Þess vegna áttu að borða 800 grömm á dag

María Rún Þorsteinsdóttir.
María Rún Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

María Rún Þorsteinsdóttir er ÍAK-styrktarþjálfari, crossfit level 2 þjálfari og einn af eigendum crossfit-stöðvarinnar Hengils í Hveragerði. Í byrjun sumars ákvað hún að setja sér það markmið að borða að minnsta kosti 800 grömm af grænmeti og ávöxtum á hverjum degi í sumar. 

Í hverju felst markmiðið?

„Markmiðið er að borða 800 grömm samanlagt af grænmeti og ávöxtum á dag. Hlutfallið milli grænmetis og ávaxta skiptir ekki máli en þurrkaðir ávextir eða ávaxtadjús telja ekki.“

Af hverju ákvaðstu að setja þér þetta markmið?

„Maður borðar aldrei of mikið af grænmeti né ávöxtum og staðreyndin er sú að meðalmanneskjan er að borða vel undir þessum 800 grömm. Landlæknir hefur lengi verið með átakið „5 á dag“ og talar í því samhengi um 500 grömm á dag af grænmeti og ávöxtum. Ég heyrði viðtal við konu að nafni Ec Syncowski sem er með næringarþjálfun og hefur verið með átakið #800challenge í dágóðan tíma. Í viðtalinu vísar hún í niðurstöður margra rannsókna sem sýna að við 500 gramma daglega inntöku minnki líkur á krabbameini og að við 800 grömm minnki líkur bæði á krabbameini og hjarta-og æðasjúkdómum.

Að borða 500 grömm er ekki sérstök áskorun fyrir mig, ég næ því nokkurn veginn alla daga án þess að leggja mig sérstaklega fram við það en til að ná 800 grömmunum þarf ég að passa að borða grænmeti eða ávexti með hverri máltíð dagsins eða stækka skammtana aðeins. Mig langaði í smá áskorun og mig langar að borða að mestu hreina fæðu en um leið og maður er búinn að setja þetta magn inn af grænmeti og ávöxtum þá minnkar óhjákvæmilega magnið af síðri kostum sem maður setur ofan í sig. Niðurstaðan er því meira inn af vítamínum, steinefnum og trefjum og minna inn af „innantómum“ hitaeiningum.“

Þú talar um að það væri betra að setja sér markmið um að borða frekar hollan mat heldur en að gera bannlista yfir mat sem maður ætlar ekki að borða, af hverju?

„Það er alltaf verið að segja okkur hvað sé óhollt og flest vitum við að við eigum að forðast sykur, hvítt hveiti, unna kjötvöru og svo framvegis en það er mun minna talað um hvað við eigum að borða (fyrir utan auðvitað allar töfratöflurnar og skyndilausnirnar sem sífellt er otað að okkur) þetta er í raun algengasta spurningin sem ég sem þjálfari fæ „hvað á ég að borða?“.“

Það að borða og næra sig vel á ekki að vera svo flókið að maður þurfi að lesa nýja bók á hverju ári. Ég trúi því að ef við myndum öll borða sem allra mest af hreinni fæðu, borða fæðuna eins og hún kemur frá náttúrunnar hendi væri vandi okkar varðandi lífsstílstengda sjúkdóma mun minni og heilsa okkar almennt betri. Að borða meira af grænmeti og ávöxtum er einn partur af því að borða meira af hreinni fæðu. Í mínum huga er það mun jákvæðari nálgun að setja fókusinn á það sem maður ætlar gera frekar en það sem maður ætlar ekki að gera. Þannig búum við okkur líka til nýjar og bættar venjur til lengri tíma.“

María segir að það eigi ekki að vera svo flókið …
María segir að það eigi ekki að vera svo flókið að borða og næra sig vel að maður þurfi að lesa nýja bók á hverju ári. Pexels

Mælir þú með að fleiri setji sér markmið um að borða 800 grömm af ávöxtum og grænmeti á dag? Eða er hægt að laga markmiðið af sjálfu sér?

„Ég mæli með því við alla að borða meira af grænmeti og ávöxtum já. Það að setja sér ákveðið markmið varðandi ákveðið daglegt magn heldur fólki við efnið og tekur líka út huglægt mat fólks. Margir hreinlega halda að þeir borði mun meira af grænmeti og ávöxtum en þeir raunverulega gera. Ég mæli hins vegar með að fólk setji sér markmið sem það reiknar með að ná. Það væri t.d. skynsamlegra fyrir fólk sem borðar lítið sem ekkert af grænmeti eða ávöxtum að byrja með lægra markmið, setja það jafnvel bara við 300-400 grömm. Þegar það er orðið auðvelt þá er hægt að hækka markmiðið upp í 500 grömm og svo framvegis.“

Af hverju skiptir hlutfall milli grænmetis og ávaxta ekki máli?

„Margir eru hræddir við að borða ávexti út af ávaxtasykrinum. Það er eiginlega bráðfyndið að fólk sé að forðast ávexti þegar almenn neysla á hvítum sykri er langt fyrir ofan viðmið en ávaxtaneysla er undir viðmiði. 

Staðreyndin er sú að mataræði hins almenna borgara er ekki nógu gott og aukið magn ávaxta er í fæstum ef einhverjum tilfellum að fara að gera fólki annað en gott, ekki síst ef það verður til þess að aðrir verri kostir detti út.“

Hvað gerirðu ef þú nærð ekki markmiði dagsins? Er allt ónýtt þá?

„Þetta er svo algengt hugarfar hjá fólki. Að ef það á dag sem er ekki alveg samkvæmt plani þá hugsi það að „nú sé allt ónýtt“ og þá missir það alveg tökin og sleppir sér og fer jafnvel að borða langt umfram það sem því raunverulega langar í.

Ég mæli með að fólk hugsi þetta eins og æfingar; þótt þú komist ekki á æfingu í dag þá þýðir það ekki að þú hættir bara og farir ekki heldur á morgun eða hinn. Ég náði ekki 800 gramma markmiðinu fyrsta daginn, náði um 600 grömmum af grænmeti. Ég hætti ekki heldur fór ég yfir daginn og skoðaði hvað ég hefði getað gert betur og hvað ég get gert til að auka líkurnar á að ég nái markmiði mínu næstu daga. 

Sama á almennt við um að stunda hollt og gott mataræði. Ef ég fer í vöffluboð þá bara nýt ég þess meðan það varir og svo kemur bara næsta máltíð sem ég reyni að passa að innihaldi góða næringu sem gerir eitthvað fyrir mig og heilsu mína, eitthvað annað en að næra kannski sálina eins og vöfflurnar hennar mömmu gera.“

View this post on Instagram

♥️🏋🏻‍♀️

A post shared by María Rún Þorsteinsdóttir (@mariarun85) on May 2, 2019 at 5:45pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál