Gurrý opnar eigin líkamsræktarstöð

Guðríður Torfadóttir.
Guðríður Torfadóttir.

Ein af þekktustu leikfimisdrottningum Íslands, Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý eins og hún er kölluð, er að opna sína fyrstu líkamsræktarstöð. Gurrý var annar af þjálfurum Biggest Loser en þættirnir vöktu mikla athygli hérlendis þegar þeir voru sýndir í Sjónvarpi Símans. Líkamsræktarstöðin hefur fengið nafnið Yama og er lögð höfuðáhersla á að fólk geti æft við kjöraðstæður með meginmarkmið að ná árangri. 

„Í Yama verður boðið upp á heimilislegt umhverfi en við verðum með litla hópa og gott andrúmsloft sem hvetur til líkamlegrar og andlegrar heilsuræktar. Yama heilsurækt er hugsuð til að svara sífellt háværari kröfum fólks um fjölbreytta þjálfun, framúrskarandi leiðbeiningar og skemmtilega upplifun á einum stað,“ segir Gurrý. 

Hún hefur mikla reynslu í heilsuræktarbransanum en hún hefur starfað við fagið í 20 ár. Hún leggur áherslu á styrk, úthald og liðleika ásamt slökun og hugleiðslu. 

„Með þessu móti fær fólk út úr einum tíma fjölbreytta æfingu þar sem unnið er með jógaæfingar í samblandi við lóð og tæki. Þessi nálgun hefur verið í þróun undanfarna 18 mánuði og prófuð í fjölbreyttum litlum hópum sem hafa nú þegar náð frábærum árangri. Með opnun stöðvarinnar er í raun verið að veita fleirum aðgang að kerfi sem má með sanni segja að sé einstakt hér á landi,“ segir hún. 

Þótt Gurrý hafi verið grjóthörð í Biggest Loser vill hún ekki að fólk lyfti bara lóðum. Jóga hefur verið að spila stærra hlutverk í þjálfun hennar og hefur hún bætt við sig mikilli þekkingu þegar kemur að jógafræðum. 

„Yama heilsuræktin verður opnuð í haust og þar verður haft að leiðarljósi að öllum líði vel, hafi gaman af því að mæta og sjái árangur,“ segir Gurrý en að undanförnu hefur hún rekið litla líkamsræktarstöð í bílskúrnum heima hjá sér og hefur sá hópur náð miklum árangri þrátt fyrir að hafa bara mætt tvisvar í viku, klukkutíma í senn. 

Í Yama verður pláss fyrir takmarkaðan fjölda en hægt er að fylgjast með ferlinu á www.yama.is. 

mbl.is