Árangurinn afrakstur þrotlausrar vinnu

Skúli Bragi Magnússon hugsar vel um mataræðið og mætir í …
Skúli Bragi Magnússon hugsar vel um mataræðið og mætir í ræktina fjórum til fimm sinnum í viku. Ljósmynd/Aðsend

Skúli Bragi Magnússon er 26 ára Akureyringur sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína sem dagskrárgerðarmaður á sjónvarpstöðinni N4. Skúli Bragi öðlaðist mikið sjálfstraust þegar hann byrjaði að grennast fyrir um tíu árum en 16 ára var hann orðinn 135 kíló. „Á þessari leið tókst mér að sigrast á hindrunum sem mér þóttu áður óyfirstíganlegar. Við það fær maður trú á að maður sé tilbúinn til þess að yfirstíga næstu hindranir á lífsleiðinni,“ segir Skúli Bragi í viðtali við Smartland.

Í dag er hreyfing órjúfanlegur hluti af lífi Skúla Braga. „Þrátt fyrir að dagurinn sé oft þéttur, mikið að gera og erfitt að halda rútínu þá legg ég mikla áherslu á að finna mér tíma til þess að komast í ræktina og taka lyftingaæfingu fjórum til fimm sinnum í viku. Þá reyni ég að keyra púlsinn upp og halda háu tempói út í gegnum alla æfinguna til þess að fá brennsluna með. Mér finnst nefnilega ekkert sérstaklega skemmtilegt að hanga löngum stundum á brennslutækjunum. Í staðinn tek ég lyftingaræfingar með minni þyngdir, styttri hvíld inn á milli og mikilli keyrslu til þess að ná að svitna vel,“ segir Skúli Bragi. 

Rétt mataræði lykillinn

Skúli Bragi segir mataræðið skipta öllu máli. Hann getur sagt það þar sem hann þekkir það af eigin raun hvernig er að vera á lélegu mataræði. 

„Ég var búinn að prófa alls konar kúra sem virkuðu annaðhvort ekki neitt eða gáfu skammvinnan árangur sem var fljótur að hverfa aftur. Þegar ég var 16 ára gamall var ég orðinn rúmlega 135 kíló og kominn á blóðþrýstingslækkandi lyf. Mér leið illa bæði andlega og líkamlega. Það var þá sem að ég hætti að leita að nýjum megrunarkúrum og fór í staðinn að einbeita mér að því að breyta um lífsstíl.

Í staðinn fyrir að fjarlægja allt óhollt á einu bretti og fara í enn eitt allsherjarnammibindindið þá byrjaði ég frekar hægt. Maður þarf jú að borða allan ársins hring og því valdi ég að finna mér það mataræði sem myndi virka ekki bara í skamman tíma heldur fyrir alla daga ársins. Ég setti mér langtímamarkmið um að breyta mataræðinu. Ég byrjaði á að taka út eitthvað eitt óhollt og þegar löngunin í þann hlut var horfin þá tók ég út næsta. Þannig hægt og rólega vandi ég mig á að borða frekar hollan mat en óhollan. Ég fór að lesa innihaldslýsingar og taka meðvitaðri ákvarðanir um það sem að ég lét ofan í mig. Ég hugsa um að fá réttu næringarefnin úr fæðunni, að borða fjölbreytt og sem mest án óþarfa aukaefna. Ég fór að hlusta betur á líkamann og hvernig hann brást við því sem ég borðaði. Á endanum fann ég hvaða mataræði hentar mér og mér hefur aldrei liðið betur.“

Finnur þú mun á andlegri líðan þegar þú ert duglegur að hugsa um líkamlega heilsu? 

„Fyrir mér skiptir lífsstíllinn mestu máli fyrir andlega heilsu. Áður en ég breytti um lífsstíl var ég mjög feiminn og með mjög takmarkað sjálfstraust. Það breytti lífi mínu að byrja að setja mér markmið og vinna markvisst að því að ná þeim. Allt byrjaði það með reglulegri hreyfingu og breytingu á mataræði.

Skrefin áfram voru lítil fyrst um sinn en þau voru samt í rétta átt þannig að ég sá smám saman að þessi nýja leið var að bera árangur. Það efldi mig áfram að sjá árangur erfiðisins og ég fór að setja mér ný markmið þegar gömlum var náð. Sem dæmi langaði mig til þess að geta skokkað Skógarlundshringinn á Akureyri án þess að stoppa til þess að hvíla mig, það var stóra markmiðið. En á leiðinni setti ég mér minni markmið um að ná að skokka einum ljósastaur lengra næst og svo framvegis. Á endanum tókst það og ég gleymi aldrei vellíðunartilfinningunni þegar það tókst. Sjálfstraustið rauk upp og mér fannst ég allt í einu fær í flestan sjó. Þegar ég fer út að hlaupa í dag þá tek ég alltaf þennan hring með til þess að minna mig á að árangurinn er ekki sjálfsagður heldur afrakstur þrotlausrar vinnu og eljusemi.“

Skúli Bragi starfar sem dagskrárgerðarmaður á N4.
Skúli Bragi starfar sem dagskrárgerðarmaður á N4. Ljósmynd/Aðsend

Var orðinn helst til grannur og rýr

Skúli Bragi hefur tvisvar keppt á Íslandsmeistaramótinu í fitness. Hann segir æfingarnar í kringum slík mót vera töluvert frábrugðnar hefðbundnum æfingum. 

„Í bæði skiptin hef ég verið með einkaþjálfara, aukið við mig æfingarnar og farið á stíft mataræði. En fyrir mér er það líka öðruvísi, þar sem maður er ekki í sviðsformi allan ársins hring og því eðlilegt að maður breyti til fyrir slíka keppni.

Mig óraði aldrei fyrir því að ég myndi nokkurn tímann geta keppt í fitness þegar að ég byrjaði að taka mig á í hreyfingu og mataræði. En eitt leiddi af öðru. Ég hélt áfram að ná settum markmiðum og var því sífellt að leita mér að nýjum markmiðum. Það var þá sem að ég datt niður á þá hugmynd að keppa í fitness. Til þess þurfti mikil átök bæði líkamlega og andlega en mér tókst ætlunarverkið að lokum og steig á svið. Þá fann ég aftur þessa tilfinningu þegar mér tókst í fyrsta skipti að hlaupa Skógarlundshringinn án þess að stoppa. Mér fannst ég geta allt. Ég setti mér það markmið að mæta enn skornari til leiks að ári. Það gerði ég og lenti í fjórða sæti. Þegar ég spurði einn af dómurunum af hverju ég hefði ekki verið í þriðja sæti sagði hann að ég hefði verið helst til of grannur og rýr.

Þetta hafði ég aldrei á ævinni heyrt áður, að ég væri orðinn of grannur og það tók mig satt best að segja nokkra daga að átta mig á því að þetta væri virkilega satt. Ég lenti þarna í smá vandræðum með að setja mér næsta markmið, því þetta hlaut að vera eins langt og ég mátti fara í að grenna mig. Ég fór því að setja mér markmið á öðrum sviðum í staðinn, andlega og persónulega. Í dag æfi ég fyrst og fremst til þess að halda mér í góðu formi og til þess að líða vel.“

Skúli Bragi heldur sér ekki í góðu formi vegna þess að hann er á sjónvarpsskjánum heldur er það fyrst og fremst afleiðing lífsstílsbreytingar sem hann innleiddi í líf sitt 16 ára gamall. Pressan kemur frá honum sjálfum þar sem hann veit hvað það gefur honum að vera í góðu formi.

„Feimni 16 ára ég hefði aldrei látið sér detta það í hug að fara að vinna í sjónvarpi í framtíðinni. En með góðum lífsstíl og markvissri markmiðasetningu er víst hægt að framkvæma ótrúlegustu hluti,“ segir Skúli Bragi að lokum. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál