Mataræði fólks hefur gjörbreyst frá 2003

Valentína Björnsdóttir forstjóri Móður Náttúru segir að mataræði fólks hafi …
Valentína Björnsdóttir forstjóri Móður Náttúru segir að mataræði fólks hafi breyst mjög mikið síðustu ár. mbl.is/Arnþór Birkisson

Valentína Björnsdóttir stofnaði fyrirtækið Móður náttúru ásamt eiginmanni sínum árið 2003. Síðan þá hefur margt breyst, ekki síst mataræði Íslendinga. Hún segir að fólk sé mun meðvitaðra um heilsusamlegan mat og það færist í aukana að fólk vilji mat sem minnkar kolefnissporið. 

„Mataræði fólks hefur eiginlega tekið stökkbreytingum á þessum tíma. Þegar við byrjuðum að framleiða vegan grænmetisfæði árið 2003 var það okkar sýn að matur úr jurtaríkinu yrði jafn sjálfsagður á borðum landsmanna og kjöt og fiskur. Nú tæpum 16 árum seinna er þetta orðið að veruleika og sífellt fleiri vilja hafa að minnsta kosti eina grænmetismáltíð á viku, bæði af heilsufarsástæðum og líka vegna umhverfissjónamiða. Hópur þeirra sem eru Flexiterian (sem borða lítið af kjöti og meira af baunum, grænmeti og fiski) fer ört vaxandi bæði á Íslandi og erlendis. Íslenskir sérfræðingar í lýðheilsuvísindum lögðu nýlega til við Landlæknisembættið að það endurskoði ráðleggingar sínar um mataræði Íslendinga, að það taki meira tillit til sjálfbærni og umhverfisáhrifa. Þeir leggja til dæmis til að neysla á baunum sem próteingjafa verði stóraukin sem og neysla grænmetis sem er landi og þjóð til heilla. Þessu fögnum við hjá Móður náttúru þar sem baunir, korn og grænmeti er aðaluppistaðan í okkar framleiðsluvörum,“ segir Valentína.

Valentína segir að það hafi verið mjög bratt að stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í grænmetisréttum á sínum tíma. Þegar hún er spurð að því hvers vegna þau hafi látið vaða segir hún að það hafi verið draumur hennar og eiginmanns hennar, Karls Eiríkssonar, að reka eigið fyrirtæki.

„Kalli maðurinn minn er menntaður matreiðslumaður og hafði áralanga reynslu í að matreiða grænmetisfæði. Ég hafði mikinn áhuga á því sem við getum gert sjálf til að viðhalda góðri heilsu. Ég heillaðist af óhefðbundnum lækningum og lærði svæðanudd og fleira. Við vorum mikið í jóga og leituðumst við að lifa sem heilsusamlegustu lífi.

Okkur fannst alveg vanta tilbúinn heilsusamlegan mat á markaðinn og langaði að bæta úr því. Við stofnuðum því Móður náttúru full af bjartsýni og gleði. Það veitti víst ekki af því áskoranirnar urðu æði margar og mikill og harður skóli tók við. Ef ekki hefði verið fyrir þennan góða tilgang að framleiða hollustufæði fyrir þakkláta viðskiptavini er ég ekki viss um að við hefðum haldið þetta út. Það kostar mikla vinnu og úthald að koma fyrirtæki á legg og eins og í okkar tilfelli var markaðurinn afar smár og framleiðslan dýr og mannfrek. Svo bætti kannski ekki úr skák að við vorum reynslulaus í fyrirtækjarekstri. En með frábæru starfsfólki í gegnum tíðina og góðum birgjum tókst þetta og almenningur er orðinn mun opnari fyrir grænmetisréttum.

Það vita það allir í dag að það skiptir miklu máli fyrir góða heilsu að næra sig vel, grænmeti, baunir og korn innihalda mikið að vítamínum, steinefnum, trefjum og öðrum hollefnum sem eru líkamanum lífsnauðsynleg. Því meira sem við borðum af hollu fæði því minna langar mann í lélegt skyndibitafæði sem eiginlega rænir orkunni frekar en að auka hana.

Á hinn bóginn gerist það líka að mikil neysla á lélegu skyndibitafæði virðist minnka löngunina í hollara fæði. Það eru því miður alltof margir sem eru fastir í þessum vítahring og skilja ekkert í af hverju þeir eru alltaf þreyttir og orkulitlir,“ segir hún og játar að hún hafi oft dottið í þann pytt sjálf.

„Ég þekki þetta líka á eigin skinni. Það er auðvelt að detta í sukkið þegar maður er þreyttur og varnarlaus. Þá getur léleg skyndibitamáltíð verið skammvin sæla sem gerir ekkert fyrir mann. Eitthvað annað en vel samsett máltíð úr jurtaríkinu sem gefur manni meiri lífsgleði, betri svefn, betri meltingu og góða orku sem endist manni í erli dagsins. Jurtafæði getur líka hjálpað til við þyngdartap, þar sem grænmetisfæði er trefjaríkt og yfirleitt hitaeiningasnautt, en gefur góða fyllingu, svona fyrir þá sem eru að pæla í því. Svo hefur grænmetisfæði mun minna kolefnisspor en matur úr dýraríkinu. Bara með því að bæta máltíðum úr jurtaríkinu inn í matseðilinn okkar getum við haft veruleg áhrif til góðs þegar kemur að loftlagsmálum. Þar verðum við öll að hugsa okkar gang og gera betur,“ segir hún.

Valentína segir að það sé áskorun að vera í fyrirtækjarekstri á Íslandi enda sé samkeppnin mikil.

„Samkeppnin er vissulega góð fyrir neytendur en það getur verið erfitt fyrir lítið íslenskt matvælafyrirtæki að mæta þessum mikla innflutningi sem hægt er að bjóða á betra verði í krafti stærðarinnar. En auðvitað fagna ég því að fólk hafi fleiri valmöguleika. Við getum allavega verið stolt af okkar gæðaframleiðslu sem við leggjum líf okkar og sál í.

Umhverfismálin eru ofarlega á baugi núna og umbúðamál mikið í umræðunni. Því miður hefur okkur ekki tekist enn að finna umbúðir sem ekki eru úr plasti og henta okkar framleiðslu, en við erum að leita nýrra leiða og umhverfisvænna lausna og trúum því að við munum finna betri umbúðir. Að sjálfsögðu eru allar okkar umbúðir endurvinnanlegar.“

Baunir og bygg gera kraftaverk

Maturinn frá Móður náttúru er að mestu leyti handgerður en þau framleiða mikið af grænmetisbuffum þar sem byggi og baunum er blandað saman þannig að samsetningin verði rétt.

„Með byggi og baunum fáum við góð prótein og flókin kolvetni sem eru líkamanum lífsnauðsynleg. Vegan lasagnað okkar er mjög vinsælt, enda þægilegur tilbúinn hollusturéttur sem þarf aðeins að hita. Við höfum verið að uppfæra uppskriftirnar okkar og breyta umbúðum, núna nýlega breyttum við indversku pönnukökunum okkar, jukum grænmetið og gerðum þær aðeins sterkari. Þær hafa alveg slegið í gegn hjá þeim sem hafa smakkað. Einnig framleiðum við mikið af pottréttum en þeir eru einungis seldir á mötuneytamarkaði og það er aldrei að vita nema að þeir komi aftur í verslanir.“

Grænmetisréttir fara betur með jörðina en mikið kjötát. Hvað getur hinn venjulegi Magnús Magnús Magnússon gert til að bæta meira grænmeti inn í líf sitt ef hann er ekki vanur að borða grænmetisrétti?

„Þeir sem eru ekki vanir grænmetisfæði gætu byrjað smátt og smátt með því að hafa meira grænmeti með sínum hefðbundna mat og minna kjöt og jafnvel inni á milli sleppt alveg kjötinu eins og t.d. að fá sér grænmetisborgara í stað kjötborgara. Ég skora á alla að prófa ef þeir hafa ekki smakkað og ef þú vilt fara fljótlegu leiðina þá eru Hamborgarabúllan og fleiri staðir með grænmetisborgara frá Móður náttúru og hafa vinsældir þeirra aukist mikið undanfarin ár. Baunir eru góður próteingjafi sem getur komið í staðinn fyrir prótein úr kjöti. Flestir þurfa að venjast því að borða baunir og því er ágætt að byrja á litlu magni af þeim svo þær valdi ekki óþægindum.

Það má nota réttina frá Móður náttúru á ýmsa vegu og eru þeir upplagðir með í nestispakkann á ferðalögum þar sem þeir eru allir fulleldaðir og má borða kalda. Indversku pönnukökurnar eru til dæmis frábært göngunesti enda bragðmiklar og nærandi. Vegan lasagne er alveg frábært með góðu grænu pestói og soðnu brokkolíi, það er máltíð sem ég verð ekki leið á, alltaf jafn gott og saðsamt.“

Þegar Valentína er spurð út í vöruþróun segir hún að þau hjónin hafi þróað alla sína rétti sjálf.

„Við erum mjög hrifin af indverskum mat sem og Miðjarðarhafsmataræði og sækjum svolítið innblástur þaðan. Flestar okkar uppskriftir eiga uppruna sinn á hugarflugsfundum sem eiga sér stað í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni. Svo tökum við hugmyndirnar og útfærum þær á blaði og gerum tilraunir í eldhúspottunum. Þegar uppskriftin er tilbúin sendum við hana í Sýni sem er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki fyrir matvælaiðnaðinn. Þeir reikna út næringargildin fyrir okkur og koma með góðar ráðleggingar ef með þarf varðandi samsetningu vörunnar.“

Hvernig er að vinna með makanum sínum alla daga, eru einhver skil á milli vinnu og einkalífs?

„Fyrstu árin einkenndust af botnlausri vinnu og það var lítið annað sem komst að en að hugsa um fyrirtækið og reyna að passa í þennan alltof stóra stakk sem við vorum búin að sníða á okkur. Það kom alveg fyrir á kvöldin að maðurinn minn bað mig um að hætta að tala um vinnuna og fara að sofa.

Í dag erum við reynslunni ríkari og fyrirtækisreksturinn hefur náð góðu jafnvægi. En vissulega eru margir boltar á lofti og það fylgir því mikil ábyrgð að reka fyrirtæki, því er svo nauðsynlegt að taka sér gott frí inni á milli og hlaða batteríin og njóta samvista við fjölskylduna. Útivera er mér mjög mikilvæg og veit ég fátt betra til að endurnýja lífsorkuna en að taka góða göngu úti í náttúrunni.

Starfið mitt er mjög fjölþætt. Það getur verið mjög krefjandi að bera marga ólíka hatta sama daginn, en þannig gengur það fyrir sig í litlum fyrirtækjum. Eigendur þurfa að geta gengið inn í mörg ólík störf. Ég hef sótt námskeið í stjórnun og það hefur gefið mér mikið. En mest hef ég farið þetta á hyggjuvitinu og reynt að gera mitt besta og vera sanngjarn vinnuveitandi, starfsmaðurinn er jú það dýrmætasta sem fyrirtækið hefur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál