Líkaminn hefði sagt stopp

Hafrún er dugleg að lyfta en áður fyrr var hún …
Hafrún er dugleg að lyfta en áður fyrr var hún lítið fyrir að hreyfa sig.

Hafrún Pálsdóttir var búin að vera allt of þung of lengi áður en hún fór í hjáveituaðgerð fyrir þremur árum. Í dag lifir Hafrún, sem starfar við umönnun á Öldrunarheimili Akureyrar og stundar meistaranám við Háskólann á Akureyri, allt öðruvísi lífi en hún gerði þegar hún var 105 kíló. Hún hugsar betur um hvað hún borðar og er dugleg að hreyfa sig. Hún er með það markmið að vera í betra formi fimmtug en fertug og segist vera á góðri leið með það. 

„Ég fór á einhverjum tímapunkti til sjúkraþjálfara sem sagði við mig að ef ég myndi ekki snúa við blaðinu og létta mig myndi ég stimpla mig út af vinnumarkaði innan fárra ára þar sem líkami minn myndi bara segja stopp. Hjáveituaðgerðin var ómetanlegt hjálpartæki í þeirri vinnu minni að snúa við þessari þróun, ekki bara bætti hún lífsgæði mín umtalsvert heldur gerði hún mér kleift að lifa heilbrigðu lífi og gera hluti sem voru orðnir mér ómögulegir áður,“ segir Hafrún í viðtali við Smartland.

„Í dag huga ég allt öðruvísi að heilsunni. Ég hugsa meira um það sem ég borða þó að ég sé alls ekki bara að borða hollt. Ég leyfi mér alveg að borða það sem mig langar að borða en reyni að borða meira hollt en óhollt. Ég verð auðvitað líka að passa upp á að fá næga og góða næringu þar sem líkaminn vinnur öðruvísi úr fæðunni eftir svona inngrip.

Hafrún fyrir og eftir að hún fór í hjáveituaðgerð og …
Hafrún fyrir og eftir að hún fór í hjáveituaðgerð og breytti lífstíl sínum.

Áður en ég fór í það ferli sem felst í svona aðgerð hafði ég aldrei hreyft mig nokkurn skapaðan hlut. Ég hafði reynt að komast á skrið í ræktinni einhvern tímann en gefist upp og ég hef aldrei verið nein íþróttamanneskja. Eftir aðgerð hef ég verið mjög virk í ræktinni, fengið prógrömm öðru hvoru til að brjóta upp vanann, og í dag mæti ég í ræktina fimm til sex sinnum í viku og finnst það bara æðislegt! Ég hef aldrei á ævinni verið í betra formi en núna og stoðkerfisverkir og aðrir kvillar sem hrjáðu mig fyrir aðgerð eru svo gott sem horfnir.“

Hafrún segir að aðgerðin og breyttar venjur hafi ekki síður haft góð áhrif á andlega líðan en líkamlega og segir betri andlega og líkamleg heilsu haldast í hendur. „Það að vera ekki verkjuð alla daga alltaf hefur ótrúlega mikil og jákvæð áhrif á andlega líðan. Það að geta líka sofið verkjalítil á nóttunni gerir kraftaverk,“ segir Hafrún.

Eftir þetta ferðalag veit Hafrún vel að talan á vigtinni segir bara hálfa söguna. Hún segist þó enn eiga í vafasömu sambandi vigtina og hefur hún vigtað sig á hverjum einasta morgni síðan hún fór í aðgerðina. „Það er afskaplega óhollt og er eiginlega orðin hálfgerð þráhyggja hjá mér. Ég geri mér samt fyllilega grein fyrir því að þetta gerir mér ekki gott og kílóafjöldinn segir svo afskaplega lítið um ástandið og árangurinn,“ segir Hafrún. Henni finnst því gott að taka myndir af sér og bera saman. Ekki finnst henni verra að fá hvatningu og stuðning þegar hún birtir myndirnar á samfélagsmiðlum. Segir hún allt þetta vera hluta af vegferð sinni að komast yfir þessa þráhyggju með vigtina. 

Sem dæmi um hversu mikið talan á vigtinni getur blekkt er Hafrún nú um tíu kílóum þyngri en hún var þegar hún var hve léttust eftir aðgerðina. Í dag er hún þó í mun betra formi enda hreyfði hún sig ekkert áður fyrr. „Ég lyfti líka miklu, miklu þyngra og eins og ég sagði þá mæti ég í ræktina fimm til sex sinnum í viku og það segir sig bara sjálft að manneskja sem fer úr því að hreyfa sig aldrei í það að hreyfa sig nánast á hverjum degi bætir á sig vöðvamassa.“

„Á þessum tíma sem hefur liðið frá aðgerð hafa líka komið upp aðstæður þar sem ég hef kannski ekki mætt í ræktina í fjóra til fimm daga í röð og sukkað óvenjumikið í mataræðinu. Ég hef svo stigið á vigtina eftir slík tímabil og séð að nokkur kíló hafa fokið. Þá er örugglega bara vöðvamassinn að minnka og örugglega einhver vatnslosun af sykuráti,“ segir Hafrún en tekur þó fram að hún hafi svo sem ekkert fyrir sér í því. Það sem hún veit þó er að talan á vigtinni segir ekki allan sannleikann. 

mbl.is