Nennti ekki lengur að vera feit og pirruð

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali var orðin þreytt á sjálfri sér og ákvað að nú væri nóg komið. Eftir að hafa verið of þung, pirruð og með of lítið sjálfstraust í tugi ára komst hún að því að þetta væri allt í hennar höndum og engum nema henni um að kenna. Hún ákvað að taka ábyrgð á lífi sínu og gleði sinni. Þá loks breyttist allt. 

Þetta eru fokking fávitar að eiga ekki Levi's í minni stærð“ var svona dæmigerð hugsun sem setti mig út af laginu og til að ná mér niður eftir þetta svekkelsi út í Levi's-framleiðandann fékk ég mér pylsu, kók og súkkulaði. Ég var svo lengi á þessum stað, pirruð og skammaðist mín fyrir sjálfa mig,“ segir Ásdís Ósk sem er ekkert að fara í kringum hlutina.

„Einu sinni var ég léttflippuð, lifði lífinu, ferðaðist um Suður-Ameríku í sex mánuði, veiddi píranafiska í Amazon, dansaði í karnivali í Ríó, bjó í New York og Hondúras þar sem ég lærði köfun. En einhvers staðar á leiðinni breyttist ég í manneskju sem var farþegi í lífinu og NEI var alltaf það fyrsta sem ég sagði: Nei ég vil ekki prófa þetta, nei ég þori þessu ekki, nei, held að... Að segja nei við lífinu og áskorunum drepur smám saman í þér sálina. Ég fór að þyngjast og ég sannfærði sjálfa mig um að ég gæti bara ekki grennst. Ég hafði öll svörin hvers vegna ég gæti það ekki. Ég hafði alltaf haft lélegt sjálfsmat og bar mig stöðugt saman við þann besta í öllu, sem er náttúrlega ákveðin geðveiki, því enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju. Þannig að ég átti eiginlega ekki séns að mínu mati,“ segir Ásdís þegar hún rifjar upp hvernig lífið þróaðist og einhvern veginn var hún föst í eigin reiði og afsökunum.

Lágt sjálfsmat truflaði

„Þegar maður er með lágt sjálfsmat og fer að bæta á sig þá virðist þetta vonlaus barátta. Með árunum varð ég alltaf pirraðri, árásargjarnari og reiðari þannig að fólk vissi oft ekkert hvernig það átti að vera í kringum mig. Oft þurfti að tipla á tánum í kringum mig. Ég gat ekki tekið hrósi því mér fannst fáránlegt að einhverjum fyndist ég líta vel út. Ég fór í vörn og fór að búast við einhverju neikvæðu, setti vegg í kringum mig og hleypti fáum að. Málið er að maður fær það sem maður gefur af sér; ef maður sendir neikvæða orku fær maður neikvæða orku. Ég var samt engan veginn meðvituð um þetta. Mér fannst ég bara vera fórnarlamb samfélagsins: Ég var of feit af því að ég var með lélega brennslu, ég hreyfði mig ekki af því að ég gat ekki hlaupið eða lyft lóðum, ég vann svo mikið að ég hafði ekki tíma, ég lét allt fara í taugarnar á mér og mér fannst ég ekki bera neina enga ábyrgð á því að ég hafði þyngst svona. Þetta var öllum öðrum að kenna, fólkinu sem bauð upp á bakkelsi á fundum eða að það væri ekki boðið upp á hollt í fermingarveislum og fleira í þeim dúr.

Þetta byrjar sakleysislega, maður bætir á sig 1-2 kg á ári en 2 kg á ári í 20 ár eru 40 kg. Þegar þetta gerist svona hægt tekur maður minna eftir því. Allt í einu eru buxurnar orðnar pínu þröngar og næst þegar þú kaupir þér buxur tekurðu númeri stærra og svona heldur vítahringurinn áfram. Ég átti yfirleitt fjórar stærðir inni í skáp; fötin sem ég passaði í og svo til-öryggis-fötin ef ég myndi bæta aðeins á mig og svo fötin sem voru næstum því nógu stór og síðast fötin sem ég ætlaði pottþétt að komast í. Ég var nefnilega alltaf að reyna að taka mig á. Ég reyndi allt nema taka ábyrgð á sjálfri mér, að viðurkenna að ég bar ábyrgð á ástandinu. Þetta var alltaf öðrum að kenna.

Ég hataði að kaupa föt, ég keypti ekki föt sem mig langaði í heldur föt sem ég komst í. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum þar sem ég fékk ekki einu sinni að máta föt því afgreiðslufólkið sagði einfaldlega að þau pössuðu ekki á mig,“ segir hún.

Ásdís ásamt syni sínum.
Ásdís ásamt syni sínum.

Var búin að prófa allar megranir heimsins

Ásdís prófaði nánast alla matarkúra sem til voru og endalaus átaksnámskeið. Hún sagði að sér hefði þótt leiðinlegt að hreyfa sig og bjó til fjölda réttlætinga á yfirþyngd sinni. Hún kenndi einkaþjálfurum sem hún prufaði um að árangurinn væri ekki nógu góður en ekki að hún fór ekki eftir því sem þeir sögðu við hana. En svo loks skildi hún hvað var málið.

„Það versta sem ég man eftir var að vera uppfull af orku eftir að ná af mér nokkrum kílóum í einhverju átakanna sem ég var í og vera svo orðin jafn þung eða þyngri stuttu síðar. Þá hófst versta sjálfsniðurrifið. „Af hverju er ég svona mikill aumingi?“ Þetta gerðist í hvert skipti og ég þyngdist enn hraðar þegar svona stóð á. Ég var stanslaust pirruð í sjálfsniðurrifi í 20 ár.

Svo var viðmiðið skakkt, ég fór kannski út að ganga, labbaði 2 km og fannst ég svo rosalega dugleg að ég verðlaunaði mig með kexi og kókómjólk þegar ég kom inn, átti það svo sannarlega skilið eftir alla þessa hreyfingu.

Ég var alltaf að leita að skýringu af hverju ég væri svona gölluð. Hvað væri að mér líffræðilega. Ég leitaði um allt að réttlætingu. Svo las ég bókina The Compound Effect eftir Darren Hardy fyrir nokkrum árum og hún talaði til mín. Ég fór í kjölfarið á tvö námskeið hjá honum. Hann talar um að gera margar litlar breytingar í lífi sínu til að ná miklum árangri. Ég skildi allt og vissi hvað ég átti að gera. En ég var bara ekki tilbúin og hjakkaði áfram í sama farinu. Ég var seinna stödd á fyrirlestri erlendis hjá manni að nafni David Goggins þegar hann sagði þessa setningu: „Ef ég læsi ævisögu þína, myndi það hafa áhrif á mig?“ Ég sat þarna allt of feit og uppfull af gamalli reiði og hlustaði. Svo bætti hann við: „Þegar þú er alveg búin á því, þá áttu 40% eftir.“ Ég fór þá að hugsa: „Ég er að nálgast 100 kg og stöðugt pirruð. Hvar verð ég eftir 10 ár? Og hvar vil ég vera?“ 2 kg á ári í 10 ár í viðbót væru 20 kg. Ég sá mig fyrir mér í útskrift dóttur minnar frá menntaskóla, ég sæti í salnum 120 kg og í jogginggalla þar sem ég fann bara ekkert annað á mig. Hún væri löngu hætt að nenna að gera nokkuð með mér enda hefði ég enga orku, ég kæmi bara heim úr vinnunni og legðist upp í sófa fyrir framan sjónvarpið. Hvert ætlaði ég eiginlega að stefna, hver vildi ég vera? Vildi ég verða pirraða mamman eða amman sem gæti bara ekki tekið þátt í daglegu lífi fjölskyldunnar vegna þreytu og stoðverkja sem voru byrjaðir að hrjá mig? Í fyrsta skipti á ævinni fékk ég nóg, ég vildi ekki halda áfram að skrifa þessa sögu. Ég hef oft verið spurð hvers vegna ég tengdi svona vel við Goggins eftir að hafa reynt í 20 ár án árangurs. Hann talaði mikið um hversu feitur og reiður hann var og það var í fyrsta skipti sem ég hafði heyrt einhvern tala um reiðina líka, og ég bara vissi að fyrst að hann gat þetta þá gæti ég það líka,“ segir Ásdís.

Ásdís ákvað að gera breytingar á þessari stundu og við tók nýr kafli í lífi hennar. Kafli sem var allt öðruvísi en árin á undan.

„Þegar þú vilt ekkert meira í lífinu en að breyta, þá ertu tilbúinn til að breyta. Ég fór í gegnum mikla sjálfskoðun og kafaði djúpt. Vann í gömlu reiðinni, fyrirgaf sjálfri mér og öðrum. Varð hörð við sjálfa mig og tók ábyrgð á mér. Hætti afsökunum og sjálfsvorkunn. Vandi mig á að vakna kl. 5 á hverjum morgni. Það var lífsstíll sem ég setti áður í samhengi við öfgafólk sem kunni ekki að njóta. Vakna snemma og hreyfa sig og sleppa sjónvarpinu og namminu á kvöldin. Það hafði aldrei verið í boði. Ég fékk mér einkaþjálfara og tók út mjókurvörur, nammi, kex, brauð og þess háttar. Ég var áður hætt að drekka gos og drekk hvorki kaffi né áfengi. Í fyrsta skipti á ævinni var ég ekki í átaki, ég var að breyta um lífsstíl,“ segir hún.

Og það gerðist fleira.

„Ég hreinsaði til í húsinu hjá mér og setti mér reglur. Ein var að ef hlutur veitir mér ekki gleði, þá losa ég mig við hann. Það er ótrúlegt hvað það er hægt að safna miklum óþarfa á nokkrum áratugum, einhverju sem tekur pláss og sannarlega kostaði peninga á sínum tíma. Ég hef því núna þróað með mér mínimalískan lífsstíl. Ég endurskoðaði líka viðhorf mitt til umhverfisins. Hvernig ég brást við áreiti. Af hverju ég tók hluti inn á mig. Ég vann í að læra að slaka á og leyfa hlutunum að þróast. Ein lykillexían sem ég fékk var frá 16 ára syni mínum þegar hann sagði við mig: „Mamma, þú ræður hvernig þú bregst við. Það er þín ákvörðun að verða reið og pirruð.“ Það er mitt leiðarljós í dag. Að hætta að ergja mig á hlutum sem ég get ekki breytt.

Ég henti ekki bara hlutum heldur endurskoðaði líka samband mitt við fólk, ég jók samskipti við suma og hætti samskiptum við aðra. Ég varð meðvituð um það í hvað ég setti orkuna. Ég hafði alltaf unnið mjög mikið og verið með langan vinnudag, kvöld og helgar, ég var orðin mjög stressuð og átti alltaf sopril inni í skáp, svona til öryggis ef ég næði ekki að sofna eða bara þyrfti að slaka á.“

Þessi mynd var tekin 2015. Hér er Ásdís með Ásdísi …
Þessi mynd var tekin 2015. Hér er Ásdís með Ásdísi Rósu og Hafliða Ragnarsdóttur.

Losaði sig við 20 ára gremju

Er ekki mikið mál að gera svona breytingar?

„Að vinda ofan af 20 árum er gífurleg vinna og miklu meiri en ég átti von á. Það er ekki nóg að borða hollt og hreyfa sig. Ég þurfti að fara í gegnum endalaus lög af sjálfshatri og uppsafnaðri gremju og reiði þar til ég komst að kjarnanum og lærði að elska mig og fyrirgefa mér. Það var langerfiðast fyrir mig. Á yfirborðinu leit allt gífurlega vel út, ég var að æfa, borða rétt og léttast helling, undir niðri var ég ennþá í klessu, ég var ekkert að vinna í reiðinni og tilfinningunum. Í desember hætti ég hjá þjálfaranum og í janúar 2018 hrundi ég alveg niður. Ég fékk mitt fyrsta kvíðakast og hélt að ég væri að deyja. Ég náði ekki andanum og á sama tíma ofandaði ég, ég grét eins og náinn ættingi hefði dáið en vissi samt ekki hvers vegna. Það tók margar vikur að ná botninum og á þessum tíma barðist ég við að komast fram úr rúminu, mæta í vinnuna og bara vera til staðar. Ég las dánartilkynningar í blöðunum því mér fannst þetta bara svo ansi góður staður til að vera á, rólegur og afslappaður. Þegar ég lít til baka sé ég að ég var búin að vera í kulnunarástandi í mörg ár og ég tók á því með hörkunni.

Það tók mig nokkra mánuði að vinna mig út úr því; ég hætti að taka vinnuna heim á kvöldin og um helgar, hætti að vinna yfir sjónvarpinu og á einu ári náði ég að snúa öllu við þannig að í dag er ég á betri stað en nokkru sinni fyrr. Ég nota tímann þegar ég er ekki í vinnu til að endurhlaða batteríin, hreyfa mig og njóta þess að vera með krökkunum mínum. Það besta er að þó að ég minnkaði tímann sem ég eyddi í vinnu náði ég að afkasta jafnmiklu, ég tel að það sé vegna þess að ég er í góðu formi andlega og líkamlega, ég hef meiri orku og næ að einbeita mér betur en áður. Ég vinn enn mikið en ég er svo miklu skilvirkari og kem miklu meira í verk á færri klukkutímum en áður.

Smátt og smátt byggði ég mig upp aftur. Fór til sálfræðings og gerði upp gamla fortíðardrauga. Að sleppa takinu á fortíðinni var það sem skipti höfuðmáli fyrir mig, að hætta að burðast með gamlan farangur, hætta að horfa í baksýnisspegilinn og byrja að horfa fram á við. Í fyrsta skipti á ævinni tók ég fulla ábyrgð á öllum mínum gjörðum. Ég vann í reiðinni og fyrirgaf mér og byrjaði að elska mig eins og ég er. Ég set mig í fyrsta sæti, það kann að hljóma sjálfselskt en meira að segja flugfélögin segja þér að setja grímuna fyrst á þig áður en þú aðstoðar börnin. Ef ég er ekki í lagi get ég ekki verið til staðar fyrir neinn annan.“

Svona er matseðillinn

Ásdís skipuleggur mataræði sitt vel og gætir þess að hreyfa sig á hverjum degi. Þetta tvennt hefur skilað henni miklum árangri.

„Dæmigerður dagur hjá mér í mataræði væri svona: Ommiletta með kjúklingi og alls konar grænmeti, ferskt klettasalat og ber ofan á í morgunmat með ávaxtasafa, lýsi, LGG+ og tei. Tek svo með mér tvo ávexti í nesti ásamt salati með kjúklingi og berjum. Ég borða bara mat sem mér finnst fallegur. Ég er búin að finna hvaða matur fer illa í mig og ég forðast hann. Annars leyfi ég mér allt. Á kvöldin borða ég svo það sem mig langar í. Því meiri árangri sem ég næ, því minna langar mig í pítsur og hamborgara.

Fyrst var ég með einkaþjálfara í nokkra mánuði. Svo prufaði ég fjarþjálfun og svo fyrir nokkrum mánuðum ákvað ég að fara út að hlaupa. Þegar ég byrjaði að hlaupa losnaði ég við sopril. Það er bara einhvern veginn að anda að sér fersku lofti sem hreinsar svo hausinn. Ef ég á erfiðan dag fer ég út að hlaupa eða synda. Ég byrjaði að ögra mér og skráði mig í 5 km Suzukihlaupið og 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Sótti 10 km hlaupaapp og byrjaði að hlaupa í maí 2018. Fyrsta vikan var að hlaupa í eina mínútu og ganga í eina mínútu. Ég náði að klára 5 km í Suzuki og ég hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu á 66,16 mínútum. Tilfinningin að ná að hlaupa 10 km var ólýsanleg en ég hafði alltaf sagt að ég gæti ekki hlaupið. Að hlaupa var fyrir hina og allt í einu var ég komin í flokk með hinum. Allt í einu fannst mér ég geta allt sem mig langaði til, það voru engin takmörk á því hvað ég gat. Ég þurfti að finna næsta verkefni og ég ákvað að henda mér út í djúpu laugina, eiginlega eins langt og ég gat. Ég skráði mig í Landvættirnar þrátt fyrir að kunna ekki skriðsund, eiga ekki hjól, hafa aldrei stigið á gönguskíði og mitt lengsta hlaup var 10 km. Það tók mig þrjá mánuði að geta synt 50 m skriðsund í einni ferð. Ég á enn eftir að kaupa mér hjól en æfi inni á hjólum tvisvar í viku með Þríkó. Á 18 mánuðum fór ég úr því að hreyfa mig ekkert í að geta æft daglega. Mér hefur aldrei liðið betur og ég hef aldrei verið í betra jafnvægi,“ segir hún.

Ásdís segist hafa eignast nýtt líf með því að breyta um lífsstíl og geri í dag hluti sem hana óraði ekki fyrir að hún gæti framkvæmt.

„Fyrsta árið léttist ég um 22 kg. Ég er komin í ákveðið jafnvægi en ég er alltaf að styrkjast og auka þolið og kraftinn. Ég get margt sem ég lét mig bara dreyma um. Ég er nýorðin 50 ára og ég er í besta formi lífs míns, bæði líkamlega og andlega. Ég er stöðugt að ögra sjálfri mér og fara út fyrir þægindahringinn. Mér líður miklu betur og fólki virðist líða betur í kringum mig. Ég fæ allt annað viðmót hjá fólki og allt sem ég er að fást við gengur betur. Ég fann að þetta er hægt ef maður bara tekur ábyrgð á sjálfum sér, hættir að vorkenna sér og finna afsakanir. Vinnur í sjálfum sér og setur sér nokkrar reglur sem ekki má brjóta.

Fólkið mitt finnur þetta og sérstaklega börnin mín. Dóttir mín sem er að verða 10 ára talar mikið um þetta, hvað henni líður miklu betur með mér núna því hún veit alltaf hvar hún hefur mig, að ég verð ekki reið og pirruð upp úr þurru og hún sagði þetta svo vel: Ég elskaði þig líka þegar þú varst pirruð, ég kann bara betur við þig núna! Við eigum bara eitt líf og það er skelfileg sóun að eyða því í að vera farþegi í aftursætinu.“

Ásdís flytur reglulega fyrirlestra bæði erlendis og hérna heima um breyttan lífsstíl. Hún er á Instagram þar sem hún er dugleg að deila nýja lífsstílnum. Hægt er að fylgjast með henni á eftirfarandi slóð: https://www.instagram.com/asdisoskvals/

Hér er Ásdís ásamt dóttur sinni.
Hér er Ásdís ásamt dóttur sinni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál