, lyfta bringunni upp og þrýsta tungunni upp í efri góm. Gerðu æfinguna fyrir framan spegilinn og sjáðu muninn! Þá fær maður þessa fallega stöðu að maður lítur strax betur út.

Nærast en ekki níðast

Húðin endurnýjar sig á um 28 dögum og þarf til þess ákveðin næringarefni. Skortur á þessum næringarefnum getur valdið húðvandamálum eins og þurrki og exemi. Húðin þarf sérstaklega amínósýrur til að búa til prótín eins og kollagen, ýmis vítamín (C-, E-, A-, B2- og B6-vítamín), steinefni (selen og sink) og ómega-fitusýrur til að framleiða heilbrigðar frumur en næringarefnin eru alltaf best þegar þau koma beint úr náttúrunni. Auk þess getur ójafnvægi í meltingunni skilað sér í húðina því stór hluti ónæmiskerfisins er í görninni. Ef görnin er í uppnámi getur ónæmiskerfið valdið því að bólgueinkenni eins og bólur og bólgusjúkdómar koma fram í húðinni.

Fæðubótarefni sem oft er mælt með fyrir húðina

Kollagen. Húðin er gerð úr þremur lögum og er meginuppistaða miðlags húðarinnar gert úr kollageni, sem tapast með hverju árinu eftir 25 ára aldur. Þegar við tökum inn kollagen sjáum við til þess að húðin fái allar þær amínósýrur sem hún þarf til að framleiða kollagen og elastín.

Ómega-3-fitusýrur úr sjávarríkinu eru mikilvægar fyrir frumuhimnur og geta gert kraftaverk ef húðin er mjög þurr. Ef þú ert á blóðþynningu skaltu ávallt ráðfæra þig við lækni áður en þú byrjar að taka inn ómega-3-fitusýrur því þær þynna blóðið.

Góðir gerlar með að minnsta kosti 13 tegundum geta hjálpað ef þú ert með óþægindi við meltingu. Síðustu árin hefur komið betur í ljós hve þarmaflóran gegnir mikilvægu hlutverki í ýmsum kvillum. Þarmaflóran er nátengd ónæmiskerfinu og getur bólga í þörmunum endurspeglast í húðvandamálum.

Að slaka á og sofa vel

Sýnt hefur verið fram á að streita getur hraðað öldrun húðarinnar, minnkað þykkt ysta lags hennar og magn bandvefsfrumna sem framleiða kollagen, ásamt því að auka bólgumyndun. Þegar við sleppum væntingum (eigin og þeim sem við teljum aðrir geri til okkar) og erum góð við okkur sjálf líkt og okkar besta vin verður tilveran aðeins þægilegri. Hugleiðsla getur einnig gert kraftaverk og eru snjallforrit eins og Headspace og Calm vinsæl auk þess sem hægt er að sækja ýmis námskeið.

Streita og svefn haldast oft í hendur og þegar við náum tökum á streitunni og róum hugann förum við oft að sofa betur. Svefn er mikilvægur fyrir húðina eins og önnur líffæri. Svefnskortur getur flýtt fyrir öldrunareinkennum eins og fínum línum og litabreytingum í húð og minnkað teygjanleika húðarinnar. Við vitum að djúpsvefninn er mikilvægur fyrir framleiðslu vaxtarhormóna sem hjálpar okkur að endurnýja líffærin, þar á meðal húðina.

Besta yngingarlyfið

Ef það væri til ein pilla sem hægði á öldrun, verndaði okkur gegn ótal sjúkdómum og léti okkur líða eins og við hefðum heiminn í höndum okkar, þá væri sú pilla samsett úr öllu því sem hreyfing gerir fyrir okkur. Svo er maður sjaldan jafn hraustlegur á að líta og eftir góða útiveru. Manni líður ekki einungis unglega þegar maður er í góðu formi heldur hefur hreyfing víðtæk yngingaráhrif á líkamann. Mundu bara að verja húðina fyrir miklum kulda og sól.

Yngingarmeðferðir

Ýmsar meðferðir hjálpa þér að byggja upp húðina og þær meðferðir sem hafa reynst árangursríkastar til að styrkja húðina og gera hana unglegri eru leysilyfting (andlitslyfting án skurðaðgerðar) og dermapen (microneedling) sem bæði styrkja og auka teygjanleika húðarinnar með því að auka elastín og kollagen í húðinni. Restylane-fylliefni eru frábær til að fylla upp í andlitslínur og meðferðin sjálf hefur einnig reynst auka kollagen í húðinni. Því verða línurnar sjaldnast jafndjúpar þegar efnið hefur minnkað eftir eitt til tvö ár. Einnig er hægt að beita fleiri meðferðum til að minnka eða fjarlægja öldrunareinkenni eins og háræðaslit og sólarskemmdir.

Það er því margt hægt að gera til að sjá til þess að húðin endist okkur vel út ævina en mikilvægast að muna að hin sanna fegurð kemur að innan og við verðum alltaf smá sætari þegar glittir í bros.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál