Hamingjan ekki mæld á vigtinni

Arna segist aldrei sjá eftir því að fara á æfingu.
Arna segist aldrei sjá eftir því að fara á æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Arna Kara Davíðsdóttir Engley er að flytja aftur heim til Íslands ásamt fjölskyldu sinni eftir þriggja ára námsdvöl í Danmörku. Arna hefur verið dugleg að mæta á æfingar og borða hollan mat síðustu ár þrátt fyrir að það hafi verið mikið að gera hjá fjölskyldunni á erlendri grundu. Hún segir ákveðna hugarfarsbreytingu hafa orðið þegar hún hætti að hugsa um hreyfingu sem kvöð. 

Í dag stundar Arna crossfit fimm til sex sinnum í viku.

„Ég hef virkilega fundið mig í þeirri íþrótt þar sem ég er með mikið keppnisskap og elska að sjá árangur. Í crossfit er alltaf eitthvað sem maður getur bætt sig í sem mér þykir skemmtilegt,“ segir Arna.

Betra að hreyfa sig lítið en ekkert

Hvernig hefur þér tekist að koma hreyfingu inn í hina venjulegu rútínu?

„Það hefur verið erfitt með tvö börn að finna alltaf tíma til að æfa en gott skipulag og stuðningur maka og fjölskyldu er lykilatriði. Það koma auðvitað dagar þar sem ekki allt gengur að óskum en það er gangur lífsins. Þá geri ég heimaæfingar sem ég geri með dætrum mínum eða á leikvellinum á meðan þær leika sér.

Ég reyni að hafa það að leiðarljósi að lítið er betra en ekkert. Ég fer frekar heldur en að fara ekki. Oftast þegar ég er komin framkvæmi ég miklu meira en ég hélt að ég myndi gera og það er mín leið til að yfirstíga afsakanirnar sem ég á það til að hugsa með sjálfri mér, eins og ég er of þreytt í dag eða ég á skilið smá pásu. Einnig reyni ég að einblína á vellíðanartilfinninguna eftir æfingu, það kemur mér oftast af stað. Hingað til hef ég aldrei séð eftir æfingu sem segir allt sem segja þarf.“

Arna lítur á tímann sem hún hreyfir sig sem tíma til þess að kúpla sig út úr hversdagsleikanum.

„Breytingin varð þegar ég áttaði mig á að hreyfing væri ekki kvöð heldur skemmtileg og bætti mína andlegu líðan. Ég lít á hreyfingu sem minn tíma (e. me time). Þetta er tíminn sem ég kúpla mig út úr hversdagsleikanum, móðurhlutverinu, eiginkonuhlutverkinu og nýt þess að æfa. Þetta er nánast eins og að fara í sálfræðitíma. Ég kem alltaf endurnærð eftir hverja einustu æfingu og nýt þess í hvert skipti. Fyrir vikið verð ég betri mamma, eiginkona, vinkona og einstaklingur.“

Arna segir að það hafi verið erfitt að finna rétta mataræðið en að lokum styður góð hreyfing við hollt mataræði.

„Að hreyfa mig fær mig til að vera skipulagðari hvað mataræðið varðar. Ég plana hvað ég borða yfir daginn eftir því hvenær ég æfi og það heldur mér á góðu róli. Það verður miklu auðveldara að halda rútínu og skapar hollar venjur þegar mataræði og hreyfing haldast í hendur.“

Mynd af Örnu sem tekin er með fjögurra mánaða millibili. …
Mynd af Örnu sem tekin er með fjögurra mánaða millibili. Arna leggur áherslu á að elska sig. Eins og hún er og var. Ljósmynd/Aðsend

Gengur vel á ketó

„Ég hef verið á lágkolvetna mataræði nánar tiltekið ketó í heilt ár núna. Það hefur reynst mér vel þar sem ég er kolvetnafíkill. Ég hef aldrei kynnst mataræði sem hefur hentað mér eins vel og þetta. Ekki það að ég sé að segja að ketó sé það eina sem virkar en það virkar vel fyrir mig þar sem mér finnst ég ekki vera á takmörkuðu „bann“ mataræði því ég get enn borðað allt sem mér þykir gott. Ég geri bara hollari útfærslur af því. Ég baka eigin brauð og baka kökur og elda flest allt frá grunni fyrir vikið er ég miklu duglegri að elda. Þegar ég er ekki heima og er ekki búin að útbúa mat til að taka með mér þá einblíni ég á að velja hollari kostinn í hvaða kringumstæðum sem ég er í. Ég reyni að halda mér frá brauði og sykri eins og ég get. Mér finnst mikilvægast að borða til að geta staðið mig sem best á æfingum og til að hafa orku í öll daglegu verkin.“

Hefur þú gengið of langt til þess að reyna að grenna þig?

„Ég hef verið á hinum ýmsu mataræðum og prófað mig áfram. Ég hef tvisvar sinnum létt mig um 20 kíló með mismunandi leiðum. Þegar ég lít til baka myndi ég segja að ég hafi gengið of langt með sumt. Ég féll í þá gryfju að kaupa vörur sem voru markaðssettar sem hollar og áttu að skila hröðum árangri en þegar upp er staðið hefur ekkert af því virkað til lengdar.“

Hvað finnst þér gott að hafa í huga til þess að ná árangri sem endist?

„Ég er á þeirri skoðun að það eru engar skyndilausnir að fara virka til lengdar, enginn sleikjó, kaffi, sheikar, pillur, djúsar eða hvað það er nú reynt að selja manni. Grundvöllurinn að heilsu er að hreyfa sig og borða hollt. Hljómar einfalt en auðvitað er þetta ekki einfalt, þetta er stanslaus vinna. Það er mikilvægt að temja sér góðar venjur sem verða að lífstíl og þá hættir þetta að líða eins og tímabundið ástand.“

View this post on Instagram

It doesn’t get easier you just get stronger 💪🏻

A post shared by Arna Davidsdottir Engley (@arnaengley) on Feb 16, 2019 at 5:35am PST

Arna segir mikilvægt að fólk haldi áfram og gefist ekki upp sama hvað bjátar á. Sjálf var hún lengi föst í allt eða ekkert hugarfarinu.

„Ég ákvað að ég væri búin að eyðileggja daginn ef ég borðaði eitthvað óhollt og það tæki því ekki að hreyfa mig. Sem er svo röng hugsun. Það er alltaf góð hugmynd að hreyfa sig. Ef maður sukkar yfir helgi eða jafnvel lengur þá snýst þetta um að halda áfram sama hvað. Það er eðlilegt að maður sé ekki alltaf í stuði. Það koma auðvitað lægðir og það er allt í lagi.“

Elskaðu manneskjuna sem þú ert í dag

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum?

„Það er ákveðin pressa frá samfélagsmiðlum en ég passa mig að fylgja þeim sem láta mér líða vel og eru á sama máli og ég. Ég finn fyrir jákvæðum áhrifum því ég kýs að sjá það jákvæða. Ég er mikið fyrir að sýna lífið í réttu ljósi því maður á það til að sýna aðeins yfirborðskennda hluti á samfélagsmiðlum. Ég er öll fyrir „body positivity“ og að elska sig eins og maður er. Fyrir mér er það að hugsa um heilsuna sína einn þáttur í því að elska sjálfan sig. Ekki eins og þú stefnir á að vera heldur að elska þá manneskju sem þú ert núna. Því líkaminn er magnað fyrirbæri hann breytist með árunum og maður fær bara einn, þess vegna er lykilatriði að hlúa að honum.“

Markmið Örnu hafa breyst mikið í gegnum árin. Hún segir að áður fyrr hafi hún sett sér markmið í tengslum við ákveðna kílóatölu eða ákveðið útlit. Hún komst þó að því að hún varð ekkert hamingjusamari þegar hún náði þessum útlitstengdu markmiðum.

„Núna hef ég lært að elska ferlið og markmiðin hafa breyst. Mín markmið eru að verða sterkari á ákveðnum sviðum, að mæta á æfingar er það sem ég stefni á. Mig langar líka til að hreyfa mig meira með eldri dóttur minni, jafnvel byrja með fjölskyldutíma í crossfit, það heillar mig mjög,“ segir Arna að lokum um markmið vetrarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál