Vaknaðir þú öll bitin í morgun?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Landsmenn kvarta töluvert yfir bitum lúsmýs þessa dagana. Hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að fyrirbyggja bit og hvað getum við gert þegar við vöknum útbitin? Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni segir að það sé mikilvægt að fara eftir eftirfarandi leiðbeiningum. 

„Það skiptir miklu máli að hreinsa bitið vel með spritti og kæla það. Ef það dugar ekki er einfaldast að taka ofnæmistöflur, til dæmis Histasín eða Lóritín, sem fást án lyfseðils í lyfjaverslunum. Einnig er hægt að bera sterakrem á bitin eins og til dæmis Mildison. Ef það dugar ekki til þá leita til læknis og fá sterkari sterakrem eins ogelocon, ovixan eða dermovat en þau krem eru öll lyfseðilsskyld. Í verstu tilvikunum þarf að leita sér læknishjálpar og þá eru annaðhvort gefnar steratöflur til að minnka óþægindin eða sterasprauta,“ segir Jenna Huld. 

Hér má sjá bit eftir lúsmý.
Hér má sjá bit eftir lúsmý. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Jenna Huld segir að útbrotin og bólgurnar sem koma í kjölfar bitsins séu ekki vegna bitanna sjálfra heldur sé um ofnæmisviðbrögð að ræða gegn munnvatni flugnanna sem þær sprauta inn í sárið. 

„Í munnvatninu eru fjölmörg efni, til dæmis prótín sem sporna gegn storknun blóðs. Ónæmiskerfi okkar ræðst á þessi prótín og reynir að brjóta þau niður; í kjölfarið myndast bólgur í kringum bitið og þessu getur fylgt töluverður kláði. Það fer svo eftir ofnæmisviðbragði okkar hve mikil útbrot og einkenni verða. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki ástæða til að leita læknis vegna bita nema það komi fram kröftug ofnæmisviðbrögð,“ segir hún. 

Er einhver ákveðinn matur sem fólk ætti að borða til að forðast það að vera bitið?

„Það er enginn ákveðinn matur sem ver okkur og lúsmý bítur mest í ljósaskiptunum en getur einnig gert atlögu á hábjörtum degi, öfugt við móskító sem er aðallega á kvöldin og á næturnar. Sumir telja B-vítamín hjálpa gegn bitunum en það gildir ekki fyrir alla.“

Hvað getum við gert til þess að forðast lúsmýsbit? 

„Það er gott að forðast að láta vatn standa í pollum eða kerjum í görðum og á húsalóðum. Gott er að loka veröndum, svölum og öðrum svæðum þar sem fólk hefst við utandyra með flugnaneti. Venjulegt flugnanet gagnast ekki í þessum tilgangi, vegna þess hve flugurnar eru smáar. Þarf sérstök net fyrir lúsmý. Einnig mæli ég með því að fólk gangi í ljósum langermabolum og síðbuxum, sokkum og skóm utandyra, einkum í ljósaskiptunum. Dökkur klæðnaður  laðar þær að, líklega vegna meiri hita,“ segir Jenna Huld. 

Hún mælir líka með því að fólk beri á sig flugnafælandi krem eða úða. Til dæmis með virka efninu DEET (diethyltoluamíð).

„Þó er aðeins talið ráðlegt að nota þær í litlu magni, þar sem efnið er talið geta haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfi í of stórum skömmtum. Svo er gott að nota mýflugnagildrur. Sumir nota kolagrill, leiðbeiningar er hægt að finna á Facebook-síðu Erlings Ólafssonar skordýrafræðings og svo mæli ég með því að fá ráðleggingar meindýraeyða varðandi skordýraeitur yfir garða og lóðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál