Svona heldur Halle Berry út á ketó

Halle Berry hefur verið lengi á ketó-mataræðinu.
Halle Berry hefur verið lengi á ketó-mataræðinu. mbl.is/AFP

Mörgum finnst erfitt að vera ketó-mataræðinu til lengdar. Óskarsverðlaunaleikkonan Halle Berry hefur verið lengi á mataræðinu en hluti af ástæðu þess að hún hefur ekki gefist upp er sú að hún leyfir sér svindldaga inn á milli. Til eru ýmsar leiðir til þess að svindla á ketó en sumir kjósa að svindla einn dag í viku. 

Berry greindi frá því á Instagram að hún svindlaði á ketó og var ekkert að skammast sín fyrir það. 

„Ég held að svindl sé mjög mikilvægt,“ sagði Berry þegar hún svaraði því hvort svindl um helgar væri í lagi. „Stundum verður þú bara að borða það sem þig langar í. Þú verður að fullnægja löngunum þínum og þú kemur aftur betri og sterkari,“ sagði Berry. 

Einkaþjálfari Berry, Peter Lee Thomas, tók í sama streng og sagði að fólk þyrfti að verlauna sig. Ef það gerði það ekki myndi það bara gefast upp og sökkva dýpra og dýpra og þá er erfiðara að koma til baka. 

Halle Berry.
Halle Berry. mbl.is/AFP
mbl.is