Súpan sem hafin er yfir alla fegurðarstaðla

„Við höfum staðið vaktina í allnokkur ár núna og þetta hefur fest sig rækilega í sessi, hvort sem er meðal gesta eða hjá okkur sem vinnum að þessu,” segir Gísli T. Gíslason, markaðsstjóri Nettó um hina geysivinsælu Diskósúpu sem árlega er á boðstólnum í Hljómskálagarðinum á Menningarnótt.

„Stemningin í súputjaldinu er alltaf einstaklega góð og fólk er alltaf mjög ánægt með súpuna, bæði vegna þess sem hún stendur fyrir og vitaskuld líka bragðið, því þó svo að hér sé verið að nýta það sem aðrir myndu setja í ruslið - þá líður þessi einstaklega bragðgóða súpa sannarlega ekki fyrir það,” segir hann og bendir á að undanfarin ár hafi þau alltaf klárað súpuna talsvert áður en áætlað er og virðist engu skipta þó bætt sé í skammtinn á hverju ári.

„Við erum með vel yfir 100 kíló af grænmeti, ávöxtum og hverskyns þurrvöru sem þykir ekki uppfylla útlitsstaðla eða eru gengisfelld á „best fyrir” miðanum - en nákvæmlega ekkert er að. Þessar fullkomlega fínu vörur enda alltof oft í ruslinu, en talað er um að einn af hverjum þremur innkaupapokum sem við kaupum, fari beint í ruslið. Það er skelfileg sóun, bæði á peningum viðskiptavina og svo auðvitað skelfilegt fyrir umhverfið okkar. Minni sóun er hagur okkar allra.”

Gísli segist spenntur fyrir að sjá hvernig stemningin verði í garðinum í ár og býst við að fá jafnvel fleiri gesti í tjaldið en áður. Sjálfur segist hann finna fyrir vaxandi meðvitund og áhuga viðskiptavina í verslunum Nettó á að kaupa í dag - borða í dag nálguninni svokölluðu.

„Við erum upptekin af að taka þær vörur sem eru komnar á síðasta sjéns eða eru ólukkulegar í útliti og setja á afslætti með það fyrir augum að minnka það sem endar í ruslinu hjá okkur. Þetta hefur gefist einstaklega vel og þessar vörur staldra yfirleitt ekki lengi við. Við getum ekki annað en fagnað því.”

Gísli segir alla hjartanlega velkomna í Nettó tjaldið í Hljómskálagarðinum þar sem þau Hjálmar og Eva Ruza blása í „súpulúðra” á slaginu 18.00 og bjóða uppá ljúffenga súpu í boði Nettó.

En fyrir þá sem ekki komast á svæðið eða vilja galdra sína eigin diskósúpu fram dregur Gísli fram uppskriftina að þessari snilld. „Aðalatriðið er þó að nýta það sem til er hverju sinni og ekkert er heilagt þegar kemur að diskósúpunni - nema auðvitað að nýta bara allt,” segir hann að lokum.

Diskósúpa Nettó - vegan marokkó grænmetissúpa!

  • 250 gr. kjúklingabaunir
  • 1 stór laukur
  • 1 msk. ólífuolia
  • 100 gr. linsubaunir
  • 30 gr. kóríander
  • 30 gr. steinselja
  • 1 búnt sellerí
  • 250 gr. tómatar
  • 2 l vatn
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 msk. engiferduft
  • 1 tsk. túrmerik
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Saxa lauk, kóríander, steinselju og sellerí og láta malla létt á pönnu með ólífuolíunni í ca. 3 mín.
  2. Mauka tómata og setja saman við.
  3. Leyfa að malla við lágan hita í 15 mín.
  4. Bæta kryddum, kjúklingabaunum og linsubaunum auk vatns og kókósmjólkur. Þetta mallar svo í 30 mín. á sama lága hitanum og loki á.
  5. Næst er tómatpúrra sett út í og látið standa í potti í ca. 10 mín. án loks.
  6. Svo má bara njóta á fullu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál