10 atriði sem þú gætir átt von á án sykurs

Svefninn er betri án sykurs samkvæmt greinahöfundi. Jafn blóðsykur hefur …
Svefninn er betri án sykurs samkvæmt greinahöfundi. Jafn blóðsykur hefur sýnt sig að hafi jákvæð áhrif á svefn. mbl.is/AFP

Samkvæmt snjallforritinu sem ég hlóð niður í símann minn fyrir talsvert löngum tíma síðan eru 509 dagar frá því ég borðaði sykur síðast. Þá hafði ég lifað yfir 15.000 daga þar sem sykur var hluti af daglegu neyslumynstri mínu. 

Eins og rannsóknir sýna þá getur sykur verið ákaflega ávanabindandi. Því kom það ekki á óvart hversu lengi sykurinn var að fara úr líkamanum á sínum tíma. Mestu fráhvörfin upplifði ég samt þegar ég byrjaði að taka sykur úr fæðunni minni. Frá þeim tíma hef ég talið, einn dag í einu, og upplifað gjörólíkt líf frá því sem ég áður átti.

Hér eru tíu atriði sem ég hef tekið eftir að hafa breyst í lífinu:

1. Meiri orka

Frá því að ég hætti að borða sykur hefur orkan yfir daginn verið jafnari. Ég sprett á fætur á morgnana, bý um rúmið, fer í sturtu og elda mér góðan morgunmat. Ég hef það fyrir reglu að borða vænan skammt af próteini á morgnana og borða eitt epli eftir hverja máltíð til að halda blóðsykrinum jöfnum yfir daginn.

Siðar fer ég í vinnuna og skila mínum átta tímum, með jafnri orku, þannig að ég geri svipað mikið á degi hverjum. 

Eftir vinnu hef ég orku til að elda, sinna fjölskyldunni og hafa fallegt í kringum mig. Ég fer vanalega að sofa á sama tíma á kvölin og upplifi mig í svipuðu ástandi jafnt kvölds og morgna.

2. Þyngdartap

Þrátt fyrir að ég borði margfalt meira í dag en ég gerði áður hef ég aldrei verið í betra formi. Ég missti að jafnaði fjögur kg á mánuði í nokkurn tíma. Þangað til að ég varð 58 kg sem ég held að sé kjörþyngd fyrir konu með mína hæð. 

Ég er aldrei bólgin á líkamann og þó ég sinni ekki mikilli líkamsrækt þá er ég með góðan vöðvamassa og virðist vera með eðlilega fituprósentu á mér. 

Mér líður vel í fötunum og er aldrei bólgin. 

3. Betri svefn

Þegar ég leggst á koddann á kvöldin þá sofna ég vanalega strax vært og rótt. Ég sef jafnt og þétt yfir nóttina og hef ekki svo ég man eftir vaknað upp af miðjum svefni frá því ég byrjaði að taka sykur út úr matarræðinu mínu. 

Þegar ég var hins vegar með mikinn sykur í líkamanum þá fannst mér ójafnvægið leiða til óreglu í svefni. Þá hafði ég einnig meiri þörf fyrir að sofa út á meðan ég virðist vakna rétt á undan vekjaraklukkunni minni daglega.

4. Sterkara ónæmiskerfi

Ég hef einu sinni veikst á þessum tíma frá því að ég tók út sykur úr matarræði mínu. Nú veit ég ekki hvað er eðlileg tíðni að veikjast hjá fullorðnum. Hins vegar var ég með næringarskort þegar ég borðaði hvað mest að sykri. Ég var með járnskort og B-vítamín skort sem ég finn ekki fyrir lengur.

Hluti af ástæðu þess er án efa það magn sem ég borða af grænmeti daglega. Ég borða þrjár máltíðir á dag þar sem diskurinn minn er fullur af litríkri skemmtilegri fæðu.

Þegar ég fer á veitingahús hef ég tekið eftir því að ég borða meira en margir aðrir. Á grænmetisstað um daginn, þurfti ég að borga fyrir tvo. 

Áður en ég hætti að borða sykur var ég með lítinn maga, þó hann væri frekar bústinn. Magamálið stækkaði fljótt og ég finn hvernig næringarefnin sem ég borða daglega virka sem eldsneyti á vélina mína. 

5. Húðin betri

Ég er ekki viss um hvort húðin mín er betri eftir að ég hætti að borða sykur, því ég hef alltaf verið með mjúka húð og lítið af bólum. 

Mér hefur hinsvegar fundist ég þurfa að nota minna af snyrtivörum og hef meira gaman af því að bera á mig gæðakrem. Eitt af því sem ég hef gert við fjármunina sem sparast með breyttu neyslumynstri er að ég leyfi mér að kaupa allskonar hluti fyrir húðina mína. 

6. Lífslíkurnar verða betri

Áður en ég hætti að borða sykur var ég farin að finna fyrir allskonar óþægindum. Ég borða mat í dag sem er vísindalega sannaður að sé góður fyrir hjartað, nýrun og lifrina. 

Það sem það gerði fyrir mig að hætta að borða sykur er að ég fór úr öllum öfgum og meira inn í jafnvægi í lífinu. Eitt súkkulaði stykki á hlaupum keyrði mig upp í orku, síðan féll ég niður af jafn miklum hraða. 

Í dag er ég vanalega búin að skipuleggja mig yfir daginn. Ég geri sömu hlutina daglega sem gerir það að verkum að það er minna álag á mig líkamlega. 

Það að ég sé að upplifa minni bólgur í líkamanum gefur mér vísbendingu um að það sem ég er að gera sé gott fyrir mig til lengri tíma. 

Ég þekki ekki vöðvabólgu í dag, meltingartruflanir eða bólginn maga. Hver einasti dagur er eins hjá mér líkamlega, síðan er það bara undir mér komið hvernig ég fer með þennan góða dag. 

7. Skapsveiflur minnka

Eitt af því sem ég hef tekið eftir að hefur breyst hvað mest hjá mér er að skapsveiflurnar minnka í meiri reglu.

Þegar blóðsykurinn er jafn yfir daginn er minna álag á taugakerfið. Jafn svefn, regla á matarræði og stjórn á lífinu vinnur allt með miðtaugakerfinu.

Ég hvet alla þá sem langar að prófa að taka sykur alveg út úr matarræði sínu að gefa því tækifæri. Ein vika í fráhvörf og síðan nokkrar vikur að aðlagast er ekkert miðað við lífið sem maður fær í staðinn. 

mbl.is