Var orðin 100 kg og er nú á keto

María Krista Hreiðarsdóttir árið 2004, 2008 og 2018.
María Krista Hreiðarsdóttir árið 2004, 2008 og 2018.

María Krista Hreiðarsdóttir eigandi Systur og maka breytti heilsu sinni mikið fyrir meira en áratug. Hún fór ítarlega yfir hvernig hún fór að því inni á heimasíðu sinni á dögunum. 

„Þegar yngsti sonurinn, nú 15 ára, var 1 árs þá náði ég ákveðnum botni líkamlega séð. Ég var orðin rúm 100 kg, hreyfði mig ekkert, át brauð og kleinuhringi í morgunmat og fannst epli og grænmeti ekki teljast til matvæla. Ég keypti föt í sífellt stærri fatastærðum og taldi mér trú um að stærðirnar í búðunum væru að minnka, það var ekki séns að ég sjálf væri að stækka,“ segir María Krista. 

„Eitt kvöldið festist ég illa í mjöðm og kalla þurfti á aðstoð sjúkrabíls til að koma mér til læknis og þarna var botninum náð. Ég býsnaðist yfir því að vesalings sjúkraflutningamennirnir þyrftu að bera mig út í bíl og skammaðist mín alveg ofan í tær. Nú skyldi ég breyta um lífstíl og það strax hugsaði ég. Ég fór á minn fyrsta fund hjá Danska kúrnum og við tóku 7 mánuðir sem ég tók með trompi og létti mig um 26 kg. Í kjölfarið á þessari breytingu tóku við nokkur ár af ýmsum tilraunum,“ segir hún. 

Meistari í megrun!

„Danski kúrinn hentaði mér nokkuð vel, ég fann leiðir til að koma í mig miklu magni af grænmeti og útbjó mér t.d. tómatsúpu sem átti eftir að ganga um á netinu, kölluð Danska-kúrs súpan. „Danski“ er kannski ekki nákvæmlega eins uppsettur og lágkolvetna mataræðið en þó byggður upp á að taka út sykur, auka grænmeti og halda mjólkurvörum og brauðmeti í lágmarki. Einföld formúla sem getur svínvirkað og virkaði á langflesta sem prófuðu. Við vigtuðum okkur svo fyrir framan ráðgjafana og fengum umbun ef vel gekk. Var ég þarna þá ekki bara fullkomlega sátt og komin á réttan stað með stjórn á þessu öllu? Nei ekki alveg.“

María Krista segir að í kjölfar þessa fyrsta átaks hafi hún létt sig mjög mikið og æft fimm til átta sinnum í viku. Bætt á sig vöðvum, tapað vöðvum, slakað á í mataræðinu, bætt á sig þyngd aftur og þar fram eftir götunum. 

„Fyrsta mynd sýnir mig allt of þunga með þrútin augu og óhamingjusama í eigin skinni. Þarna var ég orðin 33 ára gömul þriggja barna móðir með einn ársgamlan gaur á kantinum og leið eins og ég væri að detta í sextugt.“

„Hér er ég eftir 7 mánuði á „Danska kúrnum“ eða átak með Íslensku vigtarráðgjöfunum. Veit ekki alveg með tískuvitið þarna á þessum tíma en í gallabuxur komst ég enda 26 kg sem fuku af kellunni.“

„Hér er mynd frá því tímabili sem ég æfði mjög mikið og var enn að borða sykur þá tók ég feita „nammidaga eða frekar nammihelgar“ og át á mig gat til miðnættis á sunnudagskvöldi með tilheyrandi hausverk og móral næstu daga. Ég æfði svo 5-8 x í viku og leið hreint út sagt ekki nógu vel þrátt fyrir að vera ægilega mjó. Ég náði ekki einu sinni að bæta á mig þegar ég fór allt of langt niður á vigtinni og það er heldur ekki góð tilfinning,“ segir María Krista. 

„Hér er svo mynd af mér að kynna lágkolvetnarétt fyrir Culiacan en ég tók þátt í að setja saman matseðil sem hentaði þessu nýtilkomna mataræði á þeim árum. Ég var nokkuð sátt þarna með mig en einhverjum fannst ég heldur mögur. Ég hélt mér alltaf í ketósu á þessum tíma og æfði mjög mikið,“ segir hún. 

„Hér er svo mynd sem tekin er í október í fyrra. Hér er ég að verða 45 ára, nýorðin amma, sykurlaus og í góðu jafnvægi. Ég get fullyrt að mér líður best þegar ég fer eftir lágkolvetna mataræðinu og æfi temmilega oft í viku. Warm fit og yoga hentar mér stórkostlega og svo stefni ég á að hlaupa mikið á eftir barnabarninu næstu árin. Nú hef ég ákveðið að taka áfengi út eins lengi og ég vil, engin pressa, ekkert vandamál heldur bara mín ákvörðun að sleppa því að fá mér í glas og sjá hvort mér líði ekki bara alveg jafn vel ef ekki betur án þess,“ segir hún. 

„Ó já ég hef prófað allt heila klabbið, sítrónukúrinn, Herbalife og fylgt flestum tískusveiflum þegar kemur að „megrun“ en síðustu 6 árin með stuttum hléum hefur lágkolvetna mataræðið átt hug minn og haldið mér hvað lengst við efnið. Það er nefninlega ekki eins og ketogeniskt mataræði sé flunkunýtt af nálinni en eflaust kannast sumir við Atkins-kúrinn sem „ALLIR“ prófuðu, Landspítalakúrinn sem einhverjir lögðu í og fleira sem svipar til LKL. 

Hvað er samt í raun vandamálið?

Ef ég tek saman allar þær aðferðir og leiðir sem ég hef reynt á sjálfri mér til dagsins í dag þá allra mikilvægast að taka út sykurinn, enda hljómar það mjög rökrétt í dag. Sykur er jú óhollur það vita allir ekki satt? Það er samt svo ótrúlegt hvað enn þann dag í dag er verið að troða sykri í margar vörur og meira að segja matvöru sem er merkt „heilsuvara“. Hún er fituminni, full af aukaefnum og viðbættum sykri og er í raun óhollari kostur og já sorry bara algjört drasl.

Skammtastærðir hafa líka stækkað og nammiát barnanna okkar er úr öllu hófi því miður. En örvæntum ekki, það er ljós í myrkrinu og það er aðeins farið að hlusta á hvað markaðurinn vill hvort sem það er meira úrval í hreinu fæði, veganfæði eða sykurlausum og kolvetnasnauðum vörum því jú auðvitað fylgja framleiðendur því sem er IN og neytendur njóta góðs af tískusveiflunnni.“

María Krista segir að fólk þurfi að taka sjálfstæða ákvörðun þegar það ákveður mataræði sitt. 

„Hvort sem þú velur að borða 2-5 léttar fitusnauðar og hollar máltíðir á dag skv. landlækni, ferð eftir Danska kúrnum, ert á Herbalife eða borðar nákvæmlega það sem þú vilt þá þarftu að ákveða þetta sjálfur og fyrir þig sem einstakling. Hverjar svo sem ástæður þínar eru fyrir að breyta mataræðinu eða aðhyllast nýtt mataræði þá þurfa þær að vera á þínum forsendum.

Ekki elta náungann á næsta borði í vinnunni sem er jafnvel að berjast við áunna sykursýki og er allt of þungur eða Gunnu frænku sem er með háþrýsting og glúteinóþol. Ef þú vilt nota þessa aðferð til að leysa einhver vandamál í kroppnum þínum, losna við sykurlöngun, bólgur í liðum, minnka verki sem fylgja vefjagigt, lækka háan blóðsykur eða til þess eins að hætta að borða hveiti og glúten þá er heilmikið hægt að nýta sér úr lágkolvetnafræðunum. Lágkolvetna mataræði gæti samt líka alls EKKI hentað þér, ekki frekar en það hentar sumum illa að borða of mikið grænmeti og aðrir melta illa fræ og kolvetni af orsökum eins og t.d. sáraristilbólgu svo eitthvað sé nefnt.“

María Krista er hrifin af ketó mataræði. 

„KETO mataræðið er á toppnum um þessar mundir og eins og með svo margt þá geta skoðanir fólks verið mismunandi og háværar raddir lækna og næringarfræðinga fara að berast meðal landans með tilheyrandi orðaskiptum á vefnum og á kaffistofunni. Sumir halda að KETÓ snúist eingöngu um að troða í sig beikoni og smjöri en það er ekki alveg svo einfalt og munum að það er enginn að neyða neinn til að fara eftir einu eða neinu. Það er algjörlega á valdi hvers og eins hvort hann elti nýjasta hæpið. Ég hef farið eftir þessum fræðum, keto/lágkolvetna með stuttum hléum síðan 2013 og mér hefur aldrei tekist eins vel að stjórna líkamsþyngd minni og sykurlöngun. Það er ástæða MÍN fyrir að halda mér sykurlausri og ég tek einnig út allt glútein því mér líður betur án þess.“

Er LKL/ketó gott fyrir okkur?

„Það er fjöldi vísindarannsókna sem bendir til þess að lágkolvetnamataræði hafi ýmis jákvæð heilsusamleg áhrif eins og t.d. lækkun á blóðþrýstingi og blóðsykri. Insúlínmótstaða minnkar og insúlínmagn í blóði lækkar. CRP – C-reactive prótein lækkar en þetta prótein hækkar þegar bólgur eru til staðar í líkamanum og er efnið mjög sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.
Góða kólestrólið hækkar en það kallast HDL, en það er öfugt samband á milli magns HDL-kólestróls í blóði og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Sem sagt því hærra sem HDL-magnið er því betra.

En aftur, ef þið eruð í fullkomnu jafnvægi í mataræðinu sem þið eruð á nú þegar og þjáist ekki af neinum lífstílssjúkdómum sem tengja má við mataræðið þá er algjör óþarfi að fara á ketó.

Ég hef á undanförnum mánuðum fengið endalaust margar spurningar. Hér ætla ég að svara þeim eftir bestu getu.“

Hver er munurinn á lágkolvetna mataræði og ketó?

„Þegar ég kynntist lágkolvetna mataræðinu árið 2013 þá var þetta hugtak keto ekki mikið notað. Ketogeniskt ástand kallast það ástand líkamans sem myndast þegar kolvetna er neytt í algeru lágmarki eða undir 20 g af kolvetnum á dag og líkaminn fer að breyta um orkugjafa, s.s. í stað þess að ganga á glúkósa sem finnst í kolvetnum þá svissum við yfir í brennslu á eigin fituforða.

Lágkolvetna mataræði er hins vegar sama mataræðið en með talsvert hærra kolvetnamiðviði eða alveg frá 20-100 g af kolvetnum á dag. Það er því pínu flækjufótur að tala um tvenns konar mataræði því í raun er þetta sama formúla og mataræði en með takmörkun á magni og tegundum ef fólk vill halda sig undir 20 g af kolvetnum á dag.“

HÉR er hægt að lesa færslunar í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál