Hjálpar fólki að hanna ferli velsældar

Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi.
Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðni Gunnarsson lífsráðgjafi er að byrja með ný netnámskeið sem eru klæðskerasniðin fyrir upptekið fólk. 

„Máttur athyglinnar snýst um velsæld, að sjá tækifærin og njóta. Hver einasta manneskja er kraftaverk og mitt hlutverk er að minna okkur á þessi fallegu sannindi. Oft eru það gömul forrit sem eru bæld djúpt í undirvitundinni sem stjórna daglegum ferlum okkar og vönum og þótt við teljum að okkur langi, ætlum eða þráum hamingju og velsæld þá erum við ekki að leyfa okkur að breyta hegðun okkar, hugsunum og gjörðum í þágu þess sem við teljum okkur vilja,“ segir Guðni og bætir við:

„Námskeiðið gengur út að að skilja að við erum þar sem við erum af því að við fórum þangað, við sköpuðum núverandi ástand en getum breytt því ef við viljum. Þegar við erum tilbúin að verða ábyrg fyrir því ljósi, krafti og orku sem við búum yfir og hanna nýtt líf gerum við það með því að skilgreina hvað við viljum, hver tilgangurinn er með því og vinna síðan í því að verða nægilega verðug að eigin mati til að þiggja, njóta og þrífast í velsæld,“ segir hann. 

Guðni segir að þakklæti sé mjög mikilvægt. 

„Þakklætið er athöfn og ef við eigum erfitt með að þiggja þá erum við að hafna gjöfum tilverunnar og neita þannig velsældinni, hreinlega ýta henni frá okkur. Þessu má öllu breyta ef maður vill,“ segir hann. 

-Fyrir hverja eru námskeiðin?

„Fyrir alla sem vilja velsæld. Fyrir alla sem eru tilbúnir að vera viljandi skaparar í vitund. Fyrir alla sem vilja láta af fórnarlamba eða píslarvætts hegðun. Við erum annaðhvort að skapa líf okkar viljandi í vitund eða óviljandi og það er bara þetta Ó sem aðskilur velsæld eða vansæld. Máttur athyglinnar er tækifæri til að vera leiðandi afl í lífinu en ekki farþegi í mótþróa.“

-Hvernig eru námskeiðin uppbyggð?

„Máttur athyglinnar verkefnabókin er umgjörð fyrir verkferlin og byggja þau á skrefunum sjö;

-Athygli, að vakna til vitundar og losna undan oki hugans.

-Ábyrgð, að fyrirgefa sér umbúðalaust og vilja þannig valdið sem okkur er gefið og endurheimta um leið orkuna sem við vorum að verja í eftirsjá og iðrun og nýta hana til góðs.

-Tilgangur, skilgreina hvaða hlutverki maður ætlar að gegna og hvaða þjónustu við veitum.

-Heitbinding, að lofa sér til fulls í eigið líf og skilja að heilindi er forsenda velsældar.

-Framganga, að opinbera sjálfsmynd sína í gjörðum vitandi að vilji er verknaður ekki von eða væl.

-Innsæi, að vera einlægt vitni í sinni tilvist ekki böðull í persónulegu einelti í eigin garð.

-Þakklæti, að velja að telja blessanir sínar en ekki böl. Þakklæti er uppljómun, kærleikur og velsæld, öflugasta athöfn sem maður getur iðkað og er alltaf val.

Ég nota myndbönd, hljóðupptökur, PDF skjöl og svo rafrænt umhverfi sem við vinnum í og fylgjumst með framgangi nemenda. Þetta er öflugur skóli á netinu sem við köllum GlóMotion Akademíuna. Nemendur eru í virku sambandi ef þeir vilja eða geta unnið einir og sér. Einnig verður samkoma í lokuðum facebook hópi einu sinni í viku þar sem nemendur geta spurt og fengið svör. Námskeiðið hefst í dag og frá þeim degi fær þátttakandinn/n senda pósta daglega til áminningar og örvunar.“

-Eru námskeiðin fyrir þá sem vilja bara aðeins skerpa á lífi sínu eða fyrir þá sem hafa orðið fyrir miklum áföllum?

„Fyrir alla sem vilja lifa í velsæld og eru tilbúnir að stíga inn í líf sitt á öðrum forsendum og breyta um viðhorf gagnvart sjálfum sér. Það skiptir engu máli hvar þú hefur verið bara hvert þú ert að fara og hvort þú ert tilbúinn í að vilja þig og elska. Upphafið er NÚNA. Þú ein/n hefur vald til að opna hjarta þitt og þiggja gjafir tilverunnar og hanna ferli velsældar en það verður ekki gert með sömu hegðun, hugsunum og framkomu sem komu þér á þann stað sem þú ert á í dag. Það er gott að hafa það í huga að allt sem þú veitir athygli vex og dafnar og ef þú ert að hugsa um það sem þú vilt ekki, þá ert þú að vilja það.“

-Hvers vegna ákvaðstu að búa til þessi námskeið?

„Netið er dásamlegur vettvangur. Ég vil gefa sem flestum kost á að vinna að sinni velsæld - þetta er svo einfalt í sjálfu sér. Að stíga út úr máttleysi og vanmætti, hætta að draga sig niður og velja að stíga inn í vald sitt og stórkostleika, vera ljómandi og bjartar verur. Það eiga ekki allir heimangengt hingað til okkar í Garðabæ á Mátt Athyglinnar. Fólk býr bæði um allt land og auðvitað erlendis. Námskeiðið tekur 7. uppbyggilegar vikur og við erum einfaldlega að svara eftirspurn sem kemur víða frá því við viljum þannig þjóna sem flestum. Það eiga allir að geta unnið að sinni velsæld hvar sem þeir eru staddir.“

-Telur þú að það nýtist fólki betur að læra heima hjá sér en mæta á staðinn?

„Þetta er allt spurning um tíma. Það er misjafnt, sumir þurfa og vilja umgjörðina sem skapast við að mæta í sal til okkar og fá þannig stuðning til að breyta ferlum sínum. Það er líka oft gott að vera innan um fólk sem er á sömu bylgjulengd og í samhljóm. Aðrir kjósa að vinna á skjá og líður jafnvel betur við þannig aðstæður. Þá er einnig tími og kostnaður við ferðalög og þann tíma má nýta til að læra heima. Þetta er eins misjafnt og við erum mörg en eins og við vitum er kennsla og námskeiðahald að verða stöðugt vinsælla á netinu - að læra á sínum tíma og hraða.“

-Hvernig verður árið 2019?

„Árið 2019 verður tvímælalaust besta árið frá upphafi tímatals alveg eins og dagurinn í dag er besti og eini dagurinn sem þú hefur til ráðstöfunar. Þú velur hvort þú telur blessanir þína eða böl, ert viljandi skapari eða óviljandi. Það ert þú sem velur hvort þetta ár er ár tækifæra og áskorana eða ár frestunar og vansældar. HVAÐ VILT ÞÚ – AF HVERJU og hefur þú HEIMILD til að þiggja það?“

-Hvað getum við gert á hverjum degi svo líf okkar verði innihaldsríkara?

„Þakklæti, þakklæti og aftur þakklæti. Þakklæti er heilög athöfn. Þakklæti er ekki kurteisi eða hegðun. Þakklæti er athöfn þeirrar veru sem er tengd uppruna sínum, veru sem er snert og tendruð af orku alheimsins, veru sem er tengd almættinu. Þakklæti er athöfn sem á sér stað þegar ég þigg og er tengdur, þegar ég leyfi ljósaflinu að streyma um mig, þegar ég næri mig og innbyrði orkuna sem fylgir matnum inn í holdið, þegar ég drekk vatnssopa og leyfi lífsneistanum að streyma, þegar ég dreg andann viljandi í vitund.

Þakklæti er að þiggja, einlægt með opnu hjarta. Að þiggja er kjarni þess að vera þakklátur. Það er allt í lagi að sýna kurteisi og þakka fyrir sig, en þeir sem þiggja ekki geta ekki nærst og hleypt ljósinu að hjarta sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál