Þjálfari Gomez leysir frá skjóðunni

Selena Gomez.
Selena Gomez. mbl.is/AFP

Stjörnuþjálfarinn Amy Rosoff Davis þjálfar stjörnur á borð við söngkonuna Selenu Gomez. Fjölbreytni er lykilatriði að mati Davis þegar kemur að hreyfingu. Davis deildi nýlega fjórum góðum æfingum sem hún lætur kúnna sína gera í viðtali á vef Health. 

Davis segir það ekki nóg að gera brennsluæfingar þar sem hún segir fólk líka þurfa að byggja upp vöðva til þess að sjá árangur. 

Fjórar uppáhaldsæfingar Davis sem hún lætur meðal annars Selenu Gomez gera eru einfaldar og það þarf ekki meira en æfingadýnu og ef til vill lítil handlóð til þess að framkvæma þær. 

Rúlla niður í planka, armbeygja og snerta axlir

Davis mælir með því að fólk standi upprétt með mjaðmabil á milli fóta í byrjun. Það á svo að rúlla niður hryggjalið eftir hryggjalið og ganga með höndunum fram í plankastöðu. Í plankastöðunni á það að taka eina armbeygju og koma svo við vinstri öxl með hægri hönd og öfugt fimm sinnum. Að lokum fer fólk sömu leið upp aftur. Endurtaka fimm til tíu sinnum. 

Dúa í stórri úskeifri stöðu og virkja hendur með

Byrjunarstaðan er það sem kallað er önnur „position“ í dansi, fætur útskeifar og gott bil á milli fóta þannig að formið fyrir neðan mjaðmir er eins og öfugt V. Í þessari stellingu á fólk að beygja hné og halda áfram að dúa án þess að strekkja fætur. Davis hvetur fólk til þess að nota lítil handlóð og virkja hendur með því að halda höndum í þráðbeinni línu frá öxlum og beygja olnboga í átt að mjöðmum og aftur til baka. Þetta má endurtaka 30 til 50 sinnum. 

Uppsetur og rúlla heilan hring

Davis mælir með því að fólk liggi á bakinu með fætur og hendur beinar. Því næst rúllar það heilan hring. Þá er komið að því að taka eina uppsetu og svo er rúllað aftur til baka og önnur uppseta tekin. Þetta er endurtekið tíu sinnum. 

Fótalyftur á hlið

Í stað þess að gera mjaðma og fótalyftur liggjandi á annarri hliðinni mælir Davis með að fólk fari í svokallaða hafmeyjustöðu með aðra höndina á mjöðm en hina á gólfinu. Þannig er hægt að reisa sig upp og lyfta beinum fæti upp einu sinni og bognum fæti einu sinni og fara aftur niður. Þetta má endurtaka 30 til 50 sinnum. 

Á vef Health má sjá Davis framkvæma æfingarnar sem Selena Gomez gerir. 

Selena Gomez.
Selena Gomez. mbl.is/AFP
mbl.is