Með varanlegt lýti í andliti eftir fylliefni

Íslensk kona er með varanlegt lýti í andliti eftir fyllingarefni.
Íslensk kona er með varanlegt lýti í andliti eftir fyllingarefni. Thinkstock

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem fór í gelísprautun fyrir þremur árum og finnst hún vera með varanlegt lýti í andlitinu. 

Sæl Ragna. 

Eftir að hafa farið í gelísprautun undir augu fyrir 3 árum er mikill roði og fjólublár blær undir augum þar sem efninu var sprautað. Þetta er mikið lýti í andlitinu og t.d eftir sólbað er þetta verulega slæmt. Er eitthvað hægt að gera til að draga úr þessum bláma sem liggur eins og í boga undir augunum? Þetta er meira áberandi öðrum megin, eða þeim megin þar sem blæddi verulega mikið á meðan meðferðin fór fram og þar myndaðist mikið glóðarauga. Ég sé mjög mikið eftir því að hafa farið í þessa meðferð og finnst ég vera komin með varanlegt lýti eftir þetta. Langar að athuga hvort hægt sé að leiðrétta þetta lýti, það er að segja blámann, sem ég ber eftir meðferðina því hann var svo sannarlega ekki til staðar fyrir meðferðina.

Kveðja, KK

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl og blessuð,

Ísprautun með fylliefnum er vandasamt verk og á eingöngu að vera í höndum sérfræðinga með þekkingu og reynslu. Fylliefni undir augun (tear trough meðferð) er sérstaklega vandmeðfarin og þarfnast mikillar kunnáttu á uppbyggingu vefja og beina í andlitinu enda grundvallaratriði að fylliefnið endi á réttum stað. Ef fylliefni eru sett of grunnt undir augun getur komið bláleitur blær á húðina, svokölluð Tyndall áhrif og það hljómar eins og þú sért að kljást við þetta vandamál. Einnig er mikilvægt að velja rétt fylliefni á þetta svæði því of þykk og stíf fylliefni koma yfirleitt ekki vel út.

Annað sem er vert að hafa í huga er að setja ekki of mikið fylliefni undir augun því hýalúronsýran dregur í sig mikinn vökva og of mikið efni getur hreinlega látið augun líta út fyrir að vera meira bólgin eða jafnvel ýkt baugana!

Í flestum tilvikum er hægt að leysa upp fylliefni með lyfi sem inniheldur ensím sem brýtur niður hýalúrónsýruna en lyfið fæst eingöngu á undanþágulyfseðli og er því einungis í höndum lækna með sérfræðiþekkingu. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvaða efni voru notuð í þínu tilviki þar sem fylliefni endast öllu jöfnu ekki lengur en 1-2 ár, sérstaklega þynnri fylliefnin sem eru oftast notuð á svona viðkvæma staði eins og undir augun.

Eðlilegast væri að að þú leitaðir fyrst til þess meðferðaraðila sem framkvæmdi meðferðina á þér og látir athuga hvort ekki þurfi að leysa upp fylliefnið en annars hafa húðsjúkdómalæknar og lýtalæknar aðgang að efninu sem leysir upp fylliefni.

Gangi þér vel,

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is